04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

68. mál, fræðsla barna

Hákon Kristófersson:

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 175 vildi jeg leyfa mjer að beina þeirri spurningu til háttv. flm., hvort hann ætlast til, að prestum sje borgaður ferðastyrkur aðeins fyrir ferðir sínar til eftirlits með barnaprófum, eða hvort þessi ferðakostnaður eigi að ná til húsvitjunarferða.

Eftir orðanna hljóðan má skilja brtt. þannig, að hún nái einnig til húsvitjunarferða. Ef það tíðkaðist, að þeir tækju ferðastyrk fyrir húsvitjunarferðir, held jeg, að það mundi gera þá óvinsæla í sveit sinni, enda virðist mjer ekki geta komið til mála að launa þá sjerstaklega fyrir að gera embættisskyldu sína, sem húsvitjanaferðir eru.

Hinsvegar býst jeg ekki við, að meiri hl. presta mundi notfæra sjer þessi fyrirmæli, en samt sem áður eiga þau ekki að eiga sjer stað.

Jeg held, að háttv. deild geti tæplega staðið sig við að samþykkja brtt. á þskj. 191 frá háttv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.), því jeg sje ekki, að hún sje til annars en gera 3. gr. frv. miklu óaðgengilegri en annars.

Að lokum vildi jeg leyfa mjer að skjóta því til háttv. flm. brtt. á þskj. 175, hvort hann sjái sjer ekki fært að taka tillöguna aftur, því að jeg hygg, að hún yrði mjög óvinsæl hjá almenningi, ef hún yrði að lagaákvæði.