05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

58. mál, atvinna við siglingar

Hákon Kristófersson:

Jeg ætla ekki að andmæla frv. Það er aðeins 3. brtt. á þskj. 190 við 7. gr., sem jeg get ekki samþykt. Ef þörf er á að flytja þessi próf til Reykjavíkur, og því vil jeg ekki bera á móti, þá á að uppfylla þá þörf sem fyrst. Mjer skilst, að þetta eigi að gera til þess, að betur og tryggilegar verði um prófin búið, en slíka tryggingarráðstöfun á þá ekki að draga á langinn eða fresta henni í tvö ár, eins og nefndin leggur nú til, þvert ofan í fyrri tillögur sínar. Það er mikið rjett, eins og hv. frsm. (Ó. P.) tók fram, að það er mikil trygging, að skólastjóri stýrimannaskólans tilnefnir mennina.

Hinsvegar lít jeg svo á, að þessi undanþága sje að ófyrirsynju leyfð. Hefði legið nær, ef undanþágu átti að veita á annað borð, að undanskilja engan stað, sem þessi próf hafa áður farið fram á.

Hv. frsm. benti á þann mikla fjölda, sem nú þyrfti að taka próf, en sú ástæða er mjer einskis virði. Enda geta jafnmargir þurft að taka það síðar. Annars þykir mjer mjög einkennilegt, ef það eru um 70 manns í Vestmannaeyjum einum, sem undir próf þetta þurfa að ganga, enda þótt sjávarútvegur sje þar mikill.

Verð jeg, þótt jeg unni lögunum alls góðs, að leggjast á móti þessari brtt. og vil jeg ráða hv. deild til að samþykkja hana ekki. Er þetta ákvæði, að prófin fari fram í Reykjavík, tryggingarráðstöfun, og mælir því ekkert með því að fresta henni og engin ástæða er til þess að veita þessum stöðum undanþágur.