10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

58. mál, atvinna við siglingar

Karl Einarsson:

Jeg skal með örfáum orðum skýra helstu breytingar, sem frv. þetta fer fram á, að gerðar sjeu á nú gildandi lögum.

Fyrsta breytingin, sem frumvarp þetta fer fram á, er sú, að menn, sem áður höfðu rjett til að fara með smáskip, frá 12–30 rúmlestir að stærð, megi nú fara með skip, sem eru alt að 60 rúmlestir. En af þessari rýmkun leiðir aftur, að rjett þykir að gera kröfurnar til þessara manna strangari. Helsta breytingin, sem gengur í þá átt, er sú, að eftir þessu frv. eiga allir, sem ætla sjer að verða skipstjórar á smáskipum, að hafa verið stýrimenn, eigi skemur en 8 mánuði, á skipi yfir 12 rúmlestir. Þá hefir þótt rjett að sjá um, að þeim mönnum, sem ganga þurfa undir próf samkvæmt þessum nýju reglum, verði eigi gert mjög erfitt fyrir, — og með það fyrir augum er 7. gr. bætt inn í frumvarpið.

Helstu breytingar í síðari hluta frumvarpsins eru þær, að siglingatíminn er færður úr 2 árum upp í 3 ár og að hann miðast einungis við 16 ára aldur, og ennfremur er 16. gr. feld niður, og getur það tæplega verið hættulegt. Aftur á móti er 17. gr. ný, og verður hún að teljast nauðsynleg, ef 1. kafla laganna er breytt, því að ákvæði verður að vera um það, að hægt sje að veita undanþágur, svo að þeir menn, sem rjett hafa til að vera skipstjórar á 30 rúmlesta skipum, missi eigi þann rjett, sem þeir nú hafa.