04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1035)

80. mál, stofnun landsbanka

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg stend ekki upp til að vekja deilur.

Það er rjett, að bankastjórarnir eru embættismenn ríkisins. En það er samt ekki hægt að bera þá saman við allan þorra embættismanna. Embættismönnum þessa lands, að undanteknum hæstarjettardómurunum, er alls ekki bannað að vinna að ýmsu öðru, enda gera þeir það margir. Bankastjórarnir hafa eflaust nóg um að hugsa og nógar áhyggjur, þó þeir þurfi ekki að bera kvíðboga fyrir efnalegri afkomu sinni.

Jeg hefi áður sagt, að laun embættismanna væru alt of lág. Sjerstaklega voru þau það þó á árabilinu 1916–1919, því þá voru launin miðuð við hið lága verð sem áður var á öllum nauðsynjum. Og sú litla dýrtíðaruppbót, sem þá var veitt, náði skamt til að bæta upp þá dýrtíð, sem þá var orðin. Er það ekki saman berandi.

Á þeim árum mistu margir embættismenn enn fremur tekjur, sem þeir höfðu áður haft; t. d. var svo háttað skipagöng um þá, að embættismenn mistu nær því allar aukatekjur af þeim. Hjer er sjerstaklega átt við bæjarfógeta og sýslumenn, sem urðu mjög hart úti í þessu efni. Jeg sje þó ekki, að hægt sje að bera laun bankastjóranna saman við laun annara starfsmanna ríkisins, nema þá væri hæstarjettardómaranna, og má vera, að laun þeirra sjeu líka of lág. Þeim er þó aðeins bannað að sitja á þingi, en bankastjórum er bönnuð öll önnur vinna. Enda er þetta mikil ábyrgðarstaða, og þarf því að vera vel launuð.