05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1076)

59. mál, atkvæðagreiðsla fjarstaddra manna við alþingiskosningar

Magnús Jónsson:

Ef allir ættu að geta kosið, sem kosningarrjett hafa að lögum, yrði að búa svo um, að kosning gæti farið fram á hverju heimili. Út á þá braut var þó varla gerlegt að fara, en nefndin hefir hins vegar viljað gera nokkra bót á þeirri skerðingu kosningarrjettarins, sem nú á sjer stað, með því að veita farlama mönnum rjett til að greiða atkvæði, ef þeir komast ekki á kjörstað. Á hinn bóginn var svo þess að gæta, að þessi undanþága yrði ekki misbrúkuð taumlaust, og það máske svo, að menn sæju eftir að hafa veitt hana og færu á stúfana til þess að fá hana afnumda. Í þessu skyni setti nefndin þennan hemil í frv., að vottorð um forföll skyldi gefið af lækni eða hreppstjóra. Ef það er látið nægja, að tveir skilríkir menn gefi vottorðið, þá er í raun rjettri hlerinn tekinn með öllu úr flóðgáttinni, því að það hljóta allir háttv. þm. að þekkja, að „skilríkur“ er nálega hver sótraftur til þessa brúks, svo að eins mætti þá láta tvo menn votta án frekari ákvæða. Nú er það vitað, að læknar og hreppstjórar geta brugðist eins og aðrir, en bæði má jafnaðarlega vænta þess, að ekki sjeu aðrir í hreppstjórastöðu en úrvalsmenn, og auk þess er meiri ábyrgð á slíkum mönnum við vottorðagjafir í embættisnafni. Yfirleitt vildi jeg leggja áherslu á það, að frv. yrði samþykt eins og nefndin gekk frá því.