25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

139. mál, fjáraukalög 1923

Forsætisráðherra (SE):

Af því að jeg býst ekki við að taka oftar til máls við þessa umræðu, vil jeg leyfa mjer að gera fáeinar athugasemdir nú þegar.

Háttv. 2. þm. Skagf. (JS) sagði, að ef farið væri út á þá breiðu braut að bæta stúdentum upp gengishalla. ættu þeir menn að njóta sama styrks, sem stunda nám við landbúnaðarháskólann. Jeg get fallist á þetta, því að hjer mun ekki vera að ræða um marga menn. Þessi upphæð. 5000 kr., er ekki áætlunarupphæð, og kemur því ekki mikið í hlut hvers eins, en þó mætti hún verða að nokkru gagni. Aðstandendur stúdentanna munu eiga nógu erfitt með að leggja þeim sæmilega fjárhæð í íslenskum krónum, þó þeir losni við nokkuð af gengismuninum.

Þá vil jeg minnast á brtt. mína um 7500 kr. til þess að senda fulltrúa á fund erlendis. Svo mun verða álitið, að þetta sje gert í ósparnaðaráttina. En svo ekki. Þetta er beinlínis gert í sparnaðar skyni. Þegar sótt hefir verið um ferðastyrk í gagnlegu augnamiði. hefir Alþingi samþykt það því nær undantekningarlaust. Nú liggja fyrir margar umsóknir; allar er ekki hægt að taka til greina, og þar sem nokkur vandi er að gera upp á milli þeirra manna, sem um styrkina sækja, þá virðist rjett, að þessi vandi sje lagður á herðar stjórnarinnar, heldur en að alt þingið fari í öllu annríkinu að gera upp á milli þessara manna. Þetta er að vísu vanþakklátt verk, en þó mun stjórnin ekki skorast undan að takast það á hendur. Á síðasta þingi var stjórninni falið annað svipað starf, en gegn mótmælum mínum, en það var úthlutun listamannastyrksins. (PO: Það tókst líka illa. Áður hafði sjerstök nefnd haft það hlutverk, og var það fyrirkomulag tekið upp í fyrstu eftir tillögu frá mjer. Jeg mælti eindregið á móti því, að þessi nefnd yrði lögð niður, en því var ekki sint. Háttv þm. Borgf. (PO) sagði, að úthlutunin hefði tekist illa. Jeg var sjálfur óánægður með hana, en þóttist ekki geta gert betur. Upphæðin var svo lítil, að úr mjög vöndu var að ráða, og þó að einhver kunni að segja, að þessi og þessi hefði átt að ganga fyrir, er það jafnan mikið álitamál. Ef jeg ætti að úthluta þessum styrk aftur, mundi jeg láta ýmsa njóta hans, sem afskiftir urðu í þetta sinn. Meðan upphæðin er ekki hærri en þetta, verða menn að skiftast á að njóta styrksins; sömu mennirnir geta ekki fengið hann ár eftir ár. En jeg væri mjög þakklátur, ef það ákvæði yrði aftur tekið upp í fjárlögin, að sjerstök nefnd skuli annast þessa úthlutun. Það má vel gera láð fyrir því, að slík nefnd hefði að jafnaði betra vit á þessu en stjórnin, enda má altaf drótta því að hverri stjórn, að hún ljeti pólitískar ástæður ráða, þó jeg hafi ekki heyrt þá ásökun nú. Jeg vona, að háttv. 2. þm. Skagf. (JS) viðurkenni, að það væri sparnaður að því að ákveða utanfararstyrkinn á þennan hátt, en það væri betra fyrir stjórnina, að þingið sjálft úthlutaði honum, því að úthlutun stjórnarinnar gæti jafnan orkað tvímælis.

Þá kem jeg að orðabókinni. Jeg hefi þegar gert allrækilega grein fyrir þessari tillögu, en það var sjerstaklega eitt atriði í ræðu háttv. 2. þm. Skagf. (JS), sem jeg hjó eftir. Háttv. þm. lagði áherslu á, að bókin væri ekki fyrst og fremst fyrir oss Íslendinga. Þetta hygg jeg alrangt. Vjer höfum nú eignast sæmilega orðabók yfir mál vort í ræðu og riti, miklu nákvæmari og fyllri en mjer höfum átt áður. Orðabókin hefir vakið mikla athygli úti um lönd og aðdáun vísindamanna í þessari grein. Um hana hefir verið ritað mjög lofsamlega af vísindamönnum í Danmörku, Noregi, Þýskalandi og víðar, og hjer heima hafa birst lík ummæli frá manni, sem hefir mjög mikið vit á þessu. Þá stuðlar orðabókin betur að því en flest annað að auka þekkingu útlendinga á íslensku máli og lifnaðarháttum, bæði með beinum upplýsingum og í annan stað með því að gera útlendingum aðgengilegra að lesa íslensk rit. Loks stuðlar bókin mikið að því að efla vísindalegar rannsóknir á íslenskri tungu. Jeg hefi borið þetta undir sjerfróða menn, og taka þeir allir undir, að þetta sje rjett í alla staði. Skilningur þessara manna, sem anda og lifa í þessum vísindum, er sá, að orðabókin sje á margvíslegan hátt afar mikilvæg fyrir íslenska tungu og þjóðleg fræði.

Við þetta bætist, að með þessari fjárveitingu fást 25000 kr. annarsstaðar, sem orðabókin mundi verða af með öllu, ef þetta yrði felt. Þegar litið er á þetta, og svo hitt, hve afarmikla þýðingu bókin hefir fyrir tungu vora, virðist mjer vel til fallið að samþykkja þessa fjárveitingu. Með því er trygt, að stöðugt verði unt að vinna að þessu verki, án þess að nokkurt hlje verði á. Vona jeg, að jeg hafi, með þessum orðum sýnt fram á, að þetta mál snertir þjóð vora sjerstaklega.