01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

139. mál, fjáraukalög 1923

Forsætisráðherra (SE):

Það var eitt atriði í ræðu háttv. þm. Borgf. (PO), sem jeg get ekki látið vera að mótmæla strax, en það var, að stjórnin hefði ekki álitið Jakob Thorarensen verðan skáldastyrks. Þetta er nefnilega alveg öfugt við það, sem jeg hefi haldið fram, því að jeg hefi einmitt sagt, að ætti jeg að ráða um úthlutun þessa styrks næsta ár, þá skyldi bæði þessi maður og Stefán frá Hvítadal fá hann, því að jeg tel þá báða góð skáld, sem eigi viðurkenningu skilið. Annars þótti mjer undarlegt, þegar hv. þm. (PO) var að tala um styrk þennan sem námsstyrk, því að til þessara manna getur ekki verið um slíkan styrk að ræða, heldur einungis verðlaun eða viðurkenningu. Og eigi að veita slík verðlaun öllum, er talist geta góð skáld, þá þarf að hækka styrk þennan. Og ætlist háttv. þm. Borgf. (PO) til, að verðlaun þessi sjeu veitt á hverju ári, þá þarf hann að koma með tillögu um að hækka upphæðina að miklum mun. Jeg skyldi síst vera á móti því, því að enginn hefir fundið það betur en jeg, hversu lítill styrkur þessi hefir verið, þegar átt hefir að fara að úthluta honum.

Annars þarf að leggja annan mælikvarða á námsstyrkina en þá styrki, sem veittir eru í viðurkenningarskyni, og eigi að veita þá á hverju ári, þá þarf að setja þá í aðra grein í fjárlögunum.

Ef litið er á, hvernig styrk þessum hefir verið úthlutað, þá er ekki hægt að segja, að nokkur óverðugur hafi fengið hann, en margir ekki fengið hann, sem hans voru þó maklegir, af því fjeð vantaði.