12.05.1923
Efri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1493 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

139. mál, fjáraukalög 1923

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það var aðeins stutt athugasemd viðvíkjandi „diathermi“-áhaldinu. Jeg hygg, að engir ólæknisfróðir menn hjer á landi þekki þetta áhald betur en jeg, því að jeg hefi notað það undir handleiðslu bestu lækna í Danmörku þrisvar sinnum, í tvö skiftin 6 vikur í senn, en í þriðja skiftið nokkru skemur. Jeg þykist því geta talað af nokkurri reynslu um málið. Áhald þetta, sem er tiltölulega nýtt, — það eru eigi nema 4–5 ár síðan fyrst var farið að nota það á Norðurlöndum, — er svo hættulegt, ef því er eigi rjett beitt, að það er algerlega frágangssök að afhenda það til notkunar öðrum en sjerfróðum mönnum, og þeim sjerstaklega gætnum og samviskusömum. Í höndum slíkra manna er áhaldið hið ágætasta. Hvað það snertir, að læknislyf geti einnig verið tvíeggjað sverð, þá er því til að svara, að það er hið minsta, sem heimtað verður af læknum, að þeir kunni að fara með almenn lyf, en hvað snertir þetta áhald, þá þarf, eins og jeg þegar hefi tekið fram, sjerfróðan mann til þess að fara með það, svo að eigi hljótist slys af. Skal jeg í þessu sambandi geta þess, að árið 1921 var jeg nokkrar vikur samtíða konu á alþektum baðstað í Danmörku. Kona þessi varð fyrir þeirri ógæfu, að ungur, óreyndur læknir notaði áhald þetta við hana. Hún fjekk sár og varð að vera 6 mánuði til lækninga, í stað þess, að ef alt hefði gengið vel, hefði hún eigi þurft að vera lengur en 6 vikur. Um jólaleytið í vetur fjekk jeg brjef frá þessari konu, þar sem hún segir mjer, að enn sjeu ógróin sárin.

Því miður mun eigi völ á sjerfróðum manni í þessu efni hjer á landi, og af þeirri ástæðu tel jeg eigi gerlegt að kaupa þetta áhald nú, enda fæ jeg eigi annað sjeð en ef landsspítalinn má bíða, þá megi þetta áhald það engu síður.