02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1398)

106. mál, sandgræðsla

Gunnar Sigurðsson:

Jeg skal ekki tefja umr., en við vorum svo óheppnir, háttv. frsm. landbn. (PÞ) og jeg, þegar frv. þetta var hjer til 2. umr., að fjárlögin voru undir hamrinum í Ed., svo að fáir voru viðstaddir hjer í deildinni. Annars get jeg þakkað fyrir, hvað góðar undirtektir málið hefir fengið hjer í háttv. deild og að það hefir verið hafið yfir allan flokkadrátt, og er það vel. Aðalatriðið er það, að hjer er um landnám að ræða í víðtækum skilningi; það er bæði verið að nema nýtt land og vernda það, sem fyrir er. Og þó ekki sje farið fram á meira fje til þessara framkvæmda nú á þessu þingi, þá vænti jeg, að háttv. þm. verði síðar örari á fje, þegar þeir sjá, hve mikilvægt mál hjer er um að ræða.