07.05.1923
Neðri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Þessar brtt. háttv. 1. þm. Árn. (EE) eru í raun og veru alveg nýtt frv., og er þar skemst frá að segja, að jeg ræð háttv. deild eindregið til að greiða atkv. gegn þessum breytingum. Það er nú ákveðin heimild í lögum fyrir stjórnina til að rannsaka hag Landsbankans, og í reglugerð Íslandsbanka er einnig heimild til hins sama að því er þann banka snertir. Þetta ákvæði í brtt. háttv. 1. þm. Árn. (EE) er því óþarft. Þessi háttv. þm. drap á tvö atriði aðallega gegn frumvarpinu í þeirri mynd, sem það er nú: Fyrst og fremst, að það væri erfitt fyrir einn eftirlitsmann að rannsaka hag allra banka og sparisjóða landsins, og í öðru lagi væri svo mikill kostnaður því samfara, ef stofnað yrði þetta embætti. Það skal játað, að fyrst í stað yrði þetta starf erfitt, en þar sem ætlast er til, að sá maður, sem þetta verk hefir á hendi, geri það að lífsstarfi sínu, þá mundi hana brátt fá svo mikla þekkingu og komast svo inn í allan hag þessara stofnana, að verkið yrði honum fljótt auðveldara.

Heimildin fyrir stjórnina til þess að athuga bankana stendur auðvitað óbreytt, þó þetta frv. yrði samþ., en það liggur í hlutarins eðli, að tryggingin fyrir ítarlegri rannsókn er meiri, þegar maður er látinn gera hana, sem hefir ríkulegt tækifæri til þess að afla sjer allra upplýsinga um fjárhag viðskiftamanna stofnananna og þekkir, hvað hver viðskiftamaður í einni stofnuninni er einnig bundinn í hinum. Og að því er sparisjóðina snertir, þá mundi stjórnin fyrst eftir núgildandi lögum geta látið rannsaka þá, þegar þeir eru komnir á knje, en það er betra að taka fyrir meinsemdina strax í byrjun heldur en að fá skurðlækni, þótt góður sje, þegar hún er orðin lítt læknandi.

Háttv. þm. (EE) kom inn á það, að stjórnin yrði máske óánægð með þennan mann. Já, en það getur gilt um alla embættismenn. Stjórninni getur mishepnast skipun mannsins eins og hverjar aðrar embættaskipanir geta mishepnast, en það er vonandi, að til þess komi ekki.

Þá er hitt atriðið, með kostnaðinn. Ef eftirlitið ætti að verða nokkuð annað en til málamynda, þá yrði kostnaðurinn margfalt meiri, ef senda ætti menn út um land til þess að rannsaka sparisjóðina. Mundi kostnaðurinn við að senda nefndir koma hart niður á smáum sparisjóðum, en samkvæmt frv. kæmi niðurjöfnun sú á banka og sparisjóði, sem ætlað er að bera kostnaðinn, mjög ljett niður. Kostnaðurinn yrði sáralítill, í samanburði við það, sem með þessu gæti unnist. Fáein happatök hjá þessum eftirlitsmanni gætu borgað laun hans fyrir lífstíð.

Að því er snertir Eyrarbakkasparisjóðinn, skal jeg ekki fara neitt inn á það mál í þessu sambandi. En samkvæmt sparisjóðslögunum frá 1915, þá mun vera full heimild fyrir stjórnina til að láta rannsaka sparisjóði, þegar þeir eru á því stigi, sem sá sparisjóður er nú. En ýms atvik munu liggja að því, að sú rannsókn er ekki byrjuð enn, er jeg mun ekki fara út í að þessu sinni.