09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

11. mál, fátækralög

Einar Árnason:

Jeg er hæstv. stjórn þakklátur fyrir að hafa flutt þetta frv. Jeg býst við því, að fátækralögin hafi verið mjög vel undirbúin á sínum tíma og hafi átt vel við það ástand, sem þá var. En nú eru þau eðlilega orðin úrelt á margan hátt, því tímarnir breytast og mennirnir með. Jeg álít, að frv. þetta stefni í rjetta átt, þó að vitanlega megi allaf um það deila, hverju á að breyta og hverju ekki.

Jeg sje það í nál. allsherjarnefndar að hún vill gera þá verulegu breytingu, að fella niður 1.–4 gr. Jeg verð að taka það fram, að mjer er talsvert sárt um 1. og 2. gr. og get tæpast fallist á að fella þær niður. Jeg sje ekki, að hægt sje að vísa á bug þeirri sjálfsögðu sanngirni og rjettlæti, sem þar kemur fram. Það er ekki sanngjarnt að taka mannrjettindi af fátækum fjölskyldumanni vegna þess, að hann verður fyrir því óláni að missa heilsuna um lengri eða skemri tíma. Sama er að segja um gamalmenni, sem lítið hafa boðið úr býtum annað en stríð og erfiði, að taka af þeim mannrjettindi, ef þeir geta ekki bjargað sjer sjálfir. Ástæða nefndarinnar er sú, að útgjöld sveitarsjóða aukist svo mjög við þessa breytingu. Jeg sje ekki, að svo muni vera. Þetta eru útgjöld, sem hljóta að leggjast á sveitarsjóði hvort sem er, því jeg geri ekki ráð fyrir, að þessi styrkur sje veittur nema brýn nauðsyn beri til, munurinn er aðeins sá, að sveitarsjóðir eiga nú heimtingu á að fá þetta fje endurgoldið ef unt er, en samkvæmt þessum breytingum verður fjeð ekki talið til skuldar. Í raun og veru er þetta sáralítill munur, þó svo sje á pappírunum. En hitt er unnið, að bæta úr órjetti, sem of lengi hefir staðið óhaggaður.

Um 3. og 4. gr. ætla jeg ekki að fjölyrða. Jeg tel þær ekki nauðsynlegar. Aftur á móti er jeg sammála nefndinni um það, að sjálfsagt sje, að maður fari að vinna sjer sveit þegar hann er 16 ára gamall, en ekki 21 árs, eins og í frv. stendur.

Þá kemur aðalatriðið, sem er sveitfestistíminn. Jeg hefi ásamt þremur öðrum hv. deildarmönnum gert brtt. við frumvarp stjórnarinnar, að sveitfestistíminn verði 3 ár, í stað 5 ára, sem er í frumvarpi stjórnarinnar. Jeg hefði fyrir mitt leyti gjarnan getað farið neðar, jafnvel niður í 1 ár, sem yrði sama sem að dvalarhreppurinn yrði framfærslusveit. En þá yrði óhjákvæmilega að heimila sveitarstjórnum íhlutunarrjett um innflutning í hreppana. En jeg fór ekki lengra, vegna þess að jeg býst við, að það hafi ekki byr sem stendur.

Hv. frsm. (JM) sagði, að það gæti verið álitamál, hvort sveitfestistíminn ætti að vera 5 eða 3 ár, og um það mætti ávalt deila. En ef sú skoðun er rjettmæt, að menn þurfi að vinna sjer sveit, sem kallað er, þá væri eðlilegast, að hver maður ætti þar sveit, sem hann hefði unnið lengst, en það mundi reynast svo vafningasamt og erfitt til framkvæmda, að sú leið væri ófær.

Eftir núverandi ákvæðum um sveitfestistímann, þá verður niðurstaðan venjulega sú, að einstaklingrarnir vinna sjer hvergi sveit, og verður þá fæðingarhreppurinn venjulega að taka við, er sjúkdóma eða fátækt ber að höndum. En þetta er mjög ósanngjarnt, og þess vegna get jeg fyrir mitt leyti fylgt öllum þeim tillögum, er fara í þá átt að stytta sem mest sveitfestistímann.

Þá er það 3. brtt. á þskj. 74. Háttv. frsm. (JM) mintist ekkert á hana. En verði 2. brtt. nefndarinnar samþykt. sú að færa aldurstakmarkið, 21 ár. niður í 16 ár, þá er sjálfsagt, að síðasti málsliður 7. gr. frv. falli burt, enda er jeg sammála hv. nefnd, að rjett sje að færa þetta aldurstakmark niður, og gerðum við því þessa brtt.