03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

9. mál, vatnalög

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Hæstv. atvrh. (KlJ) hefir í raun og veru svarað flestu í framsöguræðu háttv. frsm. minni hl. (JÞ), og því tekið af mjer fyrirhöfnina um mörg þessi atriði. Reyndar er ekki mikil þörf að svara ýmsum atriðum í ræðu hans, því að þau voru ýmist afbakanir á því, sem jeg hafði sagt, eða nýgervingar, sem hann leiddi svo út af ýmsa skraddaraþanka eftir eigin geðþótta. Jeg skal því aðeins nefna örfá dæmi.

Háttv. frsm. minni hl. (JÞ) var fyrst og fremst að gera grein fyrir stefnu sinni og samverkamanns hans í milliþinganefndinni. Guðmundar landlæknis Björnssonar, þeirri landsföðurlegu umhyggju, að losa landeigendur við umráð vatnsrjettindanna. Eftir því, sem honum fórust orð, var tilgangur þeirra fyrst og fremst að útvega öllum almenningi kost á raforku til hitunar og lýsingar á heimilunum með góðu móti. Jeg verð að segja, að þetta eitt fyrir sig var ekki fremur stefna þeirra en annara nefndarmanna. Þetta var yfirleitt verkefni og stefna allrar nefndarinnar, að því leyti, sem því varð náð með lagasetningu, í samræmi við gildandi landsrjett. En þó að allir nefndarmenn hefðu þetta fyrir augum, gátu þeir ekki allir hugsað sjer sömu leiðina. Háttv. þm. (JÞ) hvað það hafa verið hugsun þeirra, að almenningur í sveitum landsins ætti að njóta ávaxtanna af þessari viðleitni þeirra tvímenninganna. Jeg fæ ekki skilið, að almenningur til sveita geti uppskorið nokkuð sjerstaklega við það, þó að vatnsrjettindin sjeu tekin af vatnseigendum og lögð undir ríkið. Það eitt fyrir sig getur ekki fært einstaklingum í sveitunum nein hlunnindi. Það er þó altaf betra hjá sjálfum sjer að taka en sinn bróður að biðja.

Hinu er ekki að neita, að þeir samherjar hafa litið svo á, að þessi hlunnindi af vötnunum mundu verða að almennari notum, ef öll vatnsrjettindi væru í höndum eins vatnamálastjóra í höfuðstað landsins, sem væri einvaldur um meðferð allra vatna. Sú hugmynd var á sveimi hjá þeim fjelögum og í miklu eftirlæti. En jeg hefi ekki orðið var við eða sjeð neina hagsmuni fyrir almenning af þessu. Það má fullyrða, að bændur líta alment svo á, að vatnsrjettindunum, sem þeir hafa jafnan talið sig eiga eins og hluta af jörðum sínum, sje ekki betur borgið í höndum þessa einvalda vatnamálastjóra, sem þeir ættu að sækja leyfi til um alla notkun vatns, en hjá þeim sjálfum.

Háttv. frsm. minni hl. (JÞ) beindi til mín ýmsum skeytum, sem lítið komu við þessu máli og síst eru því til skýringar. Til dæmis kom hann með skilaboð til háttv. deildar, og líklega ekki síst til mín, frá fyrverandi samherja hans, Guðmundi landlækni Björnssyni, sem mjer virtust vera dálítið á annan veg en samboðið væri háttsettum embættismanni eða jafnvel sómdi að hafa eftir honum. Háttv. frsm. minni hl. (JÞ) sagði, að landlæknirinn teldi þá föðurlandssvikara, sem hölluðust að stefnu minni hluta milli þinganefndarinnar og viðurkendu eignarrjett á vatni. (JÞ. Ekki voru skilaboðin alveg svona). Þetta var þó meiningin. Jeg vil nú aftur á móti spyrja hv. frsm. minni hl. (JÞ ) í áheyrn alls þingheims: Var landlæknir ölvaður, er hann sagði þetta, eða hafði hann cocain í nefinu? (JÞ: Hann var alls ekki ölvaður, enda hefir hann tvívegis beðið mig fyrir þessi skilaboð). Jeg vil þá biðja háttv. frsm. minni hl. (JÞ) að færa landlækni önnur skilaboð frá mjer, þau, að honum sómi best að strika yfir þessi stóru orð og hrópyrði, eða kingja þeim sjálfur. Ella er hætt við, að á honum og þeim fjelögum geti vaknað óþægilegur grunur um dálítið óæðri tilgang í vatnamálinu en þeir látast hafa haft. Annars þarf jeg alls ekki að tjá mig vegna neinskonar sektarmeðvitundar í þessu efni. Jeg óttast alls ekki neina hleypidóma um stefnu mína í málinu og virði að vettugi þessi skilaboð og meinfýsi minna gömlu samverkamanna og andstæðinga. Þetta var í raun og veru efninu óviðkomandi og óþarfa innskot hjá háttv. frsm. minni hl. (JÞ).

Þá vildi háttv. frsm. minni hl. (JÞ) gera þá grein fyrir orðunum í nál. minni hl. um þá þjóðarhagsmuni, sem minni hlutinn læst vilja varðveita og láta sjer svo ant um, að þessir þjóðarhagsmunir væru möguleikar fyrir almenning til að geta haft not af vötnum til þess að fá raforku, og átti sjálfsagt að skilja þau orð svo, að ef frv. næði fram að ganga með stefnu meiri hlutans, mundi þessi von glatast og verða að engu. Mikil er sú umhyggjusemi fyrir annara högum, sem lýsir sjer í þessum fullyrðingum hv. frsm. minni hl. (JÞ). En jeg veit ekki, hvernig hann ætlar að gera það skiljanlegt, að nokkur von týnist, þó að frv. verði samþykt. Eins og vötnin breyti eiginleikum eftir því, hver ræður yfir þeim, eða að þeirra yrðu meiri not fyrir almenning, ef einhver reykvískur vatnamálaráðherra, eftir því sem tvímenningarnir lögðu til, fengi færi á í nafni ríkisins að taka dálítinn toll af þeim. Hygg jeg, að hann hafi ekki íhugað þessi orð nógu vel, áður en hann ljet sjer þau um munn fara.

Háttv. frsm. minni hl. (JÞ) sagði, að jeg skyldi sýna trú mína í verkinu. Með því átti hann við, að jeg ætti að sýna trú mína á þann ótvíræða rjett landeig anda til vatnsorkunnar, sem jeg teldi felast í ákvæðum fornra laga og nýrra, með því að greiða atkvæði með varabrtt minni hlutans við 2. gr. Jeg hefi reyndar tekið fram áður, að jeg gæti hiklaust gengið að þessari brtt., ef aðrar brtt;. minni hlutans yrðu feldar, jafnvel þó að lögin yrðu þá ankannaleg og rjettargrundvöllurinn óljóslegar afmarkaður. En sú breyting getur á engan veg til bóta orðið, og á því alls ekki að koma til greina.

Jeg tók það einnig fram, að verði varatillagan samþykt og hinar aðrar brtt., sem fara á eftir, þá mótmæltu lögin sjer sjálf og yrðu ósamræmileg. Þá yrði sem sje í 2. gr. ákveðinn sami rjettur landeiganda til vatnsins sem nú er og verið hefir, en gengið í gegn þessum rjetti með öðrum ákvæðum frv. Það var þetta, sem jeg kallaði „idiotiska“ lagasetningu. Sneri háttvirtur þm. Dala (BJ) út úr þessu og reyndi að auglýsa grískukunnáttu sína um leið; hvað sem líður grískukunnáttu hans, þá tel jeg víst, að engan hafi hann getað sannfært um ágæti slíkrar lagasetningar.

Sami háttv. þm. sagði ennfremur, að með því að samþykkja frv. yrði opnuð leið til þess að braska með smávötn. Jeg hefi áður tekið það fram, að ef sú leið opnast með þessu frv., er hún enn þá opnari nú.

Þá vildi háttv. frsm. minni hl. (JÞ) halda því fram, eða reyna að telja hv. þingdeild trú um, að eiginhagsmunahvatir hefðu ekki ráðið því, að hann og meiri hluti milliþinganefndarinnar gengu á móti þeirri stefnu, sem þeir höfðu fylgt áður, og rjeðust á eignarrjett landeiganda. Á yfirborðinu lítur að vísu svo út, að þetta sje gert vegna hagsmuna almennings, og því hafa þeir haldið mjög á lofti. En ef betur er skygnst að þessari kenningu, þá vaknar óneitanlega efi um, að þessi landsföðurlega umhyggja hafi staðið mjög djúpt hjá þeim fjelögum, því að einkennilega var þeim ant um að ná sem algerðustu valdi yfir öllum nothæfum vötnum undir vatnamálaráðherra þann, sem þeir lögðu svo mikla áherslu á, að skipaður yrði.

Síðan háttv. frsm. minni hl. (JÞ) talaði hefir komið fram, að jeg hygg frá hans hendi, einskonar samkomulagstilboð um það, að minni hlutinn taki aftur allar brtt. sínar, ef aðalbrtt. við 2. gr. yrði samþykt. Jeg kannast fúslega við, að boðið er frjálsmannlegt og stór fórn int af hans hendi, það er að segja, þegar litið er á málið frá hans hlið. En í raun og veru er ekkert unnið við þetta fyrir stefnu meiri hluta milliþinganefndarinnar, annað en það, að lögin verða miklu óskýrari, og jafnvel ólöguleg. Verður þá að leita í síðari greinum laganna að því, sem þá væri tekið úr 2. gr. með brtt., og er það í raun og veru mjög ankannalegt og ólíkt því, sem aðrar þjóðir haga byggingu slíkra laga, og jafnframt torveldar þetta framkvæmd laganna og eftirbreytnina hjá þeim, sem undir þeim búa. Það er rjett, sem hæstv. atvrh. (KIJ) tók fram, að eftir öðrum greinum frv. má finna stefnu frv., og eignarrjetti landeiganda á vatninu er auðvitað bjargað, en lagasetningin verður, ef breytingin kemst að, mjög ankannaleg og hál. Jeg vil nú leyfa mjer, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp þá grein í hliðstæðum lögum Svía, er gilt hefir að undanförnu, en hún hljóðar svo:

„Enhvar äger att det vatten, som á hans grund finnes, sig tilgodogöra, såvidt ej här nedan eller eljest í lag annarledes stadgas“.

Hjer er tekið fram alveg hið sama, sem stendur í 2. gr. frv., því að í sænsku lögunum koma líka ýmsar takmarkanir á vatnsrjettindunum fram í síðari greinum laganna.

Hins vegar hafa Norðmenn orðað þessi ákvæði á þennan veg:

„Med eiendomsretten til grund förger, naar ikke særlige retsforhold medförer noget andet, retten til at raade over og nyttiggjöre det vand, som findes paa grunden, være sig sjö, elv eller bæk, med den hegrænsning, som fölger av lov eller sedvane“

Af þessu er sýnilegt, hvernig þessar þjóðir haga vatnalöggjöf sinni. Þær setja fremst í lögin nákvæma skilgreining á eignarumráðum landeigandans og þeirri grundvallarstefnu, sem lögin byggjast á að öðru leyti. Þarf þá ekki að leita að skýringum á því, hver rjetturinn sje, innan um aðrar greinar laganna, en það þyrfti hjer, ef brtt. minni hl. við 2. gr. ætti að verða samþykt. Jeg álít því brtt. skemma frv. mjög, þótt ekki tortími þá þeim rjetti landeiganda, sem deilt hefir verið um. Hann helst eftir sem áður, aðeins óskýrari og óljóslegar ákveðinn. Og þótt jeg telji samþykt þessarar brtt. mikla skemd á frv., þá vil jeg þó ekki ámæla þeim, sem kunna að hallast að henni til þess eins að geta bjargað aðalstefnu frv. og komið málinu fram.

En það verður þá að skoðast eins og neyðarráðstöfun til þess að bjarga því, sem meira er vert, og binda enda á þessa langvinnu og kostnaðarsömu baráttu.

Háttv. þm. Dala. (BJ) sendi mjer að vanda nokkrar vingjarnlegar kveðjur, en þótt telja megi það óþarfa hæversku að svara honum ekki, þá er jeg að hugsa um að tefja ekki tímann, en leiða hjá mjer hnútukastið frá honum að mestu.

Hann talaði mikið um það, að vatnið gæti ekki verið eignarhæft, af því að það væri á sífeldri hreyfingu. Þessu hafa margir haldið fram áður, og er það engin nýlunda. Hafa rjettarfræðingar til og frá um þetta deilt, bæði í Noregi, Svíþjóð og víðar, þar sem eignarrjettur að vatni er lögfestur. En slíkar hyggjusetningar hafa ekkert gildi, því að rjettindin yfir vatninu eru jafneignarhæf, hvort viðurkendur er eignarrjettur í merkingu hlutarjettar yfir vatninu eða ekki. Þetta hefir hvarvetna orðið ofan á, þar sem deilt hefir verið um skilning á eignarhugtakinu forna.

Háttv. þm. Dala. (BJ) sagði, að Alþingi gerði sig að dómara, ef það kvæði svo upp úr um vatnsrjettindi sem við viljum gera láta. Það er þá nákvæmlega um sama dóminn að ræða og yfirleitt í hvert sinn, er Alþingi setur lög um ákvörðun eða takmörkun einhverra rjettinda. Satt að segja munu engin dæmi þess, að nokkurt löggjafarþing hafi spurt dómstólana um það, hvort það mætti setja lög um eitthvert efni og hvernig þau ættu að vera, svo sem háttv. minni hl. leggur svo mikla áherslu á, að hjer verði gert.

Hv. þm. Dala. (BJ) þóttist víst greiða kenningu okkar meiri hl. manna fullkomið rothögg, með því að benda á það, að bæði eftir fornum og nýjum lögum mistist rjettur til vatns, ef það brytist úr farvegi á einni landareign og flytti sig á aðra. Þetta virðist mjer einkar hæpin ályktun hjá honum. Þetta atvik er einmitt átakanleg sönnun þess, að landið helgar sjer vatnið, hvar sem það er, og er dæmið því stuðningur við mína stefnu, en ekki hans. Er jeg háttv. þm. þakklátur fyrir þennan stuðning, sem hann veitti mjer þarna, þótt óviljandi væri.

Háttv. þm. (BJ) sagði, að jeg hefði neitað því, að deilur hefðu orðið í nágrannalöndunum um eignarrjettinn á vatninu, og þóttist geta upplýst um það, að slíkar deilur sem hjer hefðu þar orðið. Jú, jeg neita því framvegis, að slíkar deilur sem hjer hafi nokkursstaðar komið upp hjá grannþjóðunum; þar hefir enginn dirfst að neita rjetti landeigenda til vatnsins. Hitt veit jeg vel, að deilt hefir þar verið um takmörkin milli eigna ríkis og einstaklinga, svo sem yfir vötnum sem runnu úr óbygðum inn á lönd einstakra manna, þar sem landamerki vantaði við óbygðirnar. Einnig hefir þar deilt verið um takmörk milli rjettar ríkis og almennings í stórvötnum, eins og líka um það, hve langt mætti ganga í takmörkun á umráðarjetti landeigandans; en þessar þjóðir hafa alls ekki vefengt það, að landeigandinn ætti vatnsrjettindin eða að vatnið fylgdi landinu.

Jeg get að öðru leyti slept að svara háttv. þm. Dala. (BJ). Ræða hans var í aðalatriðunum sú sama og áður um þetta efni og alt á sandi bygt.

Jeg vil aðeins að leikslokum geta þess, að jeg tel þessa miðlunartilraun, sem fram hefir komið frá háttv. minni hl., og sem hæstv. atvrh. (KIJ) mælti svo eindregið með, að taka aftur allar brtt. sínar, ef þessi eina brtt. við 2. gr. verði samþykt, þarflausa skemd á frv. og aðeins til að lýta það. Auk þess getur hún orðið til þess að tefja málið, svo að það fjari uppi á þessu þingi. Hitt er annað mál, að ef vonlaust hefði verið um að koma málinu fram öðruvísi en með þessari breytingu, þá hefði jeg, ef til vill, gengið að henni sem síðasta úrræði, en jeg sje enga slíka nauðsyn hjer fyrir hendi. Þess vegna mun jeg sem fyr neita þessu boði og greiða atkvæði gegn tillögunni.