02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1713 í B-deild Alþingistíðinda. (1851)

124. mál, friðun á laxi

Eiríkur Einarsson:

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) rýkur upp á nef sjer að ástæðulausu. Jeg nefndi yfirvarpsástæðu, og er það rjett, bæði í hans garð, er hann tekur brtt. mína upp, málinu til falls, og einnig í garð hv. þm. Borgf. (PO). Hitt sagði jeg aldrei, að hann, þm. Skagf. (JS). hefði breytt um skoðun, en það hefir hv. þm. Borgf. gert. Vil jeg skírskota til hv. deildar, hvort það er ekki tilraun til að spilla fyrir málinu, þegar hv. þm. Skagf. (JS) tekur upp tillögu, er hann telur gera frv. óaðgengilegra, og býður brtt. þannig fram sem yfirvarpsástæðu móti frv. handa öðrum þingmönnum. Annars furðar mig á því, hve fljótur hv. þm. Borgf. (PO) er að skifta um skoðun, af þeirri ástæðu einni, að jeg, vegna minnar persónulegu skoðunar, ber fram brtt. um að láta undanþáguna ná lengra, án þess að tilmæli hafi komið um það frá þeim, sem eiga hjer hlut að máli, og án þess að jeg legði nokkurt kapp á, að brtt. næði samþykki háttv. deildar, eins og jeg hefi nú látið á sannast með því að taka hana aftur.