27.02.1923
Neðri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (1915)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Bjarni Jónsson:

Þá verður ekki mikið bergmál af minni rödd. (Forsrh. SE: Jeg vona, að svo verði ekki). Vonir bregðast mönnum á stundum, jafnvel þeim hæstvirtu.

Það er einkennilegt, að stjórnin skuli nú bera fram samskonar frv. og var til umr. hjer 1919 og þingið vildi þá ekki sinna. Ef meta á öll sparnaðarfrv. stjórnarinnar og bera saman, verður það augljóst, að lengi getur ilt versnað, eins og móðir Harðar komst að orði við hann: „Ill varð þín ganga hin fyrsta, og munu hjer margar illar eftir fara, og mun þó verst hin síðasta.“ (Forsrh. SE: Ekki vantar nú lærdóminn). Hjá mjer er hann af skornum skamti, en það sakar minna, því að jeg er ekki kenslu- eða mentamálaráðherra. Væri jeg það, myndi jeg reyna að bæta úr fáfræði minni. (Forsrh. SE: Til þess þarf miklu meira). Gott, að hæstv. forsrh. finnur, að hann er stöðu sinni vaxinn. En frv. þetta ber þess ljóst vitni, að hann hefir dottað mjög við samningu þess, eða að hann hefir að öðrum kosti látið annan semja frv. fyrir sig og ekki gætt þess, hve illa og ófimlega hefir tekist til.

Í þessu frv. er það sagt, að Jón landsbókavörður Jacobson eigi að taka að sjer verk dr. Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar. Þjóðskjalavörður er þó svo verkdrjúgur maður, að öðrum manni er ofvaxið að bæta á sig starfi hans. Hygg jeg, að allir muni játa, að hann sje engin liðleskja, jafnt óvinir hans sem vinir. (Forsrh. SE: Það er ekki sagt í frv.). Það liggur í því, að annar maður geti auðveldlega bætt við sig starfi hans. Jeg veit ekki, hvort hæstv. forsrh. (SE) hefir athugað landsbókasafnið, hvort þar muni nokkur afgangur starfskrafta. Það mun sönnu nær, að fremur þyrfti að bæta þar við 2–3 mönnum í 3–4 ár til þess að kippa safninu í lag, svo mikið verk er þar óunnið fyrir hendi.

Það er fróðlegt að bera saman þetta frv. og frv. frá 1919. Þá var það viðurkent af stjórninni, að ógerningur væri að kippa í burtu manninum og ætla landsbókaverði alt starf hans; heldur var svo gert ráð fyrir, að aðrir menn væru settir til að gegna störfum hans. Þá átti að skipa sjerstakan bókavörð og sjerstakan skjalavörð, og auk þess 3 aðstoðarmenn við bókasafnið og einn við skjalasafnið.

Hjer kemur sú skoðun fram, að þessi störf sjeu svo náskyld, að vel megi bæta við bókaverði til að sinna skjölunum. Eins og sömu eiginleika og sömu kunnáttu þurfi til þess að stýra bókasafni og skjalasafni. Jeg þarf ekki að rekja þessa fjarstæðu nánar; hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sýndi með rökum fram á, að það er svo langt frá því, að hjer sje að ræða um skyld störf, að þau eru einmitt mjög óskyld. Það er alt annað, önnur þekking, annað lundarfar, sem þarf til þess að vera bókasafnsmaður og góður skjalasafnsmaður.

Það vill svo vel til, að þessi málstaður er ágætlega rökstuddur í nál. allsherjarnefndar 1919, sem er undirskrifað af 2 núverandi þm., hv. þm. Mýra. (PÞ) og hv. 1. þm. Eyf. (SSt). Auk þess átti sæti í þeirri nefnd Einar prófessor Arnórsson, sem er allra manna fróðastur í þessum efnum. Auk þess er þar prentuð umsögn þjóðskjalavarðar og landsbókavarðar. Leggja þeir báðir á móti sameiningu embættanna, skjalavörður mjög eindregið, landsbókavörður nokkuð hikandi. Hann játar, að hann hefði verið því meðmæltur fyrir 20 árum, en nú væru störfin svo margvísleg og aukin, að það sje alls ekki tiltækilegt. Þar er og það tekið fram, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) drap á, að sjaldhittir væru þeir menn, sem væru hvorttveggja í senn, góðir bókasafnsmenn og góðir skjalaverðir.

Sameiningin er varasöm; er mjög hætt við, að sami maður verði aldrei fær um að gegna báðum störfunum og verði því ónýtur að hálfu leyti.

Þá vil jeg víkja að sparnaðinum. Frv. gerir ráð fyrir 9500 kr. sparnaði, en of hátt munu launin þar reiknuð, eftir því sem nú stendur, en auk þess má minna á yfirlitið frá 1919. Þar er landsbókaverði gert 5200 kr. í laun, skjala- og bókaverði samtals 7 þús. kr., þrem bókavörðum samtals 7500 kr. og aðstoðarbókaverði 2500 kr., eða samtals 22200 kr. fyrir hæði söfnin. En nú á landsbókavörður að hafa 5000 kr., 3 bókaverðir hver 2500 kr., eða til samans 7500 kr., þjóðskjalavörður 5000 og aðstoðarskjalavörður 2500 kr., eða samtals 20000 kr. Sparnaðurinn er því 2200 kr. eyðsla. Gangi frv. þetta fram, er vanþekking í stað þekkingar látin stjórna dýrmætustu söfnum landsins, og hæstv. kenslumálaráðherra lætur sjer ekki einu sinni nægja að tala háðulega um forstöðumenn safnanna, kalla þá grúskara, heldur vill hann líka með lögum ákveða það, að vanþekkingin verði þar öllu ráðandi. — En afleiðing þess mundi auðvitað sú, að bæði söfnin yrðu vanrækt. Skjöl týndust, stjórn bókasafnsins yrði ljeleg, bækur yrðu keyptar af litlu viti og alt hrörnaði og alt skemdist. — Er engin þörf að prjedika það fyrir stjórn landsins og alþingismönnum, hve dýrmæt og nauðsynleg söfn vor eru. Þesskonar fræðslu þurfa börn í barnaskólum. En auk vansæmdarinnar yrði líka um peningatjón að ræða, og það tröllaukið fjártjón.

Ætti stjórninni að vera það vitanlegt, að tví- og þrígildir menn eru ekki á hverju strái, enda lítil líkindi til, að stjórnin vildi nota slíka menn, þó einhverjir væru. Hefi jeg nú um nokkur ár boðið henni einn slíkan, en hún hefir ekki viljað þiggja.

En annars vil jeg benda hæstv. stjórn á það, að hún er ekki sett til þess að spara nje til þess að einblína á vissa hluti skynsemdarlaust, heldur er henni ætlað að verja fje landsins sem viturlegast. Sje viturlegt að spara, á hún að gera það, en sje viturlegra að verja fje til einhvers, er ekki síður skylda hennar að framkvæma það. Má og þess gæta, að þótt sparnaður sje fyrir landssjóðinn að svifta menn atvinnu, þá kemur sá sparnaður niður á þeim einstaklingum, sem fyrir slíku verða, og getur því oft orðið vafasamur.

Enn er þess að gæta um sparnaðinn við frv. þetta, að hann verður enginn fyr en að 10–20 árum liðnum, þegar menn þessir eru fallnir frá.

Hefir forsætisráðherra boðið öðrum manninum ljettara starf, en hann vildi ekki þiggja. Raunar er ekki í frv. getið um það, að mennirnir skuli vera í embættum sínum áfram, heldur aðeins í aths.; en sá mun þó tilgangurinn, að þeir haldi þeim.

Sparnaðarherópið verður því heldur hjáróma, þegar það byggist eingöngu á sparnaðarvon úti í framtíðinni, sem ekki getur ræst fyr en eftir 10 ár. Er því ekki rjett að hreyta í oss ónotum, þótt vjer gerum ekki mikið úr slíkum vonum og álítum nauðsynlegra að verja þingtímanum til að reyna að bæta atvinnuvegi þjóðarinnar heldur en skeggræða um hjegóma þennan.

Má vera, þótt vjer sjeum ráðlitlir, að skynsamlegar ástæður vorar bergmáli jafnvel og sparnaðarvonir hæstv. ráðherra og svigurmæli.