27.02.1923
Neðri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (1916)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skil ekki vel vandlætingasemi hv. þm. Dala (BJ). Ef hann læsi athugasemdir frv., mundi hann sjá, að þar er alls ekki um það að tala að neyða embættinu upp á landsbókavörð, en hins vegar hefir hann sagt, að hann sæi engin vandkvæði á því að sameina embættin. Háttv. þm. skilur heldur ekki, að með frv. þessu — og hinum líka — er verið að sniða frambúðarstakkinn fyrir þessa þjóð.

Hann er með vandlætingasemi yfir því, að sparnaðurinn á svo langt í land, en þá væri gaman að heyra það, hvort háttv. þm. er með því, að maðurinn verði settur á biðlaun, svo sparnaðurinn komi strax.

Það væri auðvitað æskilegt að geta haft sem flesta sjerfræðinga á öllum sviðum, en fjárhagur þjóðar vorrar leyfir það ekki, og hjer álít jeg þess heldur ekki þörf; framtíð safnanna er vel trygð, þótt yfirumsjón þeirra sje falin einum manni, en sparnaðurinn er auðsær. Jeg sje, að háttv. þm. brosir, en jeg get sagt honum það, að víða mundi brosað að erindisbrjefi hans, ef það heyrðist utan þessa sals, því að það er eingöngu um það að spara ekki, heldur einungis greiða fje úr landssjóðnum. (BJ: Jeg sagði að greiða fje viturlega). En annars eru fjármálaræður hv. þm. Dala. svo vel þektar, að óþarfi er að fjölyrða um þær. Er öllum vitanlegt, að hv. þm. er með þeim ósköpum fæddur, að hafa ekkert vit á fjármálum.