03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (1929)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Forsætisráðherra (SE):

Jeg sje ekki annað en jeg hafi fulla ástæðu til að þakka meiri hluta nefndarinnat, þar sem hann fer fram á það sama og jeg. Þó kvaðst jeg fús til að gera þá breytingu, að lögin næðu ekki til núverandi embættismanna safnanna, heldur hjeldu þeir áfram embættum sínum, og er þessa getið í athugasemd við frv. Skil jeg því ekki, hvernig stjórnin ætti að fyllast vandlætingu við nefndina. Enda sagði hv. frsm. minni hl. (MJ) áður en jeg hjelt fyrri ræðu mína, að nefndin væri stjórninni sammála, enda þótt hann haldi nú öðru fram. Þetta er dálítið broslegt og bendir á það, að skapsmunir hv. þm. hafi breyst við mína hógværu ræðu. Og kynlegur er sá hroki, þegar vissir menn halda að þeir sitji inni með alla visku í því máli, sem um er að ræða. Frekar þarf jeg ekki að svara þessu. Ef nefndinni hefir tekist að gera frv. betur úr garði en stjórninni, þá sje jeg heldur ekki annað en ástæða sje fyrir mig að fagna því. Annars virðast umræðurnar um þetta mál vera orðnar æðióuppbyggilegar, og það sama tekið upp aftur og aftur. Minni hlutinn gengur út frá því, að vjer viljum ekkert hirða um safnið. Það er raunar óþarft að svara því; álit okkar er það, að safninu sje jafnvel borgið eftir sem áður, auk þess sem fjársparnaður er í því fólginn, að breyting þessi komist á, og starfskraftarnir notuðust betur í þágu beggja safnanna. Og broslegt er að heyra talað um hinn mikla mismun þessara tveggja safna. Það er þó vitanlegt, að undir stjórn sama manns á Landsbókasafninu hafa löngum verið, auk sjálfra bókanna, þau handrit, sem vjer eigum dýrust og merkilegust. Sannleikur þessa máls er sá, að söfnin geta verið í ólagi, þó sinn maður sje yfir hverju þeirra, og aðalatriðið verður altaf það, að samviskusamur og stjórnsamur maður hafi umsjónina með þeim á hendi. Og enginn þarf að halda, að hann geti talið hv. þm. trú um, að engin störf við safnið, t. d. niðurröðun og skrásetning bóka o.fl. megi fela nema vísindalega hálærðum mönnum. Virðist vera æðimikið blandað saman starfi þeirra manna, sem sækja skulu þekkingu í safnið, og þeim, er hafa stjórn þess og meðferð á hendi. Og hví gætu menn ekki hugsað sjer, að við bæði söfnin væru menn með sjerþekkingu, þó þeir störfuðu undir stjórn eins og sama manns? Hv. 4. þm. Reykv. kannast þó við, að víða erlendis sjeu duglegir og góðir sjerfróðir menn við söfnin, sem ekki eru forstöðumenn safnanna, og eins ætti það að geta orðið hjer. Fyrir okkur vakir það að reyna að takmarka og stemma stigu fyrir allri þeirri sundurgreiningu og dreifingu kraftanna, sem svo víða á sjer stað í embættaskipun vorri. Því lengur sem háttv. 4. þm. Reykv. talaði, því betur skildist mjer það, hve skyldleikinn milli safnanna er í raun og veru mikill. Þess vegna er ljóst, að það, sem mest á ríður þar, er að fá mann yfir þau bæði, sem hafi sem mest af almennri víðsýni til að bera, þann eiginleika, sem allir hljóta að óska, að menn hafi, í hverri stöðu sem er.

Hv. þm. Dala. (BJ) var að tala um það, að vel mætti svo fara, að einhver maður úr stjórnmálalífinu væri látinn standa fyrir söfnunum. Auðvitað er þetta fluga, gripin úr lausu lofti, þá segir hv. 4. þm. Reykv. í nefndaráliti minni hl., að helsta ánægjan af breytingunni verði sú að heiðra núverandi landsskjalavörð „að lokum, með því að telja starf hans óþarft og ekki nema mátulegan viðbæti við annað, allerfitt embætti.“ Jeg leyfi mjer að spyrja: Hvernig getur hv. þm. dottið í hug fjarstæða sem þessi, og hver mundi telja starf þessa þjóðnýta manns lítilsvert? Hitt sje jeg ekki, að það geti verið nokkur móðgun fyrir þennan ágætismann, þó annar taki við stjórn beggja safnanna eftir hans dag. Og jeg geri ráð fyrir því, að þó hv. deild fallist á frv., þá muni vegur þjóðarinnar í engu minka við það, og það mun hv. síðasti ræðumaður sjá, er hann athugar málið í næði og með stillingu. Aðalatriðið hjá okkur báðum mun vera það, að safninu sje vel og tryggilega stjórnað, og um það ætti einn maður að vera fær með hæfum aðstoðarmönnum.