07.04.1923
Efri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (1961)

77. mál, skipting Eyjafjarðarsýslu í tvö kjördæmi

Einar Árnason:

Mjer þykir leitt, að hv. allsherjarnefnd hefir ekki getað fallist á þetta frv., og jeg verð hreinskilnislega að játa, að mjer kom ekki til hugar, þangað til jeg sá nefndarálitið, að nefndin snerist á móti þessu máli. Skal jeg koma að því síðar, hvers vegna jeg hafði þá skoðun. Hv. frsm. (SHK), hefir nú í ræðu sinni endurtekið þær ástæður, sem færðar eru fram gegn þessu frv. í nefndarálitinu. Þær ástæður eru aðallega tvær, að málið sje ekki nægilega undirbúið og að það sje svo mikið nýmæli, að skifta þannig sýslu í 2 kjördæmi án fjárhagslegrar skiftingar. Það er að vísu rjett hjá nefndinni, að þetta er í fyrsta sinn sem farið er fram á slíka skiftingu. En þá ástæðu út af fyrir sig er ekki hægt að taka sem góða og gilda vöru nje fullnægjandi röksemd á móti frv. Það mætti með sama rjetti segja, að það væri óeðlilegt að spyrða saman tvö lögsagnarumdæmi í eitt kjördæmi. En það getur í sjálfu sjer verið alveg rjettmætt, vegna þess, að alþingiskosningar og kjördæmaskipun eiga ekkert skylt við umboðs- eða dómsvald. Til kjördæmaskipunar liggur alt annar grundvöllur eða á að liggja. Sá grundvöllur á að takmarkast af atvinnuvegum, áhugamálum og hagsmunamálum íbúa kjördæmisins. Ef hv. nefnd vildi spyrja kaupmenn, útvegsmenn og verkamenn á Siglufirði, hvort þeir ættu sömu áhuga- og hagsmunamála að gæta og bændur inni í Eyjafirði, og gagnkvæmt, þá fengi hún það svar, að slík sameiginleg mál væru engin til. Þess vegna er óeðlilegt, að nefndin skuli vilja halda þessu svo fast í sömu hnappheldunni, þrátt fyrir þann skilnað að borði og sæng, sem þegar er kominn á. Mig furðar á því, að nefndin skuli halda þessu dauðahaldi í kjördæmaskipulag, sem sett hefir verið fyrir tugum ára undir gerólíku ástandi. Jeg hafði búist við, að hv. nefnd myndi líta almennara á þetta mál en raun er á orðin. Fyrir henni virðist vaka lítið annað en að fella þetta frv., til þess að geta haldið sem lengst þeim úrelta grundvelli, sem kjördæmaskipunin er nú bygð á. Jeg hafði frekar vænst þess, að nefndin vildi styðja þetta frv., sem byrjun til að byggja kjördæmaskipun landsins á eðlilegri grundvelli, s. s. þeim, er jeg mintist á áðan. Nú verð jeg að segja, að jeg verð fyrir vonbrigðum, er jeg sje, að hún kemur ekki auga á það, sem þó blasir svo beint við, að kjördæmaskipunin verði færð í það horf, að hún byggist á atvinnumálum og áhugamálum, en ekki sýsluskiftingu. Það hlýtur líka að verða framkvæmt fyr eða síðar. Breytingin, sem frv. fer fram á, er undanfari þess, að fleiri breytingar til bóta verði gerðar.

Hv. frsm. (SHK), mintist á sýslur þær, sem væru tvímenningskjördæmi. En má jeg spyrja: Hvaða sameiginleg áhugamál ættu t. d. að tengja Hjeraðið á Austurlandi við Austfirði? Mundi ekki eins vel fara á því í Árnessýslu, að niðursýslan, kauptúnin og Flóinn, yrði sjerstakt kjördæmi og uppsýslan annað? Eða hvað er sameiginlegt með Hafnarfirði og Kjósinni? Hjer eru algerðar andstæður. Ekkert sameiginlegt, og skifting því sjálfsögð. Jeg hefi nú talað alment um ástæður nefndarinnar fyrir því, að ekki væri gerlegt að skifta sundur sýslum. Læt jeg það, sem komið er, nægja sem svar.

Þá kem jeg að þeirri ástæðu, sem hv. frsm. (SHK) dvaldi mest við, en það er undirbúningsleysið. Hann sagði, að menn gætu ekki verið vissir um vilja kjósendanna í þessu máli, og á meðan skyldu menn ekki vera svo breytingagjarnir að láta skiftinguna ná fram að ganga. En jeg býst við, að hv. frsm. (SHK) minnist þess, að á síðasta þingi gekk hjer í gegnum deildina frv. um skiftingu Húnavatnssýslu. Það frv. gengur nær umræðulaust gegnum báðar deildir þingsins. Undirbúningur þess máls var þó ekki annar en sá, að það var rætt á tveimur þingmálafundum, og eftir því sem jeg veit best, munu hafa komið fram andmæli á báðum fundunum og atkvæði greidd á móti málinu. Var þá skiftingin framkvæmd einungis af því, að um 2 sýslufjelög var að ræða? Ætti það út af fyrir sig að vera svo þungur faktor í kjördæmaskiftingunni, að það eitt gæti ráðið? Nei, hitt er meira um vert, hvernig hagsmunum og atvinnuvegum er háttað, og hvort meiri hluti kjósenda er samþykkur breytingunni. Nú verður það líklega seint, sem allir geta orðið sammála um slík mál eða önnur, enda neita jeg ekki, að til kunni að vera kjósendur nyrðra, sem ekki kæra sig um breytinguna. Frsm. (SHK) vitnaði í fund, sem haldinn var af fulltrúum 4 hreppa. Það er rjett, að sá fundur var háður, en í þessu sambandi er vert að geta þess, að hann var haldinn í alt öðrum tilgangi en þeim að tala um þetta mál. Fulltrúarnir voru 16 á fundinum, og komu mótmælin frá þeim sjálfum, án þess að þeir hefðu til þess nokkurt umboð frá hreppsbúum, eftir því sem jeg veit best; enda óvíst, að þeir hafi verið allir sammála. Jeg vil enn fremur taka það fram í þessu sambandi, að mjer hefir boðist að verða send nöfn, ekki 16 manna, heldur tvisvar sextán eða fleiri, er vildu hið gagnstæða við þessa samþykt, en jeg kærði mig ekki um að vera að panta þess konar nafnalista. Jeg flutti frv. af þeirri ástæðu, að á þeim fundum, sem haldnir voru til að ræða þetta mál sjerstaklega, voru menn eindregnir með því. Jeg ætla mjer ekki að fara út í það, sem hv. frsm. talaði um einmenniskjördæmi og kjördæmi með hlutfallskosningu. Jeg tók fram við 1. umr., að jeg vildi einmenniskjördæmi. Þó gæti komið til mála, að kjördæmin væru stærri og með hlutfallskosningu. Það fyrirkomulag hefir samt sína galla. Fyrst og fremst ráða kjósendur við hlutfallskosningu venjulegast litlu um það, hverjir í kjöri sjeu; því ráða mest einstakir pólitískir flokkar eða flokksstjórnir, og reynslan hefir sýnt, að aðalráðin koma frá Reykjavík. Margt fleira mætti telja upp í þessu sambandi, svo sem að þegar kjördæmin eru stór, er erfitt fyrir kjósendur að kynnast þingmönnum og þingmálefnum. En einmenniskjördæmin eru heppilegri þar, sem illar eru samgöngur. Annars flyt jeg þetta frv. meðfram af því, að jeg vildi halda áfram þeirri stefnu þingsins í fyrra að gera öll sveitakjördæmi að einmenniskjördæmum.