07.04.1923
Efri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (1964)

77. mál, skipting Eyjafjarðarsýslu í tvö kjördæmi

Sigurður Jónsson:

Jeg vil aðeins drepa á eitt atriði í máli þessu. Hjer á landi eru 7 kaupstaðir með sjerstökum bæjarrjettindum, þar af eru 5 sjerstök kjördæmi, en 2 hafa sótt um að fá að verða það, Hafnarfjörður og Siglufjörður, en ekki fengið. Mjer finst öðru máli gegna hjer en ef öðruvísi stæði á. Bæjarrjettindi eru ekki veitt nema nokkuð fjölmennum bæjum, og finst mjer sanngjarnt, að þeir fái að vera í fjelagi við næstu hjeruð, sem lík áhugamál hafa, sem kjördæmi út af fyrir sig, þegar hægt er að koma því svo fyrir, að ekki þarf að fjölga þingmönnum fyrir það. Jeg vona, að hv. 2. þm. G.-K. (BK) skilji þetta og lofi þessu frv. að fara til Nd. Hvað viðvíkur mismunandi atvinnuvegum í Eyjafjarðarsýslu, þá get jeg vitnað, að það eru mjög ólíkir atvinnuvegir stundaðir í innri og nyrðri hluta sýslunnar og get kvatt til vitnis um það hv. 3. landsk. (HSn), sem átt hefir kost á að kynna sér framtal þaðan. Jeg mæli því mjög með, að þetta frv. nái fram að ganga.