14.04.1923
Neðri deild: 42. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2117)

61. mál, samvinnufélög

Pjetur Þórðarson:

Það var ekki hugsun mín að tala mikið um málið nú.

Með því að okkur flutningsmönnum virðist, að ekki mundi blása byrlega fyrir málinu við þessa umræðu, þá höfum við komið með brtt. á þskj. 296. Jeg býst ekki við að tala mikið fyrir henni eða deila um málið sjálft í þetta sinn. Þessu frv. hefir verið fundið mest til foráttu, að það gæti leitt til hættu fyrir lánstraust kaupfjelaganna og Sambandsins og raskað föstu skipulagi þeirra. Okkur sýndist því rjettara að fara fram á sjerstaka undanþágu frá lögunum fyrir þetta eina fjelag; svo mikil nauðsyn er á því, eins og sakir standa þar nú. Þó að undanþágan skifti miklu máli fyrir Kaupfjelag Borgfirðinga, þá ætla jeg ekki að fara út í að skýra það. Aðeins vildi jeg segja það, að samvinnumennirnir í þessari hv. deild vinna samvinnufjelagsskapnum meira ógagn með því að fella þessa brtt. okkar eða frv. heldur en það mundi gera, þó það yrði að lögum. Jeg vildi heldur, að frv. gengi fram, en annars sætti jeg mig vel við samþykt brtt. Einhver hvíslaði því að mjer áðan, að hún mundi ekki vera betri leið en frv., af því að þá væri skapað fordæmi fyrir því, að fleiri fjelög legðu út á þessa braut, og þá væri hættan sú sama. Jeg skil ekki þá hættu, sem menn telja af þessu fyrir form kaupfjelaganna; jeg get ekki sjeð hana. Jeg hefi meiri trú á fyrirkomulagi kaupfjelaganna en svo, að þetta geti komið til að skaða þau, því að þau eru búin að skorða sig á föstum grundvelli. Jeg ætla svo ekki að segja meira, en treysti því, að þeir, sem telja frv. ekki hættulaust, geti þó fallist á brtt.