02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2174)

30. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get ímyndað mjer, að sumum hv. þm. þyki jeg gerast alldjarfur, er jeg ræðst að sjálfri stjórnarskránni og legg til, að henni verði breytt, þó hún sje ekki nema 3 ára gömul, en það liggur því beinna við fyrir mig að gera tillögur um þær breytingar, sem hjer er farið fram á, sem jeg frá byrjun hefi verið á móti fjölgun ráðherra og árlegum þingum, en þessar er aðalbreytingar frv. þess, sem hjer liggur fyrir.

Eins og tekið er fram í greinargerð frv. er í raun rjettri ekki um aðrar brtt. að ræða en þær tvær, sem jeg nú nefndi, því þær aðrar breytingar, sem um er að ræða, standa í sambandi við þessar aðalbreytingar, og um þær skal jeg því ekki ræða, heldur aðeins snúa mjer að þeim brtt., sem snerta aðaltillöguna.

Fyrsta spurningin, sem fyrir oss verður, er þá sú, hvort nauðsyn beri til þess fyrir oss að hafa árleg þing, og þeirri spurningu hika jeg ekki við fyrir mitt leyti að svara neitandi. Það er ekki nauðsynlegt, og reynslan hefir sýnt oss, að það hefir ekki verið nauðsynlegt. Landinu var ekkert ver stjórnað meðan þing voru aðeins annaðhvert ár, og fjárhag okkar er síst betur borgið með hinu. Hin íslenska þjóð er ekki full 100000 manna, og það leiðir af sjálfu sjer, að svo fámenn þjóð getur ekki, má ekki og á ekki að semja sig að öllu að háttum annara þjóða, sem eru hundraðfalt eða þúsundfalt mannfleiri en vjer. Ef vjer höfum þetta ekki hugfast, ofþyngjum vjer landsmönnum með sköttum og höfum þó ekkert afgangs til verklegra framkvæmda.

Jeg geng þess ekki dulinn, að ef þing er haldið annaðhvert ár, verður afleiðingin sú, að stjórn sú, er situr á hverjum tíma, fær meiri völd í hendur en ef árleg þing eru. En þetta er í mínum augum enginn ókostur, því að mínu áliti er á þann hátt sjeð eins vel, ef ekki betur, fyrir hag landsins. Jeg er þeirrar skoðunar, að að meðaltali ráði stjórnin eins vel og Alþingi. Að þannig vöxnu máli vona jeg, að enginn lái mjer þessa brtt. mína. Einhver kynni þá að segja, að ef jeg vildi vera sjálfum mjer samkvæmur, ætti jeg að stinga upp á enn strjálli þingum eða jafnvel afnema þau. En þetta er þó ekki rjett, því jeg ætlast til og vil, að þingið hafi eftirlit með gerðum stjórnarinnar, auk þess sem því er ætlað löggjafarstarfið. Hinu síðastnefnda starfi getur Alþingi sint nægilega með því að koma saman annaðhvert ár, því að margir og miklir lagabálkar eru út af fyrir sig ekkert skilyrði fyrir velmegun þjóðarinnar. En auk þess má benda á það, að stærri lagabálkar eiga að koma frá stjórninni, og það er víst, að það verða minni framkvæmdir í slíku með árlegum þingum, því þá gefst stjórninni miklu minna tóm til slíkra starfa.

Um kostnaðinn af árlegum þingum er þess að geta, að jeg áætla hann um 150 þús. kr. á ári. Kostnað af þingi annaðhvert ár áætla jeg 175 þús. kr. hvert þing, og mundu þá sparast við þessa breytingu um 60–70 þús. kr. á ári, og það er töluverð fúlga. Raunar má búast við aukaþingum einstöku sinnum, og við það rýrist upphæð þessi nokkuð, en undir 50 þús. kr. á ári að meðaltali ætti þessi sparnaður ekki að verða.

Hitt atriði frv., um fækkun ráðherra, hefir naumast mjög verulegan sparnað í för með sjer, en þó mundu útgjöld minka sem svarar að minsta kosti launum eins ráðherra. Að jeg ekki áætla þennan sparnað hærra kemur af því, að jeg geng út frá, að sennilegt sje, að starfskröftum þurfi að bæta við í stjórnarráðinu, sem kosti viðlíka mikið og ráðherra. Þetta er þó ekki víst. Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að jeg get ímyndað mjer, að ýmsum muni þykja það galli á frv., að ekkert skuli vera þar ákveðið um, hversu fari um stjórnina, ef ráðherra deyr, segir af sjer eða forfallast á annan hátt. En jeg hefi með vilja látið þetta spursmál vera opið og hallast helst að því, að rjettast væri að vísa þessu til einfaldra laga, en festa það ekki í stjórnarskránni. Þetta atriði er rjett að athuga í væntanlegri nefnd, en jeg tek þetta fram til að sýna, að jeg hefi ekki gleymt þessu atriði.

Það virðist og mega telja þessu frv. til gildis, að sparnaðurinn af því kemur tiltölulega fljótt og er engin framtíðarhilling, eins og fundið hefir verið að embættafækkunarfrv. hæstv. stjórnar. Og jeg er þess fullviss, að það mundi verða vel tekið upp af alþjóð, að Alþingi gleymdi ekki sparnaðinum við sjálft sig, þegar nauðsyn þykir á að afnema elstu embætti landsins fyrir kostnaðar sakir.

Jeg býst við andmælum gegn þessu frumvarpi og skal því um sinn spara mjer fleiri orð. Að lokum leyfi jeg mjer að leggja til, að frv. verði vísað til allshn., að þessari umræðu lokinni, eða sjerstakrar nefndar, ef hv. deild þykir það meira virðingarmerki við stjórnarskrána.