21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (2224)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Eins og kunnugt er, voru tveir lærðir skólar hjer á landi í 7 aldir, latinuskólarnir í Skálholti og á Hólum. Skálholtsskóli var stofnaður af Ísleifi biskupi Gissurarsyni skömmu eftir að biskupsstóll var þar á stofn settur, 1056, en Hólaskóli var stofnaður af Jóni biskupi Ögmundarsyni um leið og Hólastóll var settur, 1106. Skólum þessum var einlægt haldið uppi óslitið í katólskum sið, nema þegar allra ónýtustu biskuparnir sátu á stólunum. Þá lágu þeir stundum niðri nokkur ár, að mestu eða öllu leyti. Eftir siðaskiftin stóðu skólarnir einnig óslitið, uns stólarnir voru sameinaðir og fluttir til Reykjavíkur. En þangað var Skálholtsskóli fluttur 1785 og Hólaskóli 1801, og voru þeir þá jafnframt sameinaðir. En þetta gerðist á þeim tíma, þegar íslenska þjóðin var í mestri niðurlægingu, þegar Íslendingar voru nær því komnir en nokkru sinni fyr eða síðar að gefast upp í baráttunni sem sjerstök, sjálfstæð þjóð, þegar Danir ráðgerðu að flytja þá burtu og setja þá niður á Jótlandsheiðar, þegar fimti hluti landsmanna fjell úr hungri, þegar eða rjett áður en útlendur æfintýramaður gat hrifsað undir sig alla æðstu stjórn landsins, án þess að honum væri nokkur veruleg mótstaða veitt. Þremur árum áður en Hólaskóli var fluttur til Reykjavíkur, komu lögrjettumenn í síðasta skifti til Alþingis að Öxará, og urðu að hverfa þaðan skömmu síðar, því þeir gátu ekki hafst við í Lögrjettuhúsinu, sem þá var að falli komið, enda höfðu þá ekki nema fáir einir af lögrjettumönnum haft mannrænu í sjer til þess að sækja þingið. Og tveimur árum seinna er Alþingi afnumið með öllu, og árið eftir er Hólaskóli sameinaður Reykjavíkurskóla. Í sjö aldirnar á undan höfðu landsmenn fundið þörfina á því að hafa tvo lærða skóla, en líkamleg og andleg eymd og niðurlæging Alþingis gerir það að verkum, að svona fór með skólana um 1800.

En skömmu eftir 1800 byrjar, sem kunnugt er, viðreisn þjóðarinnar aftur. Smám saman reynir þjóðin að fá það aftur í rjettindum og menningu, sem hún hafði glatað á síðustu öldum. Alþingi er endurreist, tungan er hreinsuð, efnahagur þjóðarinnar er rjettur við, og nú erum við fullvalda ríki, sem í fornöld. Nú siglum við á okkar eigin skipum, sem á landnáms- og söguöld. En eitt er þó enn ófengið, sem þjóðin hefir mist, og það er lærði skólinn á Norðurlandi.

Langt er síðan Norðlendingar vildu fá hann endurreistan. Þess er krafist kringum 1850. Þegar rætt er um stofnun Möðruvallaskóla, vildi þingskörungurinn Arnljótur Ólafsson gera hann að lærðum skóla. En háværar raddir í þá átt heyrðust þó ekki fyr en nokkru eftir síðustu aldamót, eins og tekið er fram í greinargerðinni fyrir frv. því, sem hjer er rætt um. Eitt aðaláhugamál hins næstseinasta skólameistara gagnfræðaskólans, Stefáns Stefánssonar, var seinustu árin, sem hann lifði, að fá lærdómsdeild bætt við gagnfræðaskólann. Núverandi skólameistari hefir sjeð þörf til hins sama, og vill leggja áherslu á, að þetta komist í framkvæmd þegar á næsta ári. Almennur áhugi er fyrir þessu á Norðurlandi, sem sjá má af því, að áskorun til þingsins í þessa átt var samþykt með öllum greiddum atkvæðum á afarfjölmennum þingmálafundi á Akureyri í vetur.

Þetta eru nú aðalatriðin, sem jeg hefi viljað taka fram viðvíkjandi hinni sögulegu hlið þessa máls. En þá munu ýmsir spyrja, hver sje nú nauðsyn þess, að mál þetta nái fram að ganga. Jeg vil í fáum orðum leitast við að svara því.

Í flestum tilfellum er gott, að hver einstaklingur hafi einhvern annan eða aðra einstaklinga til að keppa við. Skólar eru hjer engin undantekning. Ef tveir verða lærðir skólar í landinu, má vænta þess, að það verði metnaður hvors þeirra um sig að útskrifa sem best hæfa stúdenta til háskólans. Þeir munu verða strangari en ella að útskrifa einungis vel hæfa menn, menn, sem treysta má til að stunda æðra nám, vísindanám, menn, sem líklegir eru til að verða til nytja. Það mun verða metnaður þeirra að láta sem best orð fara af þeim stúdentum, sem frá þeim koma. Þetta tel jeg mikils virði, en annað má nefna, er sannar nauðsyn þessa máls, sem flestir munu sjá að er þungt á metunum málinu til stuðnings. Það atriði er, hve miklu ódýrara er fyrir nemendur að stunda nám á Akureyri en í Reykjavík. Við Akureyrarskólann eru heimavistir, og nemendur hafa þar matarfjelag. Við mentaskólann hjer í Reykjavík eru engar heimavistir, og nemendur verða, eins og kunnugt er, að hola hjer niður hingað og þangað úti um bæinn. Þó að jafndýrt væri að lifa í þessum tveim bæjum, Reykjavík og Akureyri, þá geta allir sjeð, hve miklu ódýrara væri að stunda nám í heimavistarskóla á Akureyri en hjer í heimavistarlausum skóla. En nú bætist það við, að á Akureyri eru margar lífsnauðsynjar miklu ódýrari en hjer, og verða einlægt, sem er afleiðing af legu bæjanna. Mjólkin er t. d. seld hjer í Reykjavík á 60–70 aura hver lítri, en á Akureyri 30–40 aura. Sömu hlutföll eða lík munu vera um verðlag á flestum íslenskum afurðum, kjöti, fiski o. s. frv. Sigurður skólameistari, sem er nákunnugur því, hvað kostar fyrir nemendur um skólaárið í bæjum þessum, telur, að fortakslaust megi fullyrða, að það sje 1000 kr. dýrara í Reykjavík heldur en á Akureyri. Heimavistin á Akureyrarskóla kostar nú tæpar 75 kr. á mánuði fyrir hvern nemanda. En hvað kostar námsdvölin fyrir hvern nemanda hjer í Reykjavík? Nákvæmar skýrslur um það munu ekki vera til, en sagt er, að nærri láti, að það kosti um 180 kr. á mánuði að meðaltali. Setjum svo, að fimtán nemendur yrðu að jafnaði í hverri deild lærdómsdeildar Akureyrarskóla. þá spöruðu þeir til samans 45000 kr. um árið við að nema þar, heldur en nema hjer í Reykjavík. Þetta er peningaupphæð, sem má gefa gætur að, og aldrei mundi kostnaðarauki við stofnun lærdómsdeildar við gagnfræðaskólann nema þessari upphæð, og því síður hærri. Óbeint verður því enginn kostnaður við stofnun þessarar deildar.

Akureyri má heita sveitaþorp. Af þeirri ástæðu munu því ýmsir vilja heldur láta börn sín ganga þar í skóla heldur en að senda þau til Reykjavíkur. Nú senda sumir Sunnlendingar, jafnvel Reykvíkingar, börn sín í gagnfræðaskólann á Akureyri. Að vísu er og hefir gagnfræðaskólinn þar jafnan verið mest sóttur af Norðlendingum og Austfirðingum. Svo myndi og einnig verða, ef lærdómsdeild verður bætt við skólann. Akureyri liggur svo vel við sem miðstöð Norðurlands, og skamt er þaðan af Austurlandi: Fargjöld fyrir Norðlendinga og Austfirðinga eru enn fremur miklu ódýrari þangað en til Reykjavíkur, og bætist þar enn við þann sparnað, sem jeg taldi áðan að verða mundi fyrir nemendur að sækja frekar skóla á Akureyri heldur en mentaskólann hjer.

En nú býst jeg við, að sumum finnist ekki komnar nægilega margar röksemdir, er rjettlæti til fulls þetta mál. Jeg býst við, að sumir haldi, að hjer sje um mikinn aukakostnað fyrir ríkissjóð að ræða. Sumum mun finnast það ærin djörfung að koma fram með þetta mál á þeim tímum, sem þjóðin og þingið vill spara alt, sem spara má. Jeg væri þessum mönnum sammála, ef jeg vissi ekki, að hjer er um lítinn aukakostnað að ræða fyrir ríkissjóð, að minsta kosti minni kostnað en þann, sem óbeint sparast einstaklingum, eins og jeg hefi áður fram tekið.

Nú eru tveir af þremur bekkjum Akureyrarskólans tvískiftir. En ef bætt verður við skólann lærdómsdeild, finst mjer sjálfsagt, að ekki sjeu fleiri nemendur teknir í skólann en svo, að engri deild þurfi að tvískifta. Kenslustofur þurfa því ekki að vera nema aðeins einni fleiri en þær eru nú, og nemendatalan nokkurn veginn hin sama. Sömuleiðis skal jeg geta þess, til þess að sýna það enn þá betur, hvað kostnaðaraukinn er lítill, að skólameistari gagnfræðaskólans hefir tjáð mjer, að þessa einu kenslustofu, sem á vanti, megi gera úr því herbergi, þar sem nú er geymt náttúrugripasafn skólans, en hins vegarmegi fá ágætt húsrúm fyrir safnið í kjallaranum. Enn fremur má geta þess í þessu sambandi, að allmikið rúm er enn til í skólahúsinu ónotað og óútbúið, í sambandi við heimavistimar, og mætti nota það, ef þörf krefði, til þess að stækka þær.

En þar sem nú ekki, þrátt fyrir það, þótt lærdómsdeild væri bætt við, yrði kent nema í einni stofu umfram það, sem nú er, og nemendafjöldinn því svipaður, þyrfti ekki heldur að fjölga kennurum nema um einn, og jafnvel gæti komið til mála að fjölga þeim alls ekkert, heldur bæta viðtímakennurum fyrst um sinn. En þótt nú svo yrði, að bæta þyrfti kennara við skólann nyrðra, eða gera einhvern annan aukakostnað við hann, þá ætti það að sparast við skólann hjer, sem verður þá nokkru minni en ef hann væri einn lærður skóli í landinu.

Mörgum finst stúdentaframleiðslan nóg í landinu, eins og nú er. Má vera, að það sje rjett. Og þó að lærdómsdeild verði stofnsett við Akureyrarskólann, þá þarf ekki að verða meiri stúdentaframleiðsla en nú er. Með reglugerðum má takmarka tölu þeirra eftir vild, sem ganga í lærdómsdeildir skólanna.

Nú er mentaskólahúsið í Reykjavík að verða of lítið. Margir vilja því stækka það. En getur nú ekki hv. deild orðið mjer sammála um það, að úr því svona er komið á annað borð hjer syðra, en hins vegar nóg húsrúm nyrðra, þá sje rjettara að nota hið ágæta skólahús þar, án nokkurs aukakostnaðar, heldur en að ráðast í dýra viðbótarbyggingu hér

Mörgum finst líka nóg um það, hvernig alt dregst hingað til Reykjavíkur. Hér býr 1/5 hluti allra landsmanna. Hjer eru saman komnir flestir skólar og söfn landsins. Enda hefir hingað til verið stuðlað til þess af hálfu hins opinbera, að svo færi. En slíkt mun varla heppilegt, að alt safnist hingað. Mörgum mun finnast eins og þrælum Ingólfs, að ilt sje að yfirgefa fagrar gróðurlendur og seljast að á útnesi þessu, að minsta kosti ekki heppilegt, að meiri hluti þjóðarinnar dragist hingað. Þjóðin verður þá sem krypplingur, sem höfuðið vex á, en líkaminn veslast upp, og þá er afleiðingin auðsæ.

Hæstv. landsstjórn varði um 60 þús. kr. til þess að láta gera við gagnfræðaskólahúsið á Akureyri síðastliðið sumar. Nú er það vel útbúið og veglegt skólahús. Og stjórnin hefir fengið lof en ekki last fyrir þessar framkvæmdir. Ekki einu sinni hv. fjvn. hefir neitt við það að athuga. Jeg tel, að stjórnin hafi með þessu undirbúið stofnun lærdómsdeildar þessa skóla. Hún er nú búin að verja til stofnkostnaðar hennar því fje, sem til hans þarf að verja. Og þökk sje stjórninni fyrir það nauðsynjaverk. En eins og hv. deild virðist sammála stjórninni um það, sem hún hefir gert fyrir framgang þessa máls, þá vona jeg, að hún verði mjer sammála um frv. þetta.

Að endingu vil jeg taka fram: Þetta er stórmál, sem ekki má svæfa og ekki er hægt að svæfa. Það er mál, sem snertir hagsmuni mikils hluta landsins. Það er mál, sem sker úr því, hvort engir eiga að verða lærðir menn í landinu nema synir Reykvíkinga eða stórefnamanna, því að öðrum er ókleift að kosta börn sín um mörg ár í skóla. Þetta er ekki fjárhagslegt eyðslumál, heldur stórkostlegt sparnaðarmál.

Að lokinni þessari umræðu óska jeg, að málinu verði vísað til mentamálanefndar.