28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (2230)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Frsm. meiri hl. (Sigurður Stefánsson):

Það mun varla þurfa að ræða lengi um þetta mál; jeg býst ekki við, að það geti komist í höfn, þar sem svo er áliðið orðið þingtímans.

Þegar menn sjá þetta frv., sem fer fram á að gera mönnum greiðari aðgang að æðri mentun en hv. flm. þykir vera nú, hlýtur það að fljúga mönnum fyrst í hug, að þetta byggist á því, að hjer sje hörgull á stúdentum, og að ekki sje nóg viðkoma háskólamentaðra manna til þess að fullnægja þörfum þjóðarinnar. Þessu verður ekki svarað öðruvísi en neitandi. Frá því að Hólaskóli var tekinn af, og aðeins varð einn lærður skóli hjer á landi, hefir um langan aldur ekki borið á því, að neinn sjerlegur hörgull væri latínulærðra manna, svo að jeg taki svo til orða, og að ekki hafi verið völ á nægilega mörgum mönnum í þær stöður, sem háskólamentaða menn þarf í.

Því er ekki að leyna, að jeg hygg frv. ekki komið fram af slíkri vöntun, heldur beint af metnaði Norðlendinga, er sárnaði, þegar Hólaskóli var fluttur hingað suður, og hafa því jafnan meira og minna alið á því síðan, að sjerstakur lærður skóli yrði stofnaður á Norðurlandi. Það er eðlilegt, að hugmynd þessi fái byr undir báða vængi á þessari öld, sem jeg vil kalla skáldasýkisöld. Nú virðist eitt mesta áhugamál landsmanna að hrúga upp sem flestum skólum. Jeg er ekki að lasta það, að menn vilji, að mentunin aukist, en hins vegar tel jeg, að of mikið megi að því gera. Og jeg tel það ekki aðalskilyrðið fyrir uppgangi þjóðarinnar, að skóli sje reistur svo að segja í hverjum hreppi, heldur að landsmönnum gefist kostur á að afla sjer þeirrar verklegu þekkingar, sem þeim kemur að bestu haldi.

Þegar litið er til reynslunnar, sem fengin er í Reykjavík um sameiningu gagnfræðamentunar og hinnar lærðu mentunar, hygg jeg, að hún sýni, að efasamt er, hvort rjett sje að setja á stofn annan skóla hliðstæðan. Reynslan hefir sannarlega orðið á þann veg, að mörgum þykir þetta orðið fargan, er bestu menn vorir telja bráða nauðsyn á að breyta. Jeg er ekki með því að leggja niður lærdómsdeildina eða gagnfræðadeildina, heldur vil jeg, að horfið sje að gamla skipulaginu. Jeg hygg, að þegar þessi nýi Akureyrarskóli á að vera bæði gagnfræðaskóli og lærður skóli, þá mundi bráðum sækja í sama horfið sem hjer í Reykjavík. Meðan skólinn er opinber verður mönnum ekki neitað um inntöku í skólann, en afleiðingin verður sú, að skólinn verður að því bákni, sem erfitt verður að koma fyrir og kosta mun ærið fje, alveg eins og komið er á daginn um mentaskólann.

Jeg veit, að þetta frv. er flutt í samráði við skólastjórann við gagnfræðaskólann á Akureyri. Hann sjer ráð til þess, að Akureyrarskóli verði ekki skjótlega of lítill, en eingöngu á kostnað gagnfræðamentunarinnar. Ef aðsóknin yrði of mikil, þyrfti ekki annað en að neita mönnum um upptöku í gagnfræðadeildina. Mjer er sem jeg sjái, hve vinsælt það yrði með Norðlendingum, þeim er vildu láta syni sína njóta gagnfræðamentunar, ef þeim yrði vísað á bug, af því að lærdómsdeildin væri látin sitja í fyrirrúmi.

Jeg er því á þeirri skoðun, bæði af því, að enginn hörgull er á stúdentum og háskólamentuðum mönnum, og hins vegar vegna þess, hve þröngur fjárhagur vor er og mun verða fyrst um sinn, að oss sje ærið nóg að eiga einn lærðan skóla, svo sem verið hefir um heila öld. Nokkuð öðru máli gegndi, ef námið væri mönnum svo dýrt í Reykjavík, að það varnaði mönnum að sækja til mentaskólans. En ekki ber á þessu. Þrátt fyrir dýrtíðina safnast svo margir menn í þennan skóla, að hann er að rifna utan af þessum fjölda. Haldi þessu áfram, þarf bráðlega að auka húsnæði skólans. Og ef þessi saga endurtekur sig á Akureyri, sem er afarsennilegt, tel jeg rangt að leggja út í þennan kostnað. Skólameistarinn á Akureyri áætlar, í ritgerð, er hann ljet birta í vetur, að þessi nýbreytni mundi kosta ríkið mjög lítið umfram það, sem verið hefir. Gerir hann þá ráð fyrir, að aðsókn verði mjög lítil að lærdómsdeildinni á Akureyri. En ef svo væri, þá er lítil ástæða til að stofna þessa deild, en verði aðsóknin mikil, mundi reka að því sama sem um mentaskólann í Reykjavík.

Eina aðalástæðu fyrir þessu frv. telja skólameistari og flm. það, hve miklu kostnaðarsamara er að sækja nám til Reykjavíkur en Akureyrar. Þar er miðað við Norðurland eitt, því að úr flestum öðrum hjeruðum mun ekki dýrara að sækja til Reykjavíkur heldur en til Akureyrar. Það má vel vera, að námskostnaður sje meiri í Reykjavík en á Akureyri, en nýlega las jeg í blaði einu, að fæðið í heimavistum Flensborgarskóla hefði verið enn ódýrara en í Akureyrarskóla. En ekki getur þó verið miklum mun dýrara að lifa í Reykjavík heldur en í Hafnarfirði. Þegar að því er gætt, hvernig skólameistarinn rökstyður þá staðhæfingu, að námið sje svo miklum mun ódýrara á Akureyri en í Reykjavík, hygg jeg, að hann fari ekki alveg rjett með tölur. Í fundarbyrjun var útbýtt ritgerð um þessi skólamál, eftir einn áhugamesta og besta skólamann vorn, og segir þar svo um útreikning skólameistara (með leyfi hæstv. forseta):

„Skólameistari hygst að sanna, að munurinn sje svo mikill, og er sönnun hans í þrem liðum. Í fyrsta lagi ber hann saman heimavist á Akureyri og bæjarvist í Reykjavík, sem er alls ekki sambærilegt og verður enn fráleitara, þegar þess er gætt, að heimavistirnar mundu hvergi nærri hrökkva til handa hinum nýja mentaskóla. Í öðru lagi gerir hann ráð fyrir 8 mánaða námi á Akureyri, en 9 í Reykjavík. Í 6 ára skóla verður námið þá 6 mánuð um styttra í öðrum skólanum en hinum, og er furðulegt, ef þeir skólar geta talist hliðstæðir. Í þriðja lagi reiknar hann ferðakostnað til Reykjavíkur, en engan til Akureyrar, rjett eins og flutningur þangað væri ókeypis.“

Með þessum ummælum þessa skólafróða manns ætla jeg, að nokkurn veginn sje hrakin sú staðhæfing, að námskostnaðurinn hljóti að verða miklu meiri í Reykjavík en á Akureyri. Og eins og jeg tók fram, virðist þessi mikli kostnaður ekki tálma mönnum að sækja Reykjavíkurskóla.

Þá segir skólameistari, að ekki muni þurfa að bæta við nema einni kenslustofu og 11/2 kennara. Þetta er alveg gagnstætt þeirri reynslu, sem vjer höfum fengið í Reykjavík. Það getur vel verið, að þetta nægi fyrsta árið, en þegar fram í sækir, þyrfti áreiðanlega að fjölga kennurunum, að minsta kosti um 3–4 frá því sem nú er. Þegar það fyrirkomulag væri komið á, mundi þessi kostnaðarauki nema 30–40 þús. kr. á ári.

Jeg hygg, að þingið ætti ekki að svo komnu að sameina gagnfræðaskólann og lærðan skóla á Akureyri. Reynslan af því fyrirkomulagi er ekki á þann veg, að hún hvetji menn til að fara þá leið. Í ritgerð þeirri, sem jeg nefndi áður, telur þessi skólafróði maður heppilegast, að lærði skólinn sje skilinn frá gagnfræðadeildinni, en að hún sje svo aftur sameinuð barnaskólanum.

Jeg skil ekki í því, að þingið geti lengur daufheyrst við því að gera gagngerða breytingu á fyrirkomulagi mentaskólans. Jeg er þeirrar skoðunar, að stúdentaviðkoman hjer á landi sje orðin alt of mikil, og tel jeg því ekki heppilegt að vera að gylla þá leið fyrir æskulýð landsins, svo að stúdentafjöldinn verði langtum meiri en þörf þjóðarinnar krefur. Undanfarin ár hafa útskrifast hjer 20–30 stúdentar á ári hverju, og í vor munu þeir ekki verða færri en 30. Viðkoman er því altaf að aukast, og er því síst ástæða til að gera gyllingar til þess að hún verði enn meiri. Hins vegar get jeg skilið það, að Norðlendingum sje þetta metnaðarmál. En hagur alls landsins verður að vega meira en metnaður þeirra. Tel jeg líklegt, að illa myndu gefast ráð skólameistarans á Akueyri, að neita svo og svo mörgum um skólavist af þeim, sem sæktu. Myndi það tæplega vel þokkað af Norðlendingum. Sýnir það, hve hjer er erfitt úr að ráða, að manninum skuli ekki hafa dottið annað í hug en þetta óyndisúrræði. (ÞorstJ: Þetta hefir verið svo um langan tíma). Það má vel vera, að svo hafi verið, en ilt er það engu að síður. Myndu þessar úthýsingar heldur færast í aukana, ef þetta kæmist á, og er þess síst að æskja, því allir ættu að vera jafnrjettháir að því er snertir aðgang að þessum skólum.

Að það þurfi ekki að bæta við nema einum kennara, nær ekki neinni átt. Lærði skólinn hjer í Reykjavík er nú í 15 deildum. Stuðlar að því bæði tvískiftingin, sem fyrir skömmu er komin á, og svo hitt, að orðið hefir að tví- og þrískifta sumum deildunum, sökum nemendafjöldans. Af þessu hefir aftur leitt aukinn kennarafjölda. Áður fyr voru aðeins 8–10 kennarar við þennan skóla, en nú eru þeir orðnir um 24. Ef eins færi á Akureyri, mundi af þessu leiða gífurlegan kostnað, og er ríkissjóðurinn ekki svo stæður nú, að jeg telji hyggilegt að hrapa að því að ráðast í þetta.