28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (2234)

88. mál, menntaskóli Norður og Austurlands

Forsætisráðherra (SE):

Þeirri fyrirspurn hefir verið beint til mín frá tveimur hv. þm., hvað stjórnin hafi gert út af ályktun þingsins 1921 um heimavistir við Reykjavíkurskóla. Þegar þetta var samþykt, var önnur stjórn við völd en nú, en jeg hygg, að jeg geti svarað því fyrir beggja hönd, að ekkert hafi verið gert. Til þess að koma þessu í framkvæmd mundi þurfa að byggja við skólahúsið, en til þess var ekki fje fyrir hendi.

Út af þessu skólamáli að öðru leyti vil jeg aðeins taka það fram, að málið virðist mjög lítið undirbúið, og því er ekki rjett, að það gangi fram á þessu þingi, hvað sem annars má um það segja. Jeg álít hins vegar, að innan skamms þurfi að taka mentaskólamálið alt til nýrrar yfirvegunar og úrslita, og ætti þá að ráðstafa gagnfræðamentuninni um leið. Og svo framarlega sem þessi stjórn heldur áfram (MP: Er það ekki sjálfsagt?), mundi hún leggja þetta mál alt nákvæmlega undirbúið fyrir næsta þing. (ÞorstJ: Og flytur þá líka frv. um mentaskóla á Norðurlandi). Það hefi jeg ekkert sagt um enn þá. Þarf jeg svo ekki að segja meira nú.