19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (2290)

55. mál, útflutningur hrossa

Gunnar Sigurðsson:

Frv. þetta miðar við einstöku tilfelli, í stað þess að hafa heildaryfirlitið fyrir augum, og er slíkt aldrei viturlegt. Er hætt við, að þessi breyting verði til þess að spilla markaði okkar erlendis. Tel jeg, að ekkert vit sje í því að flytja hross út í apríl og maí, nema með öruggara eftirliti en nú er og sjerstökum skilyrðum fyrir þá mánuði. — Alt öðru máli væri að gegna að leyfa útflutning í nóvember; þá eru hross í góðu lagi. Að vísu er þá stundum hætt við illviðrum, en skip eru nú miklu betur útbúin til slíks en áður var. — Hlýtur öllum að vera auðsætt, hver áhrif það hefði á markaðinn, ef skálduð hross og flókatryppi yrðu flutt út. Það hefir verið sagt, að trygging væri nóg fyrir því, að stjórnin leyfði þetta, ekki nema þegar sjerstaklega stæði á og hross væru vel útlítandi. En jeg geri ekki mikið úr þessari tryggingu. Vinur stjórnarinnar fær leyfi til útflutnings, og svo kemur annar og biður um það sama, og er þá örðugt að neita. Líka er þess að gæta, að þótt eftirlit dýralæknisins sje gott hjer, þá er hægt að reka hrossin til annara hafna og skipa þeim þar út. Hefir slíkt komið fyrir. Eftirlitið alment er því alls ekki nægileg trygging þess, að fallega útlítandi hross verði flutt út. Tala jeg um mál þetta af meiri reynslu en flestir hv. þm. hafa til brunns að bera, því að jeg hefi fengist við útflutning hrossa alt frá barnæsku. Eru og bæði dýralæknir og sjerfræðingur landsins í þessari grein mjer sammála um þetta, sbr. grein sjerfræðingsins í Tímanum.

Mun jeg koma fram með brtt., sjálfstæða eða í sambandi við nefndina, um að ekki verði leyfður útflutningur í apríl eða maí.