03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

55. mál, útflutningur hrossa

Jón Magnússon:

Jeg er hræddur um, að nefndin hafi ekki íhugað þetta mál til hlítar. Eg ræð það af því, sem háttv. frsm. (GÓ) sagði um útflutninginn. Hann sagði, að ekki ætti að leyfa útflutning í vondu veðri, en jeg sje ekki, hvernig við það verður ráðið. Ef búið er að veita leyfið, þá verður það ekki aftur tekið, þó að veður versni, og eins getur skip lagt út í góðu veðri, en það getur breyst meðan skipið er á leiðinni. Í þessu er því engin trygging. Jeg vil ekki orðlengja þetta frekar. Jeg vil ekki, að leyfið sje veitt til frambúðar. Það minsta, sem hægt er að fara fram á, er þó, að þingið endurskoði þetta á næsta ári, en það er ekki víst, að svo verði gert, ef ekki er beinlínis til þess ætlast í lögunum. Ef því brtt. mín verður feld, þá mun jeg greiða atkv. gegn frv. Jeg veit, að nú stendur sjerstaklega á, en þó vil jeg ekki leggja mitt atkv. til þess, að feld verði burtu til frambúðar þau mannúðarákvæði um þetta efni, sem sett voru 1915.