11.04.1923
Efri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (2324)

55. mál, útflutningur hrossa

Jón Magnússon:

Jeg heyrði því miður eigi ræðu hv. frsm. (GÓ). En jeg skal láta þess getið, að jeg tel það eigi fært fyrir landsstjórnina að veita undanþágu frá lögum þessum, nema með bráðabirgðalögum. Auðvitað getur hæstv. stjórn notað slík bráðabirgðalög róleg, ef hún hefir fengið bendingu í þá átt frá þinginu. Er jeg viss um, að hæstv. atvrh. (KIJ) er mjer samdóma um þetta. Álít jeg, að það hafi í raun og veru verið lögbrot að veita undanþáguna í vetur. En ef undanþágu á að gefa, þá sje jeg sem sagt eigi, að það sje fært nema með bráðabirgðalögum. Er því sú dagskrá, er gerir ráð fyrir bráðabirgðalögum, rjett. (KIJ: Hún er óþörf). Það er rjett, að hún er óþörf, ef stjórnin lýsir því yfir, að hún ætli sjer alls eigi að veita undanþágu. En hún er að öðrum kosti altaf óskaðleg. Er það mitt álit, að yfirleitt sje efamál, hvort veita eigi undanþágu frá lögunum. Jeg mun greiða þeirri dagskránni atkvæði mitt, er gerir ráð fyrir báðabirgðalögum.