04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (2455)

86. mál, mælitæki og vogaráhöld

Hákon Kristófersson:

Jeg minnist þess, að margt var talað um þetta mál, þegar þessi allóþarfa stofnun var sett á stofn hjer á árunum, enda mun það og hafa verið gert að einskonar sjálfstæðismáli, sem sómi landsins lægi við, ef ekki næði fram að ganga.

Nú eru tímarnir breyttir, hvað það snertir, því óhætt er að fullyrða, að menn eru sannfærðir orðnir um það, hve stofnun þessi er óþörf.

Nú tekur hv. 2. þm. Reykv. (JB) að sjer að verja þessa stofnun, og er það líklegast af því, að hann vill hafa ríkisrekstur á sem flestu. Hann sagði, að eftirlitið væri aðeins óþokkað af nokkrum verslunum og kaupfjelögum; þetta held jeg að sje fjarri sanni, því það mun vera mikill hluti alls almennings, sem er stofnuninni mótfallinn og telur hana óþarfa. Því vitanlega kemur það niður á almenningi, hve óheyrilega okurdýrt eftirlitið er og viðgerðir á áhöldum, sem verslanir þurfa að nota.

Dæmi munu og vera til þess, að vigtir, sem hingað hafa verð sendar til viðgerðar, hafa farið svo illa í flutningnum, að ónothæfar hafa verið, þegar þær komu aftur, en kostnaður á þeim þá orðinn meiri en þær kostuðu upprunalega. Til sönnunar því, hve afardýrt þetta eftirlit er, skal jeg geta þess, að í fyrrasumar, þegar eftirlitsmaður kom vestur, leit hann á 2 vigtir ásamt lóðum, sem verslun átti, er hafði fengið þær árið áður hjá löggildingarstofunni. Vigtirnar voru alveg rjettar, og maðurinn mun hafa verið 10–20 mínútur að athuga þetta, en kostnaður sá, er viðkomandi varð að borga, var 40 krónur.

Jeg skal ekki segja, að þetta hafi verið of mikið, ef miðað er við ferðakostnað mannsins, en hinu held jeg fram, að eftirlitið getur verið alt eins tryggt samkvæmt þessu frv.

Af þessu sjá allir, hversu óþolandi agnúar eru á þessu fyrirkomulagi. Hv. 2. þm. Reykv. (JB) sagði, að löggildingarstofan hefði gert mikið að lagfæringum tækja, eftir að hún tók til starfa. Eftir því hefir víst mikið verið í ólagi áður. Hæstv.atvrh. (KIJ) upplýsti, að löggildingarstofan hefði leiðrjett um 63% allra tækja á landinu; en hvað það var, sem var leiðrjett, eða í hverju þær leiðrjettingar voru fólgnar, hefir ekki enn verið upplýst. Var það fólgið í því, að breyta álnum í metra o. s. frv.?

Viðvíkjandi óánægjunni held jeg því fram, að hún hafi verið almennari en hv. 2. þm. Reykv. (JB) heldur fram, en þá, sem aðeins eru óánægðir vegna þess, að þeir vilja aldrei hlýða lögum, læt jeg eiga sig.

Jeg held að flestir verði til þess að viðurkenna það, að það er dýrara að leita til löggildingarstofunnar við aðgerðir, en að kaupa ný tæki. (JB: Það á þá að horfa í það, sem það kostar, að fá rjett tæki eða að viðgerðin komi að gagni?). Það er alls ekki mín meining, að mæli- eða vogaráhöld eigi ekki að vera rjett. Aftur á móti held jeg því fram, að þessu megi koma fyrir á miklu kostnaðarminni hátt. Menn segja, að löggldingarstofan beri sig vel. Það má vel vera, en af hverju er það? Vitanlega af því, að óþarflega og óheyrilega er okrað á landsmönnum.