24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (2526)

7. mál, fasteignaskattur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Þegar núgildandi lög voru sett um fasteignaskatt, var það álitamál, hvort skattur af húsum skyldi ákveðinn lægri en af jörðum og öðrum fasteignum. Ástæðurnar til, að skatturinn var ákveðinn svo sem nú er, voru aðallega tvær. Önnur ástæðan sú, að hús lægju fremur undir rýrnun og gengi því fyr úr sjer en aðrar fasteignir; hin ástæðan var, að með fasteignaskattinum lentu um stundarsakir hærri útgjöld en áður á húsunum, og mætti því eigi íþyngja þeim um of; var því svo kveðið á um skattinn, að hann skyldi eigi hækka of snögglega. Þetta var þannig aðeins ástæða um stundarsakir. Jeg tek það fram í þessu sambandi, að vegna þess, hve frv. þetta er seint á ferðinni, getur það ekki komið til mála, að það verði látið gilda um þetta yfirstandandi ár. Það vakti fyrir stjórninni, að fá tekið til nýrrar yfirvegunar afstöðu húsa til annara fasteigna, að því er til skattsálagningar kemur, sjerstaklega að því, er snertir hús í bæjunum á móts við fasteignir til sveita, og að það verði skýrt vitað, hvernig lagt yrði á þau til lands- og sveitarþarfa. Þar sem nú liggur hjer fyrir þinginu frv. um bæjargjöld í Rvík., vil jeg fara fram á, að þessu frv. verði einnig vísað til nefndar þeirrar, er það mál hefir til meðferðar.