16.03.1923
Neðri deild: 21. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Björn Hallsson:

Með orðum mínum hefi jeg ljóslega komið hreyfingu á blóðið í hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). því að hann var mjög heitur, þegar hann stóð upp. Sannast á honum, að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Hann byrjaði á því að segja, að hann sæi ekki, hvaða erindi jeg hefði átt upp úr stólnum. Jeg hefi þó átt þetta erindi. Ennfremur kvað hann mig hafa viljað hjálpa hv. frsm. (MJ), en jeg tók það fram í upphafi, að jeg ætlaði ekki að hjálpa honum. því að þess þyrfti ekki.

Háttv. þm. sagði, að jeg hefði verið að þurka framan úr mjer. Það er misskilningur; jeg þarf þess ekki, því að jeg er ekkert óhreinn. Jeg hefi altaf verið sjálfum mjer samkvæmur síðan þetta Spánarmál kom á dagskrá. En jeg hygg, að hv. þm. þyrfti fremur að þvo sjer; hann er ekki allskostar hreinn í þessu máli. Þetta vil jeg rökstyðja með því, að þegar meiri halda fram á þingmálafundum heima í hjeraði öðru en því, sem þeir greiða atkvæði með á þingi, þá er það ekki hreint.

Jeg kalla það tvöfeldni og ekkert annað en kisuþvott og tilraun til þess að kasta rýrð á meiri hluta þingsins í Spánarmálinu, en reyna með því að upphefja sjálfan sig. Þannig var þessu varið gagnvart fjárhagsnefnd Nd. í fyrra. Þessi hv. þm. skrifaði undir nál. eins og hinir, en er svo með allra handa flóri á eftir um rangar forsendur fyrir málinu. Annars þurfti jeg ekki neitt að svara þessum hv. þm. (SvO). Hann var of reiður til þess rökræða nokkurt mál.

Ef hv. þm. skilur ekki nú, hvað jeg á við og hvaða erindi jeg átti upp úr sætinu, get jeg að líkindum ekki hjálpað honum í rjettan skilning.