20.04.1923
Efri deild: 44. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

14. mál, vatnsorkusérleyfi

Jónas Jónsson:

Jeg hefi borið fram tvær brtt., sem jeg þó býst ekki við að verði samþyktar, eftir þeim straumum, sem virðast ráða framgangi málsins hjer í deildinni.

Mjer fanst rjett að láta það sjást, að allir þm. væru ekki ánægðir með frv., eins og það nú er. Annars mun sama, hvernig frv. þessu reiðir af hjer í deildinni. Það kemst áreiðanlega ekki í gegn um hv. Nd., þó að það verði samþykt hjer. Þar hefir ekki fengist kallaður saman fundur í fossanefndinni, til þess að ræða vatnalögin. Og ekki yrði jeg hryggur yfir því, þó að engin sjerleyfislög gengju fram á þessu þingi. Miklu fremur væri rjett að hamla ekki á móti vatnalögunum sjálfum, þó að frv. það, sem hjer hefir verið samþykt, hafi raunar ekki batnað við meðferð fyrverandi stjórnar. Þetta frv. skapar litla tryggingu, og ef útlendingar kæmu og vildu virkja fossa, býst jeg við, að hrapað yrði að þeim málum með rasanda ráði. Það er rjett hjá hv. frsm. allshn. (GGuðf), að brtt. mín við 11. gr. er ekki rjett orðuð eins og frv. er nú. Jeg fór eftir upphaflega frv. Annars býst jeg við, að sama sje, hvort talað er um 55 eða 65 ár í þessu sambandi. Nú eru ekki, að því er kunnugt er, nein fjelög, sem hugsa til virkjunar. Þau, sem fyrir nokkrum árum síðan fóru fram á leyfi til virkjunar, reyndust ekki annað en loftið eitt. Er meira en lítið óviðurkvæmilegt að miða við kröfur þessara fjelaga, sem um mörg ár hafa leikið sjer með fossa vora í engri alvöru.