24.04.1923
Efri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í C-deild Alþingistíðinda. (2595)

97. mál, vaxtakjör

Frsm. meiri hl. (Karl Einarsson):

Jeg skal ekki blanda mjer inn í deilur háttv. 5. landsk. (JJ) og háttv. 2. þm. G.-K. (BK), enda hefi jeg ekki heyrt allar ræður þeirra í þessu máli. Það er öllum ljóst, að hjer er um bráðabirgðaráðstöfun að ræða.

Það hefir ekki verið tekið fram af þeim, sem vilja stofna „Kreditforeninger“, með seljanlegum verðbrjefum, hvar ætti að fá markað fyrir þau. Jeg man eftir áliti manna, og þá einkum hv. þm. G.-K. (BK), þegar 4. fl. veðdeildarinnar var stofnaður, að hægt myndi að selja brjefin, og þá einkum bent á ákveðinn stað, Þýskaland, til þess. Að það ekki tókst, var ekki háttv. þm. (BK) að kenna, nje tryggingu brjefanna, heldur var beint spilt fyrir sölu þeirra, með andblæstri, sem var hafinn. Þarf ekki langt að leita að upphafsmanni þess, og ekki út fyrir þennan sal. En það kemur væntanlega fram, þó síðar verði, hvort það hefir verið holt verk fyrir þann, sem það gerði.

En ekki meira um þetta. Brjefin reyndust óseljanleg, nema innanlands, og eitthvað 40–20% undir nafnverði. Þetta eru erfið kjör fyrir seintækan atvinnurekstur. Alt annað fyrir verslanir, sem velta sömu upphæð 6–8 sinnum á ári. Þær þola hærri vexti. Útgerðin þolir það líka betur, því hún getur venjulega verið án lána hluta úr árinu.

Jeg hefði ekki staðið upp til að svara hv. 2. þm. G.-K. (BK), hefði hann ekki haldið því svo fast fram, að engin lög þyrfti til þessa, því hjer væri aðeins um Landsbankann að ræða. Nei, Íslandsbanka má auðvitað ekki nefna. Hann er of heilagur til þess. Þrátt fyrir það, þó landið hafi lánað honum 17. milj. kr. og þjóðin annað eins. En hann er svo heilagur, að það má ekki einu sinni gefa bending. (BK: Lög eru engin bending). Jeg hefi skýrt frv. áður í fyrri ræðu minni. Hjer er aðeins verið að ákveða lánskjörin. Annars gengur svona útúrsnúningur ekki í háttv. þm., og naumast í áheyrendurna.

Þeir, sem lesa frv., sjá, að hjer er aðeins verið að tala um vexti, en ekki hverjum bankinn eigi að lána. Ætlast má til, að stjórnin láti bankann vita vilja þingsins í þessu efni.

Svo má brýna deigt járn að bíti um síðir. Það var talað svo hjer í deildinni í gær sem sumir menn álitu, að Íslandsbanki ætti að halda öllum sínum rjettindum, án þess að hafa neinar skyldur. Það á að styðja bankann á allan mögulegan hátt, en svo má hann ekki taka á móti þeim skilyrðum, sem lánveitandi setur honum. Það er jafnvel talið hneyksli af sumum, að bankinn var látinn setja veð fyrir enska láninu. (BK: Þetta kemur ekki við þessum umræðum). Það var dregið inn í þær af hv. þm. (BK).

Annars er það, eins og jeg hefi áður lýst, að þó Landsbankinn láni Íslandsbanka í bili, þá koma seðlarnir aftur inn og nýjar skuldir safnast, þar til afurðirnar eru seldar. En seðlar, sem tollað geta í vasa almennings hjer á landi, hafa engin áhrif. Háttv. 2. þm. G.-K. (BK) hefir áður haldið þessu sama fram og jeg nú, að ekki sje holt að gefa út meiri seðla en þörfin heimtar. Nú eru 8 milj. af seðlum í umferð. (BK: Ekki nema 7). Jú, 8. Íslandsbanki hefir 7 og Landsbankinn 1. (BK: Já, já!).

Ýmsar greiðslur til verkafólks og fleira koma inn aftur eftir stuttan tíma. Þetta getur hleypt seðlaþörfinni upp í bili, og verka þá sem ávísanir, enda eru í eðli sínu ekkert annað en ávísanir.

Með skírskotun til þess, er jeg hefi áður sagt, vil jeg mótmæla því, að ekki megi láta Íslandsbanka hlýða þessu ákvæði um vexti eins og Landsbankann.