24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 891 í C-deild Alþingistíðinda. (2628)

67. mál, mannanöfn

Hákon Kristófersson:

Jeg leit svo á þetta mál sem það bæri góðan ræktarvott háttv. flm. til lands og þjóðar, sem hann er alkunnur að; þess vegna býst jeg við að verða með því, en ekki af því, að jeg vilji sýna honum neina sjerstaka auðsveipni eða fylgisemi yfirleitt. Jeg er málinu heldur hlyntur, eins og háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), en lit þannig á, að það sje ekki svo flókið, að ganga þurfi til nefndar að þessu sinni. Ýms smáatriði mætti laga með brtt., án nefndar íhlutunar.

Ákvæði 6. gr., að menn sjeu skyldir til að rita nafn sitt án skammstöfunar, tel jeg óþarfa. Jeg skammstafa oft mitt nafn og mundi því gleyma hinu, enda engin misþyrming á móðurmálinu, þó menn skrifi upphafstafi í nafni sínu á undan föðurnafni. Hins vegar álít jeg að lögin eigi ekki að gilda aftur fyrir sig. Heldur að menn, sem nú heita fleiri nöfnum, megi halda þeim.

Um skírnina er það að segja, að jeg þekki ekki þann sið, að menn sjeu skírðir ættarnöfnum, eins og háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) benti til að oft ætti sjer stað. Þá smáónákvæmni, sem er í frv., tel jeg, eins og jeg hefi þegar bent á, að megi laga með brtt., eða þá, ef þörf þykir, að vísa því til nefndar að lokinni 2. umr.

Þó að jeg ætli ekki beinlínis að taka svari hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), vegna ummæla hv. flm. (BJ) um hann í sambandi við mál, sem ekki er á dagskrá nú, þá vona jeg, að hæstv forseti afsaki, þó að jeg fari líka út fyrir dagskrána. Jeg átti líka nokkurn hluta af þessum slettum, frá hv. þm. Dala. (BJ). Þegar hann, sem formaður vatnamálanefndar, sá sjer ekki fært að halda fundi í nefndinni, varð það að ráði hjá okkur, sem erum í meiri hl. þessarar nefndar, að koma fram með nefndarálit í málinu, án þess að bera það undir minni í hl., (BJ: Hafði jeg ekki sagt þm., að jeg mundi boða nefndarfund?). Jú, að vísu, en á því varð sífeldur dráttur og því ekki að vita nær það yrði. Nú fyrir 2 dögum ljet jeg formann nefndarinnar líka vita, að við myndum koma fram með meiri hl. álit og krefjast þess, að málið væri tekið á dagskrá. Það er því ekki hægt að bregða mjer um neina óbilgirni í þessu máli. Þar eð sá maður; sem jeg var með að kjósa fyrir formann nefndarinnar, hafði að mínu áliti mjög svo vanrækt skyldu sína, taldi jeg mjer skylt að gera mitt til að bæta úr því, á þann hátt, sem orðið er, þrátt fyrir það, að jeg væri ófús til þess að sumu leyti. (BJ: Þingmaðurinn er sýnilega ókunnugur þingvenjum). Þessi ummæli mín eru ekki brot á þingsköpum; en segjum nú að svo væri, og að jeg hafi ekki vit á því, og að þetta fari í bága við þingvenju, þá er samt rjettlætingarvert, ef menn gera það óviljandi. Hitt er verra, ef menn gera það af ásettu ráði, og á jeg þar við hv. formann vatnamálan.,sem ekkert gerir í nefndinni og ekki hefir boðað til funda.

Hins vegar er jeg sammála hv. flm. (BJ) um þetta frv., eins og jeg hefi tekið fram. Hann hefir líka lýst yfir, að hann gæti verið með væntanlegri brtt. frá mjer eða öðrum. Við erum líka sammála um að láta málið ekki fara til nefndar að þessu sinni. Ef háttv. deild er algerlega á móti málinu, sem jeg býst ekki við, teldi jeg aftur á móti rjettast að fella það strax.