21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Frsm. (Magnús Jónsson):

Jeg hefi í raun og veru engu að svara. Þó vildi jeg lýsa yfir, að jeg er talsvert ósammála hv. þm. Dala. (BJ) um rök hans fyrir að fallast á þessa undanþágu frá bannlögunum, er hann gerði ráð fyrir breyttum hugsunarhætti landsmanna gagnvart lögunum. Þessu vil jeg mótmæla, að hjer liggi nokkur andbanningahugsunarháttur að baki. Annars skal jeg ekki fara að vekja stælur um bannlögin sjálf og rjettmæti þeirra.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) áleit, að fresturinn í fyrra hafi verið orsökin til þess, að stjórnin gerði mann til Suður-Ameríku. En sú sendiferð var svo undir komin, að samvinnunefnd viðskiftamála lagði til í fyrra, að veitt yrði fje til þessarar ferðar. Þetta stóð alls ekki beinlínis í sambandi við Spánarmálið, eins og hv. þm. má muna, þar sem hann var sjálfur í nefndinni, heldur spanst það út af styrkbeiðni einni.

Hv. þm. (SvÓ) tók þá að rifja upp útreikningana frá því í fyrra; kvað hann áætlun nefndarinnar, um að tollurinn mundi nema 12 miljónum króna árlega, vera ranga. En hv. þm. ætti ekki að óska þess, að reikningur hans frá því í fyrra og röksemdafærsla yrði rifjað upp. Hann taldi þá, að tollurinn mundi neina 4–71/2 miljón króna árlega, og muna menn að líkindum enn þá, hvernig hann komst að þeirri niðurstöðu. Hann fór eftir ónákvæmum og röngum skýrslum um útflutning saltfisks til Spánar, og reiknaði gullpeseta auk þess með jafngengi, á 72 aura. Í staðinn fyrir 115 aura, sem rjett var. (Útreikningar hans voru því með öllu villandi og hagga í engu því, sem nefndin heldur fram, og þarf ekki að ræða það atriði frekar. Annað mál er það, hvort þessi tollur yrði algerlega drepandi fyrir fiskiútgerðina; um það mætti skeggræða fram og aftur, og eins hitt, hvort Spánverjar sjálfir myndu ekki bera tollinn að einhverju leyti. Í fyrra var sýnt fram á, að svo fremi einhver þjóð, er stundar fiskveiðar, hefði betri tollkjör en við, hlyti þetta að lenda á seljandanum. (SvÓ) Því var spáði. Eða hví seljum við ekki fiskinn hærra verði á Spáni nú en við gerum? Auðvitað vegna þess, að hann er nú í því hæsta verði, sem við getum fengið fyrir hann.

Hv. 2. þm. Reykv. (JB) þarf jeg ekki að svara. Hann vitnaði í mín orð um það, hvernig skilja ætti orðið „vín“ í lögunum og frv. Þetta er alveg rjett hjá hv. þm. Jeg áleit, að einungis væri átt við náttúrleg vín, en ekki hitt, að þynna mætti spíritusblöndu niður í 21% og flytja svo til landsins. Jeg hefi litið þannig á, að eftir rjettu eðli íslenskrar tungu væri vín sama sem náttúrleg vín, en ekki tilbúin úr spíritus. Ef önnur vín flyttust til landsins, væri rjettast að kæra það og láta dómstólana skera úr. hvaða skilning beri að leggja í þetta ákvæði laganna. Annars er jeg ekki kunnugur störfum áfengisverslunarinnar, en fer ekki eftir lausum sögusögnum í þessu máli.