22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jónas Jónsson:

Það mun hafa verið síðasta bakterían, sem háttv. 2. þm. S.-M. (SHK) hefir ætlað að leggja til í banamein bannlaganna með ræðu sinni. Annars gaf hún lítið tilefni til andsvara En af öðrum ástæðum finst mjer ekki úr vegi að líta dálítið aftur í tímann um mál þetta. Jeg gerði ráð fyrir því áður, að jeg mundi halda líkræðuna yfir bannlögunum í dag, og virtist mjer háttv. 2. þm. S.-M. hneykslast mjög á því, að jeg talaði um dauða þessara laga. Hann virðist ekki hafa áttað sig á því, að dauði bannlaganna hefir verið fullkomin staðreynd í 1 ár, fyrir tilstilli háttv. þm. og annara. Líkið hefir staðið uppi í 1 ár. Er því best að snúa sjer að moldum þess.

Bannmálið er það mál, sem einna best allra mála hefir verið búið undan úrskurð þjóðarinnar. Mikill meiri hluti þjóðarinnar var því fylgjandi, og það fylgi hefir æ farið vaxandi. Mun óhætt að segja, að nálega enginn þm. hafi treyst sjer til þess að ná þingsæti, nema með því að fylgja banninu. Man jeg svo langt, að háttv. þm. S.-M. (SHK) og háttv. 4. landsk. þm. (JM) lýstu yfir sterkri trú sinni á bannhugsjóninni og ást á henni. Alþjóðarviljinn í landinu bar bannlögin fram til sigurs. En það var annar vilji til í landinu — embættismannaviljinn — ef svo mætti að orði kveða, sem var mjög andvígur banninu frá upphafi og hafði það mjög mikil áhrif. Voru í hóp þessara embættismanna margir læknar og sýslumenn, og auk þess töluvert af dómurum landsins, sem eigi voru sýslumenn. Auk þess voru í flokki þessum ýmsir aðrir leiðandi menn, svo sem kennarar við mentaskólann og háskólann. Þegar því litið er sögulega á bannmálið, sjest, að meiri hluti þjóðarinnar hefir viljað losna við áfengið, en minni hlutinn, nokkuð af hinum svonefndu langskólagengnu mönnum og allur þorri kaupmanna, hafa viljað hafa vín í landinu. Í upphafi var það aðallega heimastjórnarflokkurinn á þingi, sem mest beitti sjer á móti banninu, en eins og mönnum er kunnugt, þá var kjarni þess flokks embættismenn. Litlu síðar bættust við í þann flokk kennarar hins almenna mentaskóla.

Það var þess vegna bersýnilegt, að þeir, sem eiga að móta embættismannastjett landsins, höfðu opinberlega bundið fylgi sitt við andbanningastefnuna. Það orkar mjög tvímælis, hversu heppilegt það er frá uppeldislegu sjónarmiði. Um sama leyti kom það í ljós, að allmargir af dómurum landsins litu eins á. Það þótti mjög óviðkunnanlegt, að dómarar skyldu binda sig í svo þýðingarmiklu máli með því að láta í ljós opinberlega andstöðu gegn máli, sem fyrirsjáanlegt var, að þeir mundu fyr eða síðar dæma um. Þessu næst komu svo rithöfundar og heimspekingar. Þeir hjeldu því fram, að bannlögin væru brot á helgustu mannrjettindum, brot á allsherjarstjórnarskrá, sem veröldin væri bygð á. Frá slíkum talandi, kennandi og prjedikandi mönnum var því óspart haldið fram, að það væri fullkomlega leyfilegt að brjóta bannlögin, Þessi eitrun streymdi út frá allmörgum þeim mönnum, sem lengsta skólagöngu höfðu fengið. Það er sennilegt, að hjer hafi aldrei komið í ljós önnur eins siðferðisspilling sem við þessar „agitationir“. Margir þeir menn, sem stöðu þeirra vegna mátti búast við, að þjóðin tæki mikið tillit til, prjedikuðu það, að fólkið þyrfti ekki að hlýða lögum landsins. Það leið heldur ekki á löngu, áður en mótþrói manna þessara fór að bera ávöxt og tekið var að slaka á bannlögunum. Fyrst kom skipabrennivínið. Því var haldið fram, að nauðsynlegt væri, að skip Eimskipafjelagsins hefðu vínveitingar. Menn þyrftu að drekka á sjónum; fengju menn ekki áfengi á Eimskipafjelagsskipunum, þá ferðuðust menn með skipum hinna útlendu fjelaga. Því næst kom hið svokallaða konsúlabrennivín. Það þótti óhjákvæmilegt, að hinir erlendu konsúlar hefðu vín eftir þörfum. Kom þá fram í verkinu, að það töldu sumir menn hjer til skuldar hjá þeim og ætluðu sjer að taka það út með því að fá sjer í staupinu hjá fulltrúum erlendu ríkjanna. Þetta voru nú smágöt á bannlögunum. En svo kemur þriðja innrásin, læknabrennivínið. Andbanningar gerðu þá uppgötvun, að óheppilegt væri fyrir sjúklinga, að læknar hefðu ekki áfengi eftir þörfum. Og þeir fengu því framgengt, að apótekin og læknishúsin voru gerð að áfengisbúðum. Þetta fyrirkomulag hafði sínar ljósu og dökku hliðar. Það er sennilegt, að flestir læknar hafi notað eitthvað af áfengi í meðul. Jeg átti tal við einn helsta lækni þessa bæjar, sem leggur stund á innvortissjúkdóma, og hann sagðist mundu nota um 20 flöskur á ári til lyfja. En það er bersýnilegt, að læknar hafa notað heimild þessa misjafnlega. Allir bestu læknarnir hafa farið vel með hana, notað vínið sem lyf, en því miður lítur út fyrir, að töluverður hluti læknastjettarinnar hafi misbrúkað leyfið. Sömuleiðis virðist sem lyfjabúðirnar hafi ekki altaf gætt skyldu sinnar. Þarna voru nú komnar þrjár opnar leiðir að áfenginu. skipabrennivínið. konsúlabrennivínið og læknabrennivínið.

Við þetta bættist svo, að oft reyndist erfitt að sækja þessi mál fyrir dómstólunum. Sektir voru lágar og dómar mildir. Kom það meðal annars ljóslega fram í gær, er hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem er dómari, fanst það goðgá að stinga upp á háum brennivínssektum og lagði til, að frv. um það efni yrði tafarlaust felt.

Þetta gefur dálitla hugmynd um, hvernig dómarar hafa hagað sjer við framkvæmd bannlaganna, í sambandi við þetta má minnast á hinn danska dómara, sem dæmdi flesta dóma í Danmörku á stríðsárunum fyrir óleyfilega verslun við stríðsþjóðirnar. Hann tók hart og miskunnarlaust á öllum smyglurum og vandi þá greypilega af því að svívirða land sitt, og er sagt, að honum sje manna mest að þakka, hversu Dönum tókst að halda hlutleysi sínu. En hjer hefir lítið orðið vart við slíka röggsemi. Jeg skal hjer aðeins minnast á einn dóm, í hinu svokallaða Blöndahlsmáli. Það var á þeim tíma, er íslensk skip gengu til Ameríku, að maður nokkur, Blöndahl að nafni, kom með áfengiskassa í farangri sínum. Málið kom fyrir rjett og maðurinn var sýknaður. Blöndahl bar það fram, að hann hefði ekki vitað, hvað í kassanum var, og dómarinn tók það fyrir góða og gilda vöru. Svo stóð á, að um þetta leyti var verið að stofna hjer hæstarjett. Templarar vildu áfrýja máli þessu til hæstarjettar og fóru fram á það við þáverandi forsætisráðherra (JM), að hann gerði það, og mun hann hafa lofað því. En það varð ekkert úr því, og það hefir aldrei komið fram, hvers vegna dómsmálaráðherrann lofaði þessu, en efndi ekki. Þetta dæmi sýnir, hversu erfitt það var fyrir almenningsviljann að fá að njóta sín. Þeir, sem áttu að gæta bannlaganna, gengu ekki með orku að því; menn fengu þá trú, að ekki væri hættulegt að brjóta og studdust við álit mentamannanna, að það væri siðferðislega rjett. Það er ekki rjett að gleyma því, að þetta ástand hefði átt að geta vakið blíðar tilfinningar gagnvar banninu í brjósti sumra þeirra, er áttu að gæta þess. Það er sagt, að einn merkur dómgæslumaður hafi haft svo miklar tekjur af tollheimtu eitt árið, að hann hafi þá orðið varanlega auðugur maður og bygt fyrir gróðann eitt af stórhýsum þessa bæjar. Svo gott hafði bannið reynst honum. Þá er og vitanlegt, að bannið hefir orðið ljelegri tegund lækna hjer fjárgróðavegur. Því væri ekki ólíklegt, að þessir menn mintust bannsins með þakklátssemi. Jeg man eftir því, að fyrir 12 árum hitti jeg í Danmörku gamlan íslenskan prest, sem sagði við mig: „Jeg veit það, að bannið verður ekki afnumið þegar kvenfólkið fær kosningarrjett. Þótt karlmennirnir bregðist, þá treysti jeg kvenfólkinu með sína næmu siðferðistilfinningu, er það minnist þess, hvað það hefir oft og einatt orðið að þola vegna vínbölsins.“ Jeg trúi ekki öðru en þetta rætist og við útför bannsins sjáist það, að kvenþjóðin láti spádóm þennan verða að sannindum. þannig, að hinn útvaldi fulltrúi kvenþjóðarinnar standi djarflega á verði.

Þegar bannlögin voru búin að ganga í gegnum þennan reynsluskóla og stríðinu var lokið. tók straumur almenningsvaldsins smám saman að sigra hinn svarta straum lögbrotaheimspekinnar. Rostinn tók að lækka í þeim, sem vildu brjóta bannlögin. En þá kemur þessi dagsbrún, þessi sólarupprás á Spáni, sem endanlega losar andbanninga við þann ótta, að landið þurfi að vera „dry“. Er krafa Spánverja frjettist, þá varð uppi fótur og fit hjá andbanningum. Blað eitt, sem aðallega var málsvari flokks þess, er var á móti banninu, taldi þegar í stað ekkert vit í öðru en láta undir eins undan hinni dökkhærðu suðrænu þjóð. En stjórnin vildi þó gera eitthvað til þess að fá Spánverja til þess að falla frá kröfum sínum, og til þess valdi hún þann mann, sem áður fyr hafði látið í ljós mestu fyrirlitningu á banninu og ótrú á því. Hann var þá suður í löndum og var nú sendur til Spánar til þess að sannfæra Spánverja um nauðsyn bannsins. Það virtist nú mörgum merkilegt, að láta höfuðandbanning landsins vera fulltrúa þess í þessu máli á þessum stað. Það gekk auðvitað ekki neitt á Spáni. Jeg segi ekki, að niðurstaðan hefði orðið önnur, þótt annar hefði verið sendur, en þetta sýnir vel hjartalag þáverandi forsætisráðherra (JM). er stóð fyrir samningunum. — Bannmenn gerðu hvað þeir gátu til þess að fá aðstoð erlendis í þessu máli. Þeir sendu ágætan bannmann. Einar Hjörleifsson Kvaran, út í lönd, og var honum víða vel tekið. En hann hafði engan stuðning frá stjórninni. Jeg held að það sje rjett, að einu sinni er hann var staddur í Englandi, þá átti hann erfitt með að ná tali af háttsettum stjórnmálamönnum, af því að hann vantaði stjórnarumboð. Hann símaði þá heim eftir umboði, en fjekk ekki. Stjórnin treystist ekki til að veita honum stuðning. Þá kom það og í ljós, að stjórnin hafði ekkert gert til þess að afla oss bandamanna erlendis. Norðmenn stóðu í stímabraki við Spánverja um sama mál og við. Þá var ekki úr vegi, að stjórnin færi þess á leit við Norðmenn að gera bandalag við þá, og eitt gengi yfir báða. Þessu var haldið fram af bannmönnum. En þá var því haldið fram af íslenskum andbanningum, að Norðmenn sætu á svikráðum við okkur og við yrðum að sigra einir. Það var ekki eingöngu stjórnin, sem var á móti þessu, heldur var viðskiftanefndin og ófús á að reyna þessa leið. Þá hefði og verið reynandi, að formaður stjórnarinnar færi til Bandaríkjanna til þess að reyna að útvega oss þar stuðning í þessu máli gegn Spánverjum. Það hefði að minsta kosti ekki verið óþarfara en að sitja hjer heima í veislufagnaði með erlendum gestum. Þannig hjelt málið áfram. Maðurinn, sem hafði haldið hjer út blaði og kallað bannlögin þrælalög, sat suður á Spáni, en stjórnin og viðskiftanefndin vildu enga samvinnu við Norðmenn. Um þetta leyti kemur þing saman. Þá gerist merkilegur hlutur. Einn af helstu bannmönnum þingsins kallar bannmenn saman á fund, til þess að fá þá til að láta engan mann skerast úr leik við afnám bannlaganna. Nokkuð líkt gerðist hjer í deildinni nú. er einn hv. þm. virtist furða sig á því, að þm. skyldu ekki allir sem einn rjetta upp höndina með kröfu Spánverja.

Þá kem jeg að 121/2 miljónunum, sem hv. 2. þm. S.-M. (SHK) veifaði hjer eins og úlfhjeðni. Honum fanst ósæmilegt af mjer að fara niðrandi orðum um útreikninga viðskiftanefndarinnar. Virtist hann álíta slíka útreikninga skeikula. Jeg vil nú leyfa mjer, honum og öðrum til skilningsauka, að nefna hjer nokkur dæmi um mannlegan fallvaltleik í þessum efnum. Fyrir um 20 árum var einn af hv. þm. þessarar deildar mjög sannfærður um nauðsyn Íslandsbanka. Það var háttv. 2. þm. G.-K. (BK). Síðar, er hann var orðinn bankastjóri við annan banka, virtist af skrifum hans, að hann hefði fundið nýjan sannleik við nýja rannsókn. Hin fyrri rannsókn hafði þá ekki reynst tæmandi. Líka má benda á útreikninga sama manns viðvíkjandi S. Í. S. Í vetur þóttist hann sýna fram á það með rökum, sem áttu að vera vísindaleg, að fyrirtæki þetta væri að setja landið á hausinn. En veruleikinn er sá, að þangað hefir aldrei komið reikningur, sem ekki hefir verið greiddur. En á sama tíma fara keppinautafyrirtæki og kaupmenn hópum saman á höfuðið og þeim eru gefnar upp miljónir. En það hafði þessi maður talið ábyggileg fyrirtæki. Þá munu margir, sem kannast við umræður í símamálinu, þar komast við „vísindalega“ útreikninga hv. 2. þm. G.-K. (BK) að fullnaðarvissu um að landssíminn myndi setja íslensku þjóðina á höfuðið. Jeg tek þessi dæmi um mannlegan fallvaltleik, og háttv. 2. þm. S.-M. (SHK) má ekki vera of viss um, að allir útreikningar sjeu óyggjandi. En til þess að nefna samskonar dæmi honum nær, skal jeg geta þess, að þegar jeg var unglingur norðanlands var hann blaðstjóri á Akureyri. Jeg las þá í blaði hans, sem mjer þótti fremur skemtilegt, marga leiðara um það, hvað einn flokkur í landinu væri skaðlegur og sjerstaklega varað við foringja flokksins, sem nú er látinn, Hannesi Hafstein. Svo varð háttv. þm. alt í einu ritstjóri blaðs hjer í Reykjavík. Og snemma í þeim blaðaleiðangri kemur mynd í blaði hans af H. Hafstein, ásamt löngum leiðara um þann mæta mann, og kveður þar töluvert við annan tón en í blaði hans á Akureyri: því að nú kemur fram alt önnur skoðun á manninum. Vafalaust hefir aukin rannsókn kent ritstjóranum, að hin fyrri skoðun var röng. Þetta er aðeins dæmi, sem sýnir, að bjargfastar skoðanir geta verið rangar. En til þess að sýna, að útreikningar geta líka verið rangir, nægir að minna háttv. frsm. (SHK) á, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) komst að annari niðurstöðu í fyrra en háttv. frsm. með útreikninginn á pesetunum. Verð jeg þó að telja háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) miklu skýrari mann. Þá má og nefna matið á hlutabrjefum Íslandsbanka. (Forseti: Vill þingmaðurinn ekki halda sjer við efnið). Jú, en jeg tek þetta sem dæmi. Hlutabrjefin voru metin af nefndinni á 95 kr. hverjar 100 kr. En mat kauphallarinnar reyndist aftur alt annað á brjefunum, Hefir stundum komist niður í 38%. Þetta ætti að nægja til þess að sýna. hversu dómum og ályktunum manna getur skeikað.

Hefði því fullvel mátt svara Spánverjum öðruvísi, þegar kröfur þeirra voru annaðhvort að breyta lögunum eða að þeir keyptu ekki saltfiskinn af okkur. Það var því eigi um annað en verslunarkúgun að ræða hjá þeim.

En hvað sögðu Belgir við Þjóðverja, þegar þeir vildu fá að fara með herinn yfir land þeirra ? Þeir sögðu vitanlega nei, þrátt fyrir það, þótt þeir vissu vel, hve mikið var í húfi. Þeir sögðu eins og einn af okkar frægustu mönnum, þegar danskir dátar ætluðu að kúga þjóðina: „Vjer mótmælum allir“. Belgíumenn komu óskemdir út úr rauninni. Höfðu vitanlega látið bæði menn og fje, en hjeldu því, sem mest var um vert, en það var heiðurinn. Fáar íslenskar setningar eru á sama hátt tengdar við manndóm eins og orð Jóns Sigurðssonar: „Vjer mótmælum allir.“ Og þessi orð voru einmitt sögð, þegar beita átti okkur ofríki af útlendu valdi. Og maðurinn, sem sagði þessi orð, vildi heldur lifa við skuldir og fátækt heldur en selja manndóm sinn, því að honum voru boðin góð embætti, til þess að hann hætti að standa á verði í þjóðfrelsisbaráttunni.

Jeg býst nú ekki við, þrátt fyrir þetta, að hægt sje að láta háttv. 2. þm. S.-M. (SHK) skilja þessa hlið málsins. En jeg skal taka það fram, að mjer finst afnám bannlaganna svo ófrægilegt verk, að jeg vil ekki eiga þátt í að greiða atkvæði með því.

Hvernig eru þá meginlínur í þessu máli? Því er fljótsvarað. Annars vegar eru kröfur bannmanna um að losa þjóðina algerlega við áfengisbölið, heilsutjón, fjártjón, líkamlega og andlega úrkynjun: en hins vegar er eigingirni og nautnalöngun hinna vínþyrstu. Og þessi eigingjarna, spilta hneigð hefir frá upphafi ráðið atkv. andstæðinga bannstefnunnar.

Bannlögin liggja nú á líkbörunum. Sjúkdómssaga þeirra byrjar á hinum heimspekilegu kenningum um að þjóðin eigi að brjóta bannlögin. Fyrsta undanþágan mun hafa verið konsúlabrennivínið, þá kom læknabrennivínið, skipabrennivínið og að síðustu kröfur Spánverja um innflutning ljettra vína, sem nú þegar hefir verið gengið að. Og einn af hinum miklu bannvinum þingsins. hv. 2. þm. S.-M. (SHK) leggur til, að Spánarvínin verði seld sem víðast, einmitt til að auka hófsemina! Eftir öll þessi sjúkdómsköst lá veikin niðri þangað til í gær. Þá tekur veikin að gera vart við sig hjer í háttv. deild, er felt var frv. frá 2. umr., er gekk í þá átt, að hafa örugt eftirlit með bannlögunum, að því leyti, sem þau eru enn í gildi. Samkvæmt því átti að framfylgja á öruggan hátt fyrirmælum um, að vera ekki ölvaður á almannafæri, og svo um búið, að smyglarar sættu verulegum sektum fyrir brot sín. Þetta vildu samkepnismenn efri deildar ekki láta ræða, enn síður samþykkja í þinginu. Til að kóróna alt verk þingsins í þessu máli er síðan hið endanlega dráp bannsins afgreitt hjer með afbrigðum frá þingsköpum. Bak við allar þessar aðgerðir hlýtur að vera einhver dularfullur kraftur, sem knýr löggjafana áfram eftir þessari þrotlausu vínsölubraut.

Út af þeim gorgeir háttv. frsm. (SHK) að við hefðum ekki efni á að tapa 12 milj. króna, má benda á, að einmitt eftir að undanþágan frá bannlögunum var veitt hefir verslun með saltfisk verið svo vond, að hún hefir sjaldan eða aldrei verið verri áður. Lítur því eindregið svo út, að undanþágan hafi ekki haft þá þýðingu fyrir saltfisksmarkaðinn, sem andbanningar hafa lofað. Er því, sem eðlilegt er, mikil óánægja víða út af saltfiskssölunni, því að af hinni vondu sölu hefir leitt, að krónan hefir lækkað og allar nauðsynjar því lækkað í verði. Hefði því eflaust legið nær fyrir andbanninga að reyna að koma góðu skipulagi á fisksöluna heldur en berjast fyrir afnámi bannlaganna. En þeir hafa ekki gert svo mikið sem líta í þessa átt, þrátt fyrir það, þó að þeir viti vel, að nær því öll saltfiskssalan er nú í höndum 2–3 útlendinga, og að ólagið á sölunni hefir hin verstu áhrif á ástandið yfirleitt, og þjóðin tapar árlega við það mörgum miljónum króna. Til þess að ráða bót á þessu hafa hinir miklu föðurlandsvinir ekkert gert, þótt vel hefði mátt búast við, að þær söluaðferðir hefði mátt finna, sem meira hefði munað almenning en fisktollurinn á Spáni.

Að Copland hefir fengið að halda áfram braski sínu með íslenskan saltfisk, hlýtur að skiljast svo, að hann starfi í góðu samræmi við útgerðarmennina, sem hrópuðu hæst um afnám bannlaganna. Og gagnvart þeim mönnum, sem þykir jeg ekki nógu liðugur að beygja mig í vínmálinu eftir dutlungum útgerðarmanna, vildi jeg mega minna á, að mín litlu áhrif í olíumálinu hafa orðið til þess að hjálpa fiskframleiðslunni og losa hana við þvingun ameríska hringsins.

Framtíðarlandið, sem nú blasir við okkur, er þannig, að við erum búnir að versla með bannið, og Spánarvín verða seld hjer á mörgum stöðum. Þeir verða „vargar í vjeum“, sem vilja halda smygluninni í skefjum. Því hefir verið haldið fram, að drykkjuskapur myndi minka, ef innflutningur Spánarvína yrði leyfður. En reynslan hefir sýnt hið gagnstæða, því að aldrei hefir meira verið keypt af smyglurum en einmitt eftir að undanþágan frá bannlögunum var veitt. Og ekkert má gera fyrir andbanningum til þess að halda þessu í skefjum, því gróðanum af víninu, sem sumir kalla hina „30 silfurpeninga“, má ekki verja til þess að vinna á móti bölinu, sem af því leiðir. Enda má vel vera, að honum eigi að verja til þess að jafna gúlana á fjáraukalögunum frá 1920–21.

Mjer fyndist nú rjett, að hinir miklu menn, sem hjer vinna sigur í dag, færu í sinn besta skrúða og hengdu á sig alla þá krossa, sem þeir hafa unnið sjer inn með hraustlegri baráttu fyrir föðurlandinu, og að þeir fylgi nú bannhreyfingunni til grafar eins og kærum vini. En alt í kringum okkur í hinum siðaða heimi eru vísindi þau, sem byggja á lífeðlisfræði, altaf meira og meira að kreppa að víninu. En hjer, í hinu unga fullvalda ríki, er verið að opna því leið — inn að hjarta þjóðarinnar.