22.03.1923
Efri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

12. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jónas Jónsson:

Jeg get ekki látið hjá líða að gera stutta athugasemd. Það fer eftir hugsunarhætti manna, hvað þeir telja kúgun og hvað ekki. Belgir gátu samið við Þjóðverja í byrjun ófriðarins og látið þá fótum troða hlutleysi sitt. En þeir gerðu það ekki. Þeir litu á það sem kúgun. Og nú eru flestir á einu máli um það. Heigullinn er oft svo mikill heigull, að hann þorir ekki einu sinni að viðurkenna, að hann sje kúgaður. Þá vil jeg líka benda á það, að önnur vínþjóð hefir ekki viljað beita þessu bragði. Það eru Frakkar. Ástæðan er sú, að Frakkar eru einhver mentaðasta þjóð heimsins, En Spánverjar einhver ómentaðasta þjóð Evrópu.

Það er talað um fyrirsjáanlegt hrun sjávarútvegsins. En þeir, sem bera hann svo mjög fyrir brjósti, reyna ekkert til þess að bæta, úr öðru, sem er þessum atvinnuvegi miklu hættulegra, og það er fyrirkomulagið á fisksölunni. Mjer hefi verið sagt, að einn danskur maður hafi tapað um 7 miljón kr. á fiskútflutningi hjeðan síðustu ár. En það er undarlegt, hve lítið er um þessa hættu talað, og enn minna gert til þess að sporna við henni. Það er vitanlega ekki nóg að hafa rjett við að selja fisk með lágum tolli þegar verðið er lágt. Og það er undarlegt, að það eru aðrir en fiskimennirnir sjálfir, sem hafa hæst um hættuna, sem stafar af háum tolli. Þeir hafa yfirleitt tekið öðruvísi í málið. Hjer á þinginu er einn maður fulltrúi fyrir þessa stjett, og hann hefir verið á móti undanþágunni. Jeg get ekki sagt, að jeg sje fulltrúi þessarar stjettar, en kjósendur mínir vissu vel afstöðu mína til málsins áður en þeir kusu mig; jeg gerði ekkert til þess að leyna henni, og jeg hefi því ástæðu til að ætla, að jeg sje ekki í andstöðu við þá. Jeg efast því um, að íslenskir kjósendur sjeu jafnhrifnir af undanhaldi þm. sinna eins og þeir sjálfir eru. Það er rangt, að ekki hafi verið haldnir mótmælafundir út af afnámi bannlaganna. Þeir hafa verið haldnir, og það margir og fjölmennir. En jeg skal viðurkenna, að goluþyturinn hefir ekki orðið eins mikill eins og búast hefði mátt við í fljótu bragði. En það er eðlilegt; þegar nærri því hver einasti þm. hefir tekið þátt í flóttanum, þá er síst kyn, þótt hægt sje að rugla þjóðina.

Þá eru ýms smáatriði, t. d. um afstöðu dómaranna. Jeg veit, að þeir eiga að hafa skoðanafrelsi, en jeg veit líka, að fleirum en mjer þykir það óviðfeldið, að dómarar og aðrir, t. d. kennarar, halda opinberlega fram þeim skoðunum um æsandi nautnaefni, að menn gætu glapist til að taka það sem meðmæli með þessu efni.

Þá kem jeg að háttv. 4. landsk. þm. (JM). Mjer þótti hann ekki hafa tekið skarpt á hlutunum í leit eftir hjálp gegn yfirgangi Spánverja. Þetta verð jeg að standa við. Jeg get ekki talið það vel til fallið að senda þann mann í þessa hjálpar- og samningaleit, sem hefir kallað bannlögin þrælalög og gert mest til þess af öllum hjer að svívirða þau opinberlega. Jeg skil ekki þessa sálarfræði. Jeg skil ekki að ætla mönnum að dæma og breyta hlutlaust um þau efni, og meira, ætla þeim að berjast fyrir því, sem þeir eru einhuga á móti. Og jeg verð að telja það óviðfeldið, að dómarar og aðrir, sem settir eru til að vernda landslögin, geri nokkuð til að veikja þau og gera þeim ógagn.

Mjer þykir vænt um, að jeg hefi orðið til þess að fá það dregið fram, hvernig fyrverandi og núverandi stjórnir hafa haldið á þessu máli. Þó er mjer enn óskiljanlegur þessi flýtir, þessi ákafi að afnema bannlögin og beygja sig fyrir tollkröfunum, en gera ekkert til þess að hindra óheilbrigða verslun með fisk.