20.04.1923
Neðri deild: 46. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (3123)

130. mál, tryggingar fyrir enska láninu

Forsætisráðherra (SE):

Jeg get verið stuttorður nú og vísað að mestu leyti til þess, sem jeg sagði áðan.

Skal jeg þá fyrst svara fyrirspurn hv. þm. V.-Sk. (LH) um það, hvort fjármálaráðherra hefði ekki haft aðgang að skjölum bankans. Er því þar til að svara, að eftir 22. gr. reglugerðar fyrir Íslandsbanka á sá ráðherra, sem bankinn heyrir undir, fulla heimild á að sjá öll skjöl hans, og skal jeg til frekari sönnunar lesa upp grein þessa:

„Jafnframt því, að landsstjórnin, með því að hafa þrjá þingkosna fulltrúa í fulltrúaráðinu, getur haft eftirlit með því, að bankinn hlýði fyrirmælum laga 7. júní 1902 og reglugerðar þessarar og fullnægi sjerstaklega skilyrðunum fyrir seðlaútgáfurjetti sínum, er enn fremur ákveðið, að ráðherra Íslands hefir rjett til þess, hve nær sem hann vill, að heimta sýnt og sannað, að málmforði bankans sje í hinu lögákveðna hlutfalli við seðla þá, sem í veltu eru, og auk þess hefir hann aðgang að framkvæmdarstjórnarumræðum og rjett til þess, hve nær sem vera skal, að láta sýna sjer bækur bankans og skjöl“.

Þegar þessi reglugerð var gefin út, var vitanlega ekki nema einn ráðherra, en það liggur í hlutarins eðli, að nú er það sá ráðherrá, sem bankinn heyrir undir, er yfirumsjón á að hafa með honum.

Hv. þm. Ak. (MK) sagði, að þetta mál heyrði undir mig, og vil jeg því svara honum með því að skírskota til þess, er jeg svaraði hv. þm. V.-Sk. (LH), að eftir 22. gr. reglugerðar bankans heyrði þetta undir fjármálaráðherra.

Þá er það hv. 2. þm. Reykv. (JB), er jeg skal svara nokkrum orðum. En jeg skal strax taka það fram, að jeg ætla ekki að fara að grípa á lofti þær hnútur, sem að mjer hafa verið rjettar hjer í dag, heldur svara hv. þm. í sama tón og jeg hjelt mína fyrstu ræðu, því jeg tel friðinn fyrir miklu.

Hv. þm. (JB) var reiður yfir því, að hann hefði ekki fengið svar upp á þá fyrirspurn sína, hver eftirlaun Tofte bankastjóri hefði fengið, er hann fór frá bankanum. En það hefir verið upplýst áður, að í bankaráðinu hefir verið samþykt að birta ekki það, sem þar gerist, nema samþykkis bankaráðsins sje áður leitað til þess. Ástæðan til þessa var, að sum blöð hjer gripu hvað eina, sem gert var viðvíkjandi Íslandsbanka, til þess að gera árásir á hann, og til þess því að skapa frið um bankann, þótti rjett að birta ekki ýmsa hluti, sem snertu innri stjórn bankans.

Annars get jeg vísað til þess, er jeg sagði fyrir stuttu í þessari hv. deild, að Tofte fekk alls engin eftirlaun.

Það er langur vegur frá, að jeg beri kinnroða fyrir það, sem jeg hefi gert í þessu máli. Jeg álít miklu frekar, að það ætti að mæla með mjer í augum hv. þm. Og jeg er í engum efa um, að það hefir verið landinu og bankanum í stórhag.

Þá skildist mjer, að hv. þm. (JB) væri að tala um, að stjórnin hefði tekið ábyrgð á láni, sem Íslandsbanki hefði fengið hjá Landsbankanum í vetur. Út af þessum ummælum skal jeg lýsa yfir því, að um enga slíka ábyrgð var að ræða. Hið eina, sem stjórnin gerði í því máli, var, að hún lagði samþykki sitt á samninga, sem bankarnir voru búnir að gera um viðskifti sín á milli, án tilhlutunar frá stjórninni.

Bankarnir komu sjer áreiðanlega saman um þessa samninga vegna viðskiftalífsins. Íslandsbanki á samkvæmt lögum frá 1921 að draga inn 1 milj. í seðlum á ári, og þetta vildi bankinn auðvitað ekki láta bregðast. En af því leiddi aftur, að annaðhvort varð Landsbankinn að taka við nokkrum viðskiftum Íslandsbanka, eða Íslandsbanki varð að fá fje annarsstaðar frá. Voru þessir samningar því gerðir á milli bankanna, til þess að hægt yrði að reka atvinnuvegina eins og að undanförnu. Íslandsbanki gat ekki bæði dregið inn seðlana og lánað til útvegsins, eins og hann hafði gert áður. En Landsbankinn vildi aftur á móti ekki taka við neinu af viðskiftum Íslandsbanka.

Var því, eins og báðir bankarnir sáu, mikil nauðsyn á þessum samningum, og gerðu þeir þá því sín á milli, en stjórnin fjelst á þá, sem sjálfsagt var.

Hv. þm. Ak. (MK) og jafnvel hv. frsm. (SvÓ) sögðu, að stjórnin hefði neitað að gefa skýrslu um hag bankans. En þetta er með öllu órjett, því að jeg hefi aldrei verið beðinn um slíka skýrslu, en hefði vitanlega gefið hana, ef þess hefði verið óskað.

Jeg tók það fram á fundi, sem jeg var á hjá Framsóknarflokknum í þingbyrjun, og þar sem bankamál bárust á góma, að jeg teldi rjett fyrir flokkinn að fá bankastjóra beggja banka og stjórnina á fund til að ræða þessi mál. Taldi jeg víst, að þá mundu öll kurl koma til grafar. En úr þessu varð ekkert af flokksins hálfu. Mjer hefir því aldrei dottið í hug að neita að gefa slíka skýrslu.

Jeg skildi hv. frsm. (SvÓ) svo, að hann nú hjeldi því fram, að till. færi ekki fram á almenna rannsókn, og lýsi jeg hjer með ánægju minni yfir því, að hann heldur ekki þessu fram, en mjer var ómögulegt að skilja tillöguna eins og hún er orðuð, nje heldur framsöguræðu hans, á annan veg. Það er ekki hægt að neita því, að það er margt, sem bendir á það, að um meira hafi verið að ræða, en þar sem þessi yfirlýsing er komin fram, er ekki ástæða til að deila um það.

Annars legg jeg áherslu á, að stjórnin hefir ekki verið afskiftalaus um þetta tryggingamál, þar sem bætt hefir verið við veðið á tímum núverandi stjórnar um 2 milj. og 400 þús. kr.

Jeg hafði ástæðu til þess að skilja hv. þm. Ak. (MK) á þá leið, að jeg með ummælum mínum um þetta mál hefði sýnt þeim stjórnmálaflokki, sem bar þessa till. fram, hálfgerða móðgun. Það var alls ekki hægt að skilja mig þannig. Jeg sagði, að enginn skyldi skilja orð mín svo, að jeg áliti, að þetta væri borið fram í illum tilgangi. En kapp þessara hv. flm. um að fá upplýst málið hefir orðið að ofurkappi, sem hefir orðið til þess að hylja þeim sýn, hve afar tvíeggjuðu vopni þeir hefðu brugðið hjer í hv. deild. Og jeg verð að segja það, að þessi ummæli mín byggjast á því, að jeg hefi átt tal við ýmsa hv. þm. og komist að því, að þeim er þetta mikið kappsmál að komast að því sanna í þessu máli, vegna umtals þess og sögusagna, sem borist hafa út um alt land um þetta efni.

Jeg tók fram í fyrri ræðu minni, að æskilegt væri að hafa lögskipaðan eftirlitsmann með sparisjóðum, enda inneignir í þeim margar miljónir. Það er alveg rjett, að á fyrri þingum hefir oftar en einu sinni verið reynt að koma þessu máli fram, en jafnan mætt mikilli mótspyrnu. En nú eru tímarnir allir aðrir, meiri órói yfir öllum hlutum en áður var, ekki síst á fjármálasviðinu. Auðvitað eiga bankamir einnig að vera undir eftirliti þessa manns. Þetta mundi alls ekki verða til þess að rýra traust og álit bankanna, heldur þvert á móti. Þetta er öryggisráðstöfun, sem yrði til þess að tryggja bankana. Eftirlitsmaðurinn væri auðvitað skyldur til þess að gefa stjórn og þingi upplýsingar um þessi mál, hve nær sem væri, og þó ekki væri annað, mætti grafa ýmsar kviksögur fljótlega, svo engum væri til neins að byggja framtíð sína á þeim. (JB: En bankaráðið?). Jeg hefi vakið máls á þessu við stjórn Íslandsbanka, og orðið þess var, að hún var því meðmælt. Hún er ekkert hrædd við rannsókn. Það eru aðeins hinar óvenjulegu aðferðir, sem hún óttast, eins og til dæmis, að þingið tæki að sjer að framkvæma þá rannsókn. Ef slíkt frjettist til útlanda, mundi það, vegna þess, hversu aðferðin er sjerstakleg, hafa mjög ill áhrif á hag og álit bankans. Það eru engar stofnanir jafnviðkvæmar og bankarnir, og því skyldi með gætni leggja þá á höggstokk blaðaárása.

Jeg gat um samkomulag það, sem fengist hefir milli bankastjórnanna, og veit, að það muni hv. þm. gleðiefni, og jeg verð að segja, að jeg held, að það yrði einnig happasælast þessu máli, að sama samkomulag fengist hjer í hv. deild um þetta mál. Jeg held það væri öllum fyrir bestu, enda vona jeg, að svo fari. Á það finnast mjer benda hinar mörgu yfirlýsingar, sem fram hafa komið nú í lok þessarar umr.