02.03.1923
Neðri deild: 10. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (3190)

40. mál, skipun nefndar til að íhuga vatnamálin

Jakob Möller:

Þær ástæður, sem jeg sjerstaklega hefi fram að færa gegn því, að sjerstök nefnd verði skipuð til að íhuga vatnamálin, eru þær, að það mundi mjög tefja störf fastanefnda og dreifa kröftum þeirra, þar sem vitanlega er óhjákvæmilegt að skipa þessa nefnd mönnum, sem nóg hafa að starfa í öðrum nefndum. Gæti þá svo farið, að önnur nauðsynlegri störf biðu halla af því. Mál þetta er þannig vaxið, að það tæki mikinn tíma, ef það færi í nefnd, og auk þess lítils árangurs að vænta, í samanburði við þau umsvif og rekistefnu, er það hefir í för með sjer. Þekki jeg þetta af eigin reynd. Málið hefir áður verið í nefndum og allmikið athugað, og virðist því óþarfi að rjúka til strax í þingbyrjun og kjósa nefnd í það. Það var á þinginu 1921, sem nefnd í þessum málum lauk störfum sínum, ný nefnd mundi því ekki gera annað en taka upp tillögurnar frá því ári, þó að vitanlega geti orðið æðimikið þref og þjark í nefndinni í sambandi við það. En það liggur ekkert á að gera það strax. Hvor hlutinn um sig hefir sínar tillögur á takteinum, hvenær sem kallið kemur. Jeg held þess vegna fast við þá tillögu mína, að umræðum verði að minsta kosti frestað.