08.05.1923
Sameinað þing: 4. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í D-deild Alþingistíðinda. (3284)

133. mál, strandvarðar og björgunarskip

Flm. (Jónas Jónsson):

Það var einu sinni drotning, sem ekkert skildi í því, að fólk skyldi deyja úr hungri, þegar hallæri var í landinu. Eins og það væri þá ekki nær fyrir það að borða brauð og smjör! Mjer finst sumir ræðumenn hjer hugsa á líka leið og þessi drottning. Hæstv. forsrh. (SE) hefir viðurkent, að tímar sjeu nú óhagstæðir til að byggja skip og að kostnaðurinn muni verða mjög mikill, en þó óskar hann þess, þrátt fyrir það, að till. okkar hv. 1. þm S.-M. (SvÓ) verði feld, svo að hægt sje að byrja nú þegar á þessu ári á byggingu strandvarnarskips. En hvaða líkur eru til þess, að hægt verði að byggja skip nú þegar? Hæstv. forsrh. (SE) veit um það, að hvað eftir annað lá við, að landið tapaði af samningnum með Esju, sökum yfirfærsluvandræða. Líkurnar eru ekki miklar til þess, að hyggilegt sje að ráðast í að byggja skip næstu mánuðina. Við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) viljum ekki rasa fyrir ráð fram í þessu máli. Jeg legg þessa till. á þskj. 318 á borð við till. um að byrja nú þegar á því að byggja landsspítala yfir 150 manns, sem kosta mundi um 3 miljónir króna. Í hvorugri till. er tekið tillit til þess, að við erum fátæk þjóð, sem ekki megum leggja út í mikinn kostnað, nema að yfirlögðu ráði.

Viðvíkjandi því, sem haldið hefir verið fram, að björgunarstarf og landhelgisgæsla sje alveg ósamrýmanlegt, þá skal jeg geta þess, að till. okkar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) byggist á því, að við höfum ekki efni á að kasta fje í landhelgisgæsluna, en vanrækja tekjur, sem við gætum haft jafnframt af björgunarskipi. Þeim, sem þekkja til þess, að björgunarskipið Geir liggur hjer óhreyft á höfninni viku eftir viku, er það óskiljanlegt, að það hefði ekki getað gert eitthvað fyrir landhelgisgæsluna á þeim tíma. En þeir, sem hugsa eins og drotningin, álíta vitanlega, að ekki sje nauðsyn á því að láta sama skipið fara með bæði störfin.

Jeg get tekið það fram, viðvíkjandi þegnskylduvinnu stýrimannaefna á skipinu, að framkvæmdarstjóri Eimskipafjelags Íslands álítur mjög æskilegt, að slíkt fyrirkomulag komist á, og að það nái jafnvel til fleiri skipa, svo sem skipa Eimskipafjelagsins og Esju. Er álit hans á þessu máli ekki minna virði en hv. þm. þessi þegnskylduvinna er ekki eingöngu vegna landsins; hún er fyrst og fremst vegna mannanna sjálfra. (HSt: Hafa þeir beðið um það?). Á að láta stýrimennina ráða sjálfa, hve mikla mentun þeir fá? Það væri alveg ný aðferð. Nei, aðalatriðið er þetta, hvort við eigum að haga okkur eins og drotningin, eða aðeins eins og 100000 manns í fátæku og erfiðu landi, sem ekki hafa efni á að lifa í neinum skýjaborgum.