20.03.1923
Neðri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

83. mál, fræðsla barna

Björn Hallsson:

Mjer þótti háttv. flm. (MJ) færa lítil rök fyrir því, hvers vegna hann hefði skift um skoðun síðan 1921. Lítur út fyrir, að hann hafi sjálfur skotið fram hjá markinu annaðhvort árið. Við höfum hvor sína skoðun á því, hvort tilskipunin frá 18. öld, sem vitnað hefir verið í, sje enn í gildi, og þar sem fræðslulögin frá 1907 nefna hana ekki með þeim lögum, sem þau nema úr gildi, þá verð jeg að álykta af því, að hún sje enn í gildi. Þá talaði hann enn um það, að fræðslumálastjórn myndi treg að skipa prófdómendur. Það verður tvímælalaust gert, ef prestar telja sig ekki geta sint eftirlitinu eða prófdómarastarfinu vegna embættisanna. Prestar geta því ráðið þessu að mestu.

Háttv. flm. (MJ) gat þess, að hann hefði borið þetta undir einhverja lögfræðinga; en jeg geri ekki svo mikið úr því, því svo eru lög sem hafa tog, og það, sem einn lögfræðingurinn heldur fram, er oft neitað af hinum. Efast jeg ekki um, að jeg hefði fengið einhvern lögfræðing til þess að styðja mitt mál, ef jeg hefði leitað álits þeirra um það. Hins vegar væni jeg ekki flm. um það, að hann hafi ekki spurt einhvern lögfræðing um þetta. Það er aðeins ekkert að byggja á órökstuddum orðum; tel jeg því ekki mikið á þeim ummælum að byggja.

Háttv. flm. kannast þó nú við, að prestar eigi að hafa eftirlit með kristindómsfræðslunni. Jeg hefi þó sannfært hann um það. En 1921 taldi hann skyldu þeirra að hafa fræðsluskylduna þrátt fyrir setningu fræðslulaganna.

Háttv. flm. (MJ) hefir misskilið orð mín. Taldi hann, að jeg væri hræddur við að eiga umræður um frv. í allshn., eða nenti ekki að vinna að því. En jeg tel allshn. hafa annað þarfara að vinna en að ræða frv., sem sjálfsagt er að fella, svo miklum fjölda frv. er búið að vísa til þeirrar nefndar.