09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

18. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Forsætisráðherra (SE):

Jeg ætla aðeins að gera örstutta athugasemd út af ummælum háttv. 5. landsk. þm. (JJ). Jeg átti tal við læknana hjer í þessari háttv. deild á síðasta þingi, þar á meðal einnig landlækni, um þetta frumvarp, og tók hann því vel, en tími þótti ekki til þess að koma málinu fram.

Jeg hjó eftir því hjá háttv. þm. (JJ), að í frv. væri gerð tilraun til þess að hjálpa sjerfróðu læknunum, og sagði hann, að nefndin hefði að nokkru bætt úr þessu. En jeg heyrði það ekki á háttv. frsm. (SHK), að þær breytingar, sem háttv. þm. (JJ) átti við, væru gerðar vegna þess. En jeg aftur á móti tók það fram, að hvorki væri sanngjarnt nje heppilegt að láta sjerfræðinga í þessum efnum fá svo lítið fyrir starfa sinn, að þeir gætu ekki hjálpað fátækum mönnum, sem vitja þeirra.

Það væri broslegt að bera frv. undir Læknafjelagið, því að þaðan er það komið. Þá er það ekki rjett hjá háttv. þm. (JJ), að ekkert sje gert í fræðsluáttina með frv., því í 16. grein stendur. með leyfi hæstv. forseta:

„Heilbrigðisstjórnin getur krafist þess, að kensla um kynsjúkdóma og varnir gegn þeim sje tekin upp í þeim skólum, sem hún telur þess mesta nauðsyn“.

Og enn fremur stendur:

„Öll íslensk skip skulu skyld til þess að láta alþýðlega bók um kynsjúkdóma og eitt eintak af lögum þessum fylgja lyfjakistli skipsins“.

Og í þriðja lagi er ákvæði í líka átt, þar sem mikið er um útlendar skipakomur. Með öðrum orðum: Það er lögð rík áhersla á, að almenningur fái sem besta þekkingu á þessum efnum.

En hitt er sjálfsagt, að fara með fullkominni leynd með sjúkdómana, því ella mundi margur veigra sjer við að fara til læknis, og er því leyndin til þess, að frekar er hægt að hefta sjúkdómana.

Í svari mínu til háttv. frsm. (SHK) tók jeg fram, hverjar till. jeg gæti fallist á og hverjar ekki. Okkur ber ekki mikið á milli, og ættum við því að geta orðið samferða að mestu leyti; aðeins þetta, að stjórnin vill ganga lengra en nefndin.