27.04.1923
Neðri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

121. mál, varnir gegn berklaveiki

Frsm. (Björn Hallsson):

Þegar lögin um varnir gegn berklaveiki voru til umræðu og meðferðar hjer í þessari háttv. deild 1921, rekur ef til vill einhverja háttv. þm. minni til þess, að jeg og háttv. þm. Str. (MP) ýttumst nokkuð á um það, hvort þessi lög ættu að koma til framkvæmda strax eða að því skyldi frestað vegna fjárskorts og erfiðleika á framkvæmd þeirra. Okkur greindi ekki á um undirbúning málsins frá hlið læknastjettarinnar í raun og veru, heldur um kostnaðinn. Jeg var þá frsm. allshn.; hún lagði þá á móti því, að málið gengi fram, en lagði til, að því væri með rökstuddri dagskrá vísað til umsagnar sýslunefnda, vegna kostnaðarhliðarinnar; vegna þess, að til þeirra kasta myndi allmikið koma með fjárframlög til framkvæmdar laganna. Nú er það komið í ljós og sú raun á orðin, að þetta var ekki allsendis ófyrirsynju gert; þessi kostnaður er þung byrði á sveitarsjóðum og ríkissjóði, og sýslufjelögin stynja nú þegar undir þeim gífurlega kostnaði, sem framkvæmd laganna fylgir, og það svo, að sveitarsjóðir í sumum sýslum rísa tæplega undir, og við því bjóst allshn. þegar hún vildi fresta málinu 1921, Þess vegna var ekki ósanngjarnt, að sýslu nefndirnar fengju að segja sitt álit áður en lögin yrðu samþykt. Það var þetta, sem nefndin óttaðist, eins og þá var margtekið fram, en ekki það, að hún vildi ekki vinna að útrýming berklaveikinnar. Nú eru þessi lög ekki nema að litlu leyti komin til framkvæmda enn, eins og vænta mátti, vegna kostnaðarins, vegna þess að ekki hefir verið hægt fjárhags vegna að ráðast í þær byggingar, sem óhjákvæmilega þarf að reisa, til þess að lögin komi að fullu gagni.

En nú verður að reyna að framfylgja þessum lögum sem best, úr því þau voru sett, og er þá ekki um annað að ræða en að gera þau þó framkvæmanleg vegna kostnaðarins fyrir hlutaðeigandi dvalarhjeruð.

Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, á þskj. 262, er komið fram af því, að sum sýslufjelög hafa orðið mjög hart úti og er um megn að rísa undir kostnaðinum. Háttv. aðalflm. þess (SvÓ) skýrði það rækilega við 1. umr., og skal jeg ekki endurtaka það hjer. En það er eðlilegt, að svona fari, þar sem sveitarsjóðirnir hafa ekki aðra tekjustofna en aukaútsvörin, sem er jafnað niður eftir efnum og ástæðum, og eru takmörk fyrir því, hvað á er hægt að leggja. Því er sanngjarnt, að ríkissjóður hlaupi undir baggann, þegar um er að ræða stöðvun berklaveikinnar. þegar sýslufjelögin geta ekki borið kostnaðinn, þar sem það er í raun og veru alþjóðarmál að vinna bug á veikinni. Eins og háttv. aðalflm. frv. (SvÓ) tók fram, þá eru gjöldin orðin allhá, sem leiða af þessari lagaframkvæmd, í 6 sýslum er það frá 1.40–3.20 krónur að meðaltali á mann síðastliðið ár, og er það hár nefskattur auk annara skatta. Það verður því að telja nauðsynlegt, að þingið sjái um, að þetta verði ekki einstökum sveitarfjelögum um megn, því að gjaldið getur hækkað enn.

Þetta frv. gengur nú í þá átt, að sett verði hámark fyrir því, hvað greiða skuli fyrir hvern mann úr sýslusjóði til jafnaðar. Nefndin taldi farið nokkuð nærri meðalhófi í frv. þessu og leggur til, að það verði samþykt. Hámark gjaldsins er þar sett kr. 2.25, og því nokkur ljettir fyrir þær sýslur, sem verst eru settar, en þó er það hins vegar nokkuð mikið gjald.

Háttv. þm. Dala. (BJ) bar fram frv. eftir ósk kjósenda sinna, sem hann svo tók aftur, er þetta kom fram, þar sem hann setti kr. 1.50 að meðaltali á mann. Nú flytur hann brtt. við þetta frv., þar sem hann vill færa þetta meðaltal úr kr. 2.50 í kr. 1.50, og til vara 2 krónur. Nefndin hefir ekki tekið ákvörðun um þessa till., og hafa nefndarmenn því óbundnar hendur. Hins vegar finst mjer mikið ljett á dvalarhjeruðum, sem harðast verða úti, með ákvæði frv., og þar á meðal fyrir kjördæmi háttv. þm. Dala. (BJ), þar sem hefir verið greitt síðasta ár kr. 2.93 á mann í því hjeraði. Mjer er ekkert kappsmál, hvort verður ofan á, að setja, eins og frv. gerir ráð fyrir, kr. 2,25 á mann, eða varatill. háttv. þm. Dala. (BJ), 2 kr., en aðaltillaga hans finst mjer of lág. Vænti jeg því, að hún verði ekki samþykt.

Mjer finst satt að segja, að vjer verðum að gá að því að vera ekki of kröfuharðir við ríkissjóðinn. Hann hefir, eins og allir vita, í mörg horn að líta, og berklavarnirnar eru orðnar þungur baggi á honum. T. d. eru veittar til þeirra í fjárlögunum 1924 120000 kr., og er það engin smáræðisupphæð, og mun þó síst af veita. Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Nefndin telur, eins og jeg áður tók fram, rjett, að frv. nái fram að ganga, og jeg býst við, að háttv. deild muni taka í sama streng.