09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

24. mál, fjáraukalög 1922

Forsætisráðherra (SE):

Það var minst hjer á nokkra liði, sem snerta mig. Fyrst var kostnaðurinn við ferðalag augnlæknis til Austfjarða. Það kom í fyrra beiðni frá Sveini alþm. Ólafssyni frá Firði um að fá augnlækni til Austfjarða. Sagði hann, að þar væru um 40 sjúklingar, er sumir væru svo gamlir og örvasa, að þeir gætu ekki ferðast til Reykjavíkur, og sumpart svo fátækir, að þeir gætu ekki kostað för sína hingað. Stjórnin sneri sjer því til Andrjesar heitins Fjeldsteds, en hann sagðist þá hafa svo marga sjúklinga, er sumpart væri búið að gera skurði á og sumpart þyrfti að gera uppskurði á, að ekki gæti komið til mála, að hann færi. Þá sneri stjórnin sjer til hins augnlæknisins og fjekk hann til að fara. Þetta var mannúðarkrafa, sem farið var fram á, og stjórninni fanst sjálfsagt að reyna að hjálpa þessum mönnum.

Hvað snertir bygginguna á Mælifelli, þá er það rjett, að í hana fór mikið fje. Það var byrjað á þeirri byggingu áður en núverandi stjórn tók við. Í þinglok í fyrra fór jeg til hv. fjvn. Nd. og skýrði frá, hve mikill kostnaðurinn væri orðinn, og áleit hún engin tök á öðru en halda áfram. Kostnaðurinn við þetta hefir orðið um 30 þúsund krónur. Jeg mintist á það við háttv. fjvn. Nd., hvort tilætlunin væri að taka fje til Mælifellsprestssetursins af því fje, sem heimilt er að lána til prestssetra, sem nemur um 15 þús. kr. á ári. Nefndin leit svo á, að þetta tilfelli væri alveg sjerstakt, og væri því ekki rjett að taka af þessari upphæð í þessu augnamiði. Þessu var jeg alveg samdóma, þar sem jeg vissi, að mikil þörf var fyrir þetta fje annarsstaðar. Vona jeg, að háttv. deild líti eins á þetta mál, og ef engin mótmæli koma fram, lít jeg svo á, sem á þetta hafi verið fallist.

Þá vil jeg minnast nokkrum orðum á kirkjugarðinn í Reykjavík.

Það hafði verið farið fram á það við mig, að jeg veitti 50 þús. kr. til að fylla upp kirkjugarðinn. En eftir samráði við vegamálastjóra ákvað jeg að veita megi meira í þetta sinn en minst varð komist af með. En ekki var hægt að komast hjá því að gera eitthvað.

Þá hefir verið minst á að hækka legkaup í Reykjavík, til að standast þann kostnað, er af uppfyllingu kirkjugarðsins leiðir. Jeg er alls ekki mótfallinn því, að það sje gert að einhverju leyti. Eftir lögum frá 1915 er legkaupið 2 kr. fyrir börn og 4 kr. fyrir fullorðna, miðað við 25 ár. En miðað við 50 ár 8 kr. Ekki mun vera legkaup annarsstaðar á landinu, og myndi því mælast illa fyrir, ef það yrði hækkað mjög mikið hjer. Jeg veit eigi fyrir víst, hverju legkaupið nemur nú árlega; held að það sje 1100–1500 kr. Garðinn verður að bæta, svo að hann sje nothæfur, og er jeg ekki mótfallinn því að hækka legkaupið eitthvað, til þess að minka þann kostnað, sem af því leiðir.

Þá er það Akureyrarskólinn. Það má segja, að þessar 59 þús. krónur, sem til hans gengu, sje mikil upphæð. En svo var mál með vexti, að þegar athuguð voru eldstæði skólans, ofnar og eldavjelar, þá kom í ljós, að svo illa var frá þeim gengið, að stórra umbóta þurfti og vafi á, hvort skólahúsið fengist vátrygt með sama fyrirkomulagi. Heildarviðgerð hefði kostað mikið, og því þótti rjettara að setja í húsið miðstöðvarhitavjel, sem hvort sem var hefði komið þar fyr eða síðar. Eldhættan er auðvitað miklu minni.

Um kostnaðinn, sem af þessu leiddi, er ekki hægt að dæma um, nema með því að hafa reikningana fyrir sjer. Skal jeg senda þá til hv. fjvn. Jeg álít, að rjettara hafi verið að láta heildarviðgerð fara fram, úr því ekki varð hjá viðgerð komist. Annars er jeg þakklátur háttv. fjvn. Nd., sem hafði ekkert við þessa fjárveitingu að athuga, þó há væri. Sömuleiðis hv. fjvn. Ed., því eftir því sem frsm. hennar (EA) fórust orð, þá er hann beinlínis þakklátur fyrir, að það var gert.

Þá skal jeg síðast minnast á skrifstofukostnað húsagerðarmeistara. Það er ekki hægt að komast hjá því, að húsagerðarmeistari hafi skrifstofu. Hann hefir mikið með höndum, þar á meðal stórbyggingar, eins og t. d. Landsbankahúsið. Það liggur í hlutarins eðli, að ekki er hægt að ætlast til, að hann greiði kostnaðinn af skrifstofu sinni af laununi sínum, en án skrifstofu er ekki hægt að ætlast til, að hann geti gert hinar ýmsu teikningar og int af hendi þau margvíslegu störf, sem á honum hvíla.

Skal jeg svo eigi fara fleiri orðum um þetta að sinni.