09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

1. mál, fjárlög 1924

Jakob Möller:

Það eru aðeins nokkur orð út af ummælum hv. frsm. fjvn. (MP) í garð fjhn. út af tekjuskattinum. Hugsa jeg, að hv. frsm. meiri hl. þeirrar nefndar, hv. 1. þm. Skagf. (MG), hafi ekki veitt þeim eftirtekt: annars mundi hann hafa svarað. Háttv. frsm. fjvn. (MP) Ijet það skiljast á sjer, að fjvn. hefði efast um það, að fjhn. heföi gert sjer glögga grein þess, hvað tekjuskatturinn mundi rýrna mikið við breytingu hennar.

Mig furðar á þessum ummælum, því að svo mikið var rætt um þessa breytingu, að auðsætt var, að fjhn. hafði gert sjer þess ljósa grein. Fjhn. var þess vel vitandi, að skatturinn af lægri tekjunum mundi minka allmikið, en sú rýrnun náðist upp með hærri skatti á háu tekjunum, sem fjhn. lagði til að samþyktur yrði. Háttv. frsm. fjvn. sagði, að eftir því, sem heyrst hefði, mundi skatturinn af lágu tekjunum rýrna um 40%. Má vera, að þetta sje rjett, en ef miðað er við skattinn síðastliðið ár, mun sú rýrnun ekki nema meira en 320–360 þús. kr., því að nærri mun láta, að skattur af þessum tekjum hafi numið 800 –900 þús. kr.

Samkvæmt till. fjhn. hefði skatturinn ekki hækkað eins mikið eins og varð að lokum hjer í þinginu, og í raun og veru hefði hann lækkað lítið frá þá gildandi skattalögum, sökum þess, hvað hann var miklu hærri á háu tekjunum samkvæmt tillögum nefndarinnar. Og mundi sú hækkun hafa numið því, sem hann lækkaði á lágu tekjunum, eða alt að því. Mestu munaði, að breytingar Ed. skyldu verða samþyktar, um það, að tekjuskatturinn skyldi koma til frádráttar, og get jeg vel trúað því, að menn hafi ekki gert sjer glögga grein þess, hve miklu það nemur. En á þessu átti fjhn. enga sök. Hins vegar má vel vera, að skatturinn verði og lægri á þessu ári vegna lægra framtals. t. d. hjer í Reykjavík. En vitanlega er það alveg óviðkomandi þeim breytingum, er nú hafa verið gerðar á lögunum. En af þessum sökum hygg jeg varlegra að áætla þennan skatt nokkru lægri en gert er í stjfrv. Hefi jeg því ekkert við þessa lækkun að athuga.