11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

1. mál, fjárlög 1924

Sveinn Ólafsson:

Jeg er vanur því að tefja umr. sem minst jeg get. Gerði jeg svo í gær, þegar jeg talaði fyrir brtt. mínum við 13. og 14. gr. fjárlagafrv. Háttv. frsm. (MP) notaði sjer þetta. Hafði hann síðasta orðið um þær og vóg ekki að þeim sem vægilegast. Hann vitnaði í ræðu sinni nú til atkvgr. um þær og taldi, að í henni hefði falist skilningur honum í vil.

En háttv. frsm. (MP) mun skjátlast hjer. Jeg hefi komist eftir því síðan, að ýmsir háttv. deildarmanna hafa ekki verið búnir að átta sig á því, er þeir greiddu atkv., hvað mikil sanngirni og sjálfsögð var falin í þessum till. mínum, og hefðu gjarnan viljað bæta úr þeim skakkaföllum, sem Suður-Múlasýsla varð fyrir vegna vanhaldinna samninga af hálfu Eimskipafjelagsins við flutning byggingarefnis til vitanna við Berufjörð. Verður þessi skilningur og skýring því skammgóður vermir fyrir háttv. frsm. (MP).

Þá vildi jeg minnast á brtt. mínar við þessar greinar, 14. og 15. gr. fjárlagafrv. Brtt. við 14. gr. fer fram á, að styrkur verði veittur til viðbótar byggingar barna og unglingaskóla á Nesi í Norðfirði. Er jeg þakklátur hæstv. forsrh. (SE) fyrir undirtektir hans um þetta, fyrir það, af hve ljósum skilningi og velvild hann talaði um þetta mál og kannaðist við það, sem háttv. frsm. (MP) kannaðist ekki við, hversu rík sanngirniskrafa þetta er og hvað upphæð þessi er hverfandi lítil, samanborið við ýmsar aðrar upphæðir, sem veittar eru og veittar hafa verið til skólabygginga.

Háttv. frsm. kvartaði yfir því, að ekki lægi fyrir áætlun um byggingarkostnaðinn. Að svo komnu er hennar ekki mikil þörf, og jeg gat ekki komið með hana svo glögga og nákvæma, sem jeg vildi, en eftir upplýsingum frá hlutaðeigendum, mun kostnaðurinn láta nærri að verða 50–60 þús. kr., en eitthvað getur þetta breyst, þegar sjerfróður maður hefir gert áætlunina. Af þessari upphæð leggja fjelög þau, er jeg nefndi, til ca. 10 þús. kr. til þess að fá að byggja áfast skólanum álmu, sem aðeins hefði sama vegg og aðalhúsið á einn veg, til þess að hafa fundi í.

Háttv. frsm. sagði, að líkt mundi standa á annarsstaðar um vöntun skólahúsa. Jeg hygg, að það sje mjög óvíða. Að minsta kosti er ekkert sjóþorp austanlands jafnilla stætt og þetta um skólabyggingu eftir mannfjölda. Þau hafa öll boðleg og nothæf hús, nema þetta eina. Og þó er þetta eitt af fjölmennustu kauptúnum landsins. En skólabygging sú, sem þarna er nú, er miðuð við fólksfjöldann, er hann var 4 hundruð, en nú er hann 8 hundruð. Enn má geta þess, að þetta á jafnframt að vera unglingaskóli, því að ekkert annað hús er fyrir hann.

Jeg neita því ekki hjá háttv. frsm., að víðar kunni að vera svo ástatt, að skiftast þurfi á um kenslustofur og nota mikinn hluta dagsins vegna húsnæðisskorts, en jeg hygg, að það sje hvergi jafnerfitt sem þarna, að minsta kosti þekki jeg það ekki. En þó svo væri, að hliðstæð dæmi fyndust annarsstaðar, þá er það ekki nægileg ástæða til að neita þessu, einkum þegar litið er til þess, að hjer er um bygðarlag að ræða, sem hefir verið drýgra í framlögum í ríkissjóðinn en nokkurt annað, að stærri kaupstöðunum undanteknum.

Til þess að sýna, að þetta er ekki úr lausu lofti gripið, vil jeg benda á, að samkvæmt landsreikningnum 1921 hefir Suður-Múlasýsla borgað nær miljón kr. í ríkissjóðinn þetta ár, og var þetta þó á þeim tíma, þegar viðskiftin voru ekki komin í samt lag eftir ófriðinn, en þau höfðu flust talsvert til sýslunni í óhag á stríðsárunum. Til samanburðar vil jeg minna á, að Strandasýsla, sem stundum hefir þó verið nokkuð þurftarfrek, þótt ekki sje nefnt annað en tillagið til kolanámsins í Gunnarsstaðagróf, hefir á sama tíma greitt 55 þús. kr. í ríkissjóðinn. Er ekki svo að skilja, að jeg telji það eftir, þótt kjördæmi mitt leggi ríflega af mörkum til ríkissjóðs. Mjer er það fremur metnaðarmál, að það styðji sem best ríkissjóðinn, þótt það þiggi sáralítið af honum. En jeg tók þetta fram sökum þess, hve harkalega var að þessu kjördæmi vegið í ræðu háttv. frsm. nefndarinnar (MP).

Þá vík jeg að seinni brtt. minnþ við 15. gr., um 1500 kr. til Fræðafjelagsins til að gefa út stjörnufræði eftir Þorvald Thoroddsen. Hv. frsm. (MP) lagði einnig fastlega á móti því, að þessi brtt. yrði samþykt, og bar einkanlega við sparnaðarástæðum og að þetta mætti bíða. Það má vel vera, að það sje rjett, að þetta megi bíða, en svo er um margt, sem í fjárlagafrv. stendur. Og þess er að gæta, að Þorvaldur heitinn Thoroddsen skildist þannig við ritverk sín, þetta og fleiri, að hann gaf landinu meira en nemur útgáfukostnaði þeirra alþýðurita, er hann skildi við í handriti og óskaði eftir, að gætu sem fyrst komið á prent. Hefir Finnur Jónsson prófessor lagt mikla áherslu á, að rit þetta yrði gefið út fljótlega.

Í sama lið og þessi brtt. mín er till. um að veita 1000 kr. til útgáfu Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Hygg jeg, að þessi útgáfa megi ekki síður bíða, en langt er þó frá, að jeg leggist á móti styrk til þeirrar útgáfu. Fleira mætti benda á, sem mætti bíða; t. d. get jeg bent á 41. lið brtt. nefndarinnar. Liggur þessi brtt. að vísu ekki fyrir nú, en þess má þó geta, að þetta símasamband, sem hjer er farið fram á við einn bæ í Strandasýslu, Kaldrananes í Bjarnarfirð, og kostar 6500 kr., er í raun og veru líka aðeins lítilfjörleg þóknun til frsm. (MP). Held jeg að símasamband þetta mætti líka bíða, einkum er litið er til þess, að margir símar bíða, sem lífsnauðsyn er að fá. En auðvitað er þessi till. fram komin vegna þess, að háttv. þm. Str. (MP) á sæti í nefndinni.