18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (769)

1. mál, fjárlög 1924

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefði getað fallið frá orðinu, ef ekki hefði staðið þessi stormur um samgöngumálanefndina. En það er bygt á hinum mesta misskilningi alt þetta skraf um, að nefndin hafi samið og sent framkvæmdarstjóra áætlun Esju. Um þetta er talað hjer eins og einhverja ógnargoðgá. En sannleikurinn er sá, að framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins hefir óskað eftir tillögum hennar, og nefndin hefir orðið við þeim tilmælum hans og sent honum tillögur sínar um fyrstu ferðirnar, en jeg veit ekki, að hve miklu leyti þær hafa verið teknar til greina. Annars ímynda jeg mjer, að framkvæmdarstjórinn birti þinginu áður því slítur þá áætlun, sem hann með samþykki ráðherra telur tiltækilega, eins og venja hefir verið að undanförnu. Þingið hefir aldrei, svo jeg muni, rætt þessar strandferðaáætlanir eða greitt atkvæði um þær. Sama máli er að gegna um styrkinn til flóabátanna. Jeg man ekki til, að þingið hafi gert út um styrk til þeirra; það mun stjórnin venjulega hafa gert. Það er því skotið hjá markinu með þessum aðfinslum við samgöngumálanefndina og amstri á hana. Það er einhver hærri pólitík, sem liggur að baki þessum hávaða.

Mjer þótti undarlegt, hversu háttv. þm. Dala. (BJ) var viðkvæmur fyrir barnaskólabyggingunum. Hann hamast nú gegn barnaskólunum eins og einhverri ógnar hættu, og er þá kominn í baksegl við sína fyrri stefnu. Er þetta næsta kynlegt, því að hann hefir á undanförnum þingum verið mesta framsækinn á þessu sviði og jafnan talið fje vel varið til mentamála.