30.04.1923
Efri deild: 51. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1051 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal aðeins minnast á 53. brtt. fjvn., og jafnframt þakka henni fyrir, að hún hefir lagt til, að athugasemdin um aukavinnu húsagerðarmeistara falli niður. Nd. gekk svo frá þessu, að ríkið skyldi eiga helming þess fjár, er hann fengi fyrir verk sín í þágu einstakra manna. Mjer finst sjálfsagt, að landssjóður fái borgun fyrir það, sem húsagerðarmeistari vinnur fyrir stofnanir og einstaka menn í vinnutíma sínum og eftir fyrirlagi stjórnarráðsins. En jeg skal geta þess í sambandi við það, að ekki er heimild til að launa aðstoðarmanni húsagerðarmeistara. Stjórnin hefir nú gengið inn á, að honum skyldi launað á þessu ári af fje því, sem ætlast er til, að verði tekið fyrir vinnu húsagerðarmeistara við Landsbankann. Vegna annríkis varð ekki án aðstoðarmannsins verið.