03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

1. mál, fjárlög 1924

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg hefi litlu við það að bæta, sem hv. 2. þm. G.-K. (BK) hefir tekið fram um þá brtt. okkar að veita Sesselju Ólafsdóttur ljósmóður 2000 kr. í viðurkenningarskyni fyrir mikið og vel unnið starf. Mjer er ekki kunnugt um það, hvort hún hefir verið skipuð ljósmóðir hjer, en hitt veit jeg, að alt, sem hún hefir unnið að þessu starfi, hefir hún unnið með ósjerplægni og samviskusemi. Jeg ímynda mjer, að henni hefði veist auðvelt að fá yfirsetukvennaumdæmi, ef henni hefði verið það hugleikið; en hún kaus að vera hjer í bænum, til þess að geta betur komið börnum sínum til menta. Hún bjó við mikla ómegð og hefir verið ekkja í fjöldamörg ár; og enn fremur hefir hún átt við sjúkdóma að stríða. Yngsta dóttir hennar hefir verið brjóstveik um 5–6 ára skeið, og hefir frú Sesselja, ásamt þeim börnum sínum, sem þess voru umkomin, kostað dvöl þessarar veiku stúlku, bæði í Danmörku og í Sviss, í þeirri von, að henni mætti auðnast bati. Er mjer kunnugt um, að frú Sesselja hefir hleypt sjer í skuldir af þessum ástæðum.

Þá vænti jeg þess, að háttv. deild minnist ummæla læknanna um þessa mætu konu. Hjeraðslæknirinn í Reykjavík. Jón Hj. Sigurðsson, segir t. d., að hún hafi að mjög miklu leyti starfað meðal efnalítils fólks. Má því nærri geta, hvort hún muni ekki oft hafa starfað án endurgjalds. Ekki mun hún heldur hafa gengið ríkt eftir kaupi. Og þó að ánægjulegt sje að meðtaka góð orð og þakklæti fyrir vel unnið starf, þá verður slíkt altaf ljett í vasa.

Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú tekið fram, varð jeg vel við þeirri beiðni að gerast meðflm. þessarar till. og vil ljá henni mín bestu meðmæli, og vænti þess, að fleiri háttv. deildarmenn taki í sama streng.

Þessi kona hefir unnið til viðurkenningar, bæði af hálfu bæjarstjórnar Reykjavíkur og Alþingis. En jeg býst við, að bæjarstjórnin verði sein til að launa það, sem vel er gert af frjálsum vilja, og vænti því, að hið háa Alþingi taki henni fram og sýni þessari merkiskonu verðskuldaða viðurkenningu í eitt skifti fyrir öll.