03.05.1923
Efri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

1. mál, fjárlög 1924

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg stend hjer ásamt tveim háttv. þm. sem meðflytjandi brtt. á þskj. 519, um að veita Skúla V. Guðjónssyni lækni 1800 kr. styrk til þess að nema heilbrigðisfræði erlendis. Eins og kunnugt er, sótti þessi ungi læknir í byrjun þingsins um 5000 kr. styrk til þess að halda áfram sjernámi í heilbrigðisfræði í tvö ár, annaðhvort við háskólann í Edinborg eða við háskóla í Ameríku. Í skjali því, er hann sendi með umsókn sinni, færir hann ýms rök fyrir nauðsyn þessarar fræðigreinar, sem telja má góð og gild, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp lítið eitt úr skjali þessu. Í upphafi máls síns segir hann svo:

Heilbrigðisfræði (Hygiæne) er tiltölulega ung sjerfræðigrein læknisfræðinnar. Talin er hún mjög mikilsverð og ágrip af henni heyrir til venjulegrar læknamentunar. Hún verður æ merkilegri fyrir þá sök, að læknisfræðin hneigist nú mjög í þá átt að bæta heilbrigðishagi manna og fyrirbyggja sjúkdóma, en ekki einungis að því að lækna veika menn, því að „at ósi skal á stemma“. Aðalþættir þessa sjerfags eru: Skólaheilbrigðisfræði, sóttvarna og farsóttafræði (Epidemiologia), verkfræðileg heilbrigðisfræði, matvælaheilbrigðisfræði og loks alt, sem lýtur að almennum heilbrigðisráðstöfunum.“

Enn segir hann í niðurlagi röksemdafærslu sinnar:

„Jeg hefi ákveðið, ef þess er nokkur kostur og svo fljótt, sem auðið er, að nema þetta sjerfag sem allrabest og vandlegast. Og til þess að fá tryggingu fyrir því, að mjer takist það, vil jeg helst ná prófi í því. Þar sem þetta nám tekur tvö ár að minsta kosti, verður það dýrt og illkleift fjelausum manni eins og jeg er. Fyrir því sæki jeg um þennan styrk. Þegar jeg ákveð að leggja út í þetta nám, hugsa jeg á þessa leið: Sem allra fullkomnasta mentun og lærdóm í þessari sjergrein vil jeg fá. Þegar því er lokið, koma dagar og koma ráð. Og hina almennu læknismentun mína hefi jeg þó og ætti altaf að vera borgið. Þetta er enginn gróavegur, sem jeg held út á, og því fremur þarfnast jeg fjárins. En jeg treysti því fastlega, að geti jeg gert þetta, geti jeg orðið þjóð minni þarfari en ella.“

Enn fremur má geta þess, að læknadeild háskólans mælir eindregið með þessari styrkbeiðni og manninum sjálfum. Hún hefir með brjefi, dagsettu 14. mars þ. á., undirskrifuðu af Guðmundi Hannessyni prófessor, látið þessa getið:

„1. að það væri mjög æskilegt að völ væri á sjermentuðum lækni í þessari grein, og að staðgóð þekking á henni myndi koma að góðum notum, hvort heldur sem umsækjandinn verður síðar hjeraðslæknir eða starfar á annan hátt í landsins þarfir.

2. að Skúli V. Guðjónsson sje efnilegur læknir og líkindi til, að styrkur, sem honum yrði veittur, komi að tilætluðum notum.

Deildin er því á einu máli um að gefa umsókn hans bestu meðmæli.“

Enn fremur hefir landlæknir mælt hið besta með honum. Segir hann meðal annars: „— vil jeg vekja athygli á því, að þeir læknar, sem vilja verða hjeraðslæknar (eða landlæknar), þurfa í raun og veru allir meiri mentun í heilsufræðum en heimtuð er undir alment læknapróf.“

Þá má einnig geta þess, að Læknafjelag Reykjavíkur telur sig samdóma tillögu læknadeildarinnar. Þá hafa og nokkrir læknar utan af landi látið í ljós álit sitt á manninum og málefninu. Ingólfur Gíslason hjeraðslæknir segir í símskeyti 14. mars þ. á.:

„Hefi kynst yður sem duglegum námsmanni og mjög álitlegu læknisefni. Mæli eindregið með því, að þjer fáið styrk til Hygiænenáms.“

Jónas Kristjánsson hjeraðslæknir á Sauðárkróki símar, að hann sje samþykkur meðmælum læknadeildarinnar um styrk úr ríkissjóði til framhaldsnáms Skúla V. Guðjónssonar. Og loks mælir Þórhallur Jóhannesson læknir á Þórshöfn mjög eindregið með styrkbeiðni hans og telur vöntun heilsufræðings í landinu mjög bagalega.

Að jeg stend með þessari brtt. sprettur af því, að jeg álít tilfinnanlegan skort á sjerfræðingi í heilsufræði hjer í þessum bæ og um land alt. Að vísu hefir núverandi landlæknir unnið heilbrigðismálunum hjer í bæ og úti um land mikið gagn; en jeg leyfi mjer þó að benda háttv. deild á, að síst væri vanþörf á að tryggja sjer það, að þessi ungi læknir fái tækifæri til þess að búa sig með sjerfræðinámi undir það að verða fær um að vinna að umbótum heilbrigðismálanna hjer á landi. Fátt ætti að vera landsmönnum kærara en heilsuvörn og heilsubót einstaklinganna og heildarinnar.

Persónulega þekki jeg Skúla V. Guðjónsson lítið. Jeg veit, að hann er ættaður norðan úr Skagafirði. Þar á hann fátæka foreldra, sem ekki geta styrkt hann til þessarar utanfarar, en styrkbeiðandi mun vera — eins og fleiri námsmenn, þegar þeir hafa lokið embættisprófi — nokkuð skuldugur, og því erfitt fyrir hann að fá meira lán til framhaldsnáms. Styrkbeiðandi sýndi þegar á stúdentsárum sínum ákveðna löngun til að vinna að almennum heilbrigðismálum.

Eins og jeg þegar hefi tekið fram, hefir þessi ungi læknir eindregin meðmæli læknadeildar háskólans, Læknafjelags Reykjavíkur, landlæknis og nokkurra hjeraðslækna utan af landi, sem hann hefir unnið hjá. Nú vill hann vinna að þessu þjóðþarfa starfi og velur sjer það sem sjernám, í stað þess að leggja stund á einhverja aðra sjerfræðigrein, t. d. augnlækningar, sem óefað er miklu arðvænlegra sjernám. Þetta sannfærir mig og væntanlega fleiri um það, að Skúli Guðjónsson sje ákveðinn og ötull maður, sem gæti orðið rjettur maður á rjettum stað í þarfir heilbrigðisfræðinnar, bæði í ræðu, riti og framkvæmd. Þess vegna leyfi jeg mjer að vænta þess, að styrkur sá honum til handa, sem fram á er farið á þskj. 519, 1800 kr. hvort árið í 2 ár, verði samþyktur með yfirgnæfandi meiri hluta hjer í þessari háttv. deild. Styrkur þessi er nú 1400 kr. lægri en styrkbeiðandi fór fram á í upphafi. Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar; jeg hygg það hafi stafað af misskilningi, að styrkur þessi var feldur með jöfnum atkvæðum hjer í þessari háttv. deild við 2. umræðu, og því hefi jeg leyft mjer að koma fram með þessar upplýsingar