11.05.1923
Sameinað þing: 5. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. fjvn. Ed. (Einar Árnason):

Jeg var í nokkrum vafa um það, hvort jeg ætti að kveðja mjer hljóðs, fyrst og fremst af því, að svo mikið verkefni er fyrir höndum á þessum degi við ýms önn mál, að ekki er fært að eyða tímanum að óþörfu. Í öðru lagi af því, að fyrir eitt mun koma. hvort þetta mál verður rætt lengur eða skemur. Háttv. þm. munu vera nokkurn veginn fyrirfram ráðnir í því, hvernig þeir greiða atkvæði um þær brtt. sem að þessu sinni eru bornar fram við fjárlögin. Ekki tel jeg heldur neina nauðsyn bera til þess að ræða mikið um hverja einstaka till., þar sem þær eru allar kunningjar frá fyrri umr. um þetta mál.

Hv. frsm. fjvn. Nd. (MP) mintist á þrjár aðaltill, og ætla jeg mjer því eigi að minnast á aðrar. Það er þá fyrst fjárveitingin til rafmagnsveitunnar á Hólum. Fjvn. Ed. getur eigi fallist á, að nauðsynlegt sje að veita þetta fje nú. sjerstaklega þegar tekið er tillit til þess, hversu þröngur fjárhagur landsins er. En auk þess hefir nefndinni borist til eyrna, að þetta sje eigi lokaveiting til fyrirtækisins. því að til þess að koma því að fullu upp muni þurfa tvær aðrar veitingar jafnháar og þessi. Hjer er því um alldýrt fyrirtæki að ræða.

Þá er það till. um styrk til byggingar skólahúsa utan kaupstaða. Ágreiningurinn á milli nefndanna er sá, að fjvn. Ed. vill, að þetta sje veitt með sömu skilyrðum og áður, sem sje aðallega til nýbygginga. En Nd.-nefndin vill aðeins veita til aðgerða og hafa upphæðina minni. Er það alkunna, að víða úti um land eru hin mestu vandræði með barnaskólahús. Nefndin lítur svo á, að eigi sje rjett af ríkinu að kippa að sjer hendinni í þessu efni, en vill hjálpa hlutaðeigendum til þess að koma upp skólahúsunum. Álítur nefndin, að styrkurinn megi eigi minni vera en 15 þús. kr., og getur því ekki fallist á þær 10 þús. krónur, sem Nd.-nefndin leggur til.

Hvað lánsheimildirnar snertir, þá er það í sjálfu sjer eigi stórt atriði, en fjvn. Ed. virðist óviðeigandi að setja inn í fjárlögin mikið af slíkum lánsheimildum, sem aldrei koma að neinu liði, vegna þess að ekkert fje er fyrir hendi til að lána, og þó að nefndin hafi ekki gengið lengra en að fella niður sumar af þessum lánsheimildum, þá er það eigi af því, að hún sjái eigi, að slíkar heimildir eru í raun og veru hjegómi eins og nú stendur á. Áleit nefndin þó rjettast að gera sitt til þess, að lánsheimildirnar færu eigi svo vaxandi sem raun er á. Allar þessar lánsbeiðnir stafa af fjárkreppunni, af því að bankarnir geta eigi sint þörfum manna sem skyldi. En nefndin telur það óhugsandi, að ríkissjóður geti tekið hluta af þeirri bankastarfsemi að sjer. Jeg skal svo eigi lengja umr., en læt þetta nægja.