04.04.1923
Efri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

57. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Af því að frv. þetta er borið fram að tilhlutun stjórnarinnar, kann jeg betur við að segja um það nokkur orð. Það er þó í rauninni óþarft, því að greinargerðin ber með sjer, hvers vegna frv. er fram komið. Það hafa komið fram kvartanir frá einum hreppi í Gullbringusýslu, Gerðahreppi, að þar tíðkuðust fiskveiðar með þessari veiðiaðferð. Hreppur þessi er mjög illa kominn fjárhagslega og sveitarstjórnin kennir það að mestu leyti þessari veiðiaðferð. Þess vegna áleit stjórnin sjálfsagt að hlaupa undir bagga með hreppsbúum, og það meðfram af því, að mál út af þessu hafa verið fyrir dómstólunum hjer og í Hafnarfirði, en dómararnir treystust ekki til að dæma skipstjóra í sektir eftir lögunum um ólöglegar botnvörpuveiðar í landhelgi. Þá rannsakaði stjórnin. hvort þessi veiðiaðferð mundi annarsstaðar bönnuð, og komst að þeirri niðurstöðu, að í Skotlandi væri veiði með dragnót bönnuð nema á sjerstökum svæðum. Stjórnin sneri sjer þá til Fiskifjelagsins, og þó að stjórn þess teldi vafasamt, hvort rjett væri að banna þessa veiðiaðferð, þá varð niðurstaðan sú, að ekki væri rjett að meina hreppum, sem yrðu fyrir þungum búsifjum af henni, að gera ráðstafanir gegn því. Ef þetta frv. verður samþykt, er þetta heimild fyrir viðkomandi hreppsbúa að fá þessa veiðiaðferð bannaða, ef stjórnin er því samþykk. Hv. frsm. (KE) gat þess, að það gæti kannske verið varasamt að láta stjórnina ákveða refsingarnar, en eins og hann tók fram, er hjer aðeins að ræða um sektir, og ef ítrekað er brot, þá afli og veiðarfæri upptæk, svo jeg hygg það sje ekki neitt varasamt að láta stjórnina ráða. Annars hefi jeg ekkert á móti því, að hv. deild setti föst ákvæði um þetta, ef henni virðist það rjettara.